*

miðvikudagur, 22. maí 2019
Ásdís Kristjánsdóttir
18. nóvember 2018 12:31

Arfi í garði íslenskra peningamál

Það vakti athygli þegar aðstoðarseðlabankastjóri lét í ljós þá skoðun að ein tillaga starfshóps um endurskoðun peningastefnunnar væri „arfavitlaus“.

Haraldur Guðjónsson

Starfshópur um endurskoðun peningastefnunnar (sem greinarhöfundur sat í) skilaði af sér ellefu tillögum um endurbætta peningastefnu í júní á þessu ári og er nú þegar vinna hafin við að framfylgja þeirri tillögu hópsins um að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands með þeim hætti að aðeins einn aðili taki ábyrgð á fjármálastöðugleika. Einnig hafa fyrstu skref verið stigin við slökun innflæðishafta sem gengur í sömu átt og önnur tillaga hópsins sem snýr að fjárstreymistæki bankans. Þá er verkefnastjórn nú að störfum á vegum stjórnvalda við að endurskoða lagaumgjörð um peningastefnu, þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit í framhaldi af áliti og tillögum starfshópsins og er gert ráð fyrir að drög liggi fyrir í lok febrúar 2019.

Það er ánægjulegt að þær ellefu tillögur sem komu frá starfshópnum hafi hlotið talsverða umfjöllun og var svo einnig á peningamálafundi Viðskiptaráðs þann 7. nóvember sl. Þar kom fram í máli Seðlabankastjóra að hann tæki undir þá gagnrýni frá starfshópnum að Seðlabankinn hefði ekki sinnt fræðsluhlutverki sínu nægjanlega vel og því væri mikilvægt að auka skilning á hlutverki Seðlabankans og skapa með því sátt um peningastefnuna.

Það vakti þó athygli á fyrrnefndum fundi þegar aðstoðarseðlabankastjóri lét í ljós þá skoðun sína á einni tillögu starfshópsins að hún væri að hennar mati ekki góð og raunar „arfavitlaus“ eins og hún komst sjálf að orði. Umrædd tillaga felur í sér að breyta samstarfssamningi ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands þannig að fjármálastöðugleiki hafi forgang yfir verðstöðugleika myndist alvarleg ógn gagnvart hinu fyrrnefnda.

Staðreyndin er sú að á árunum fyrir fjármálakreppuna var fjármálastöðugleiki ekki ofarlega á forgangslista Seðlabanka Íslands. Raunar var fjármálastöðugleika hvergi getið í upphaflegu lögunum frá árinu 2001 um hlutverk bankans og það var ekki fyrr en með lagabreytingu á árinu 2013 sem fjármálastöðugleika var skotið inn í lögin. Þetta á sér þær skýringar að fyrir árið 2007 var yfirleitt litið svo á að seðlabankar hefðu í raun aðeins eitt tæki við peningastjórnunina – stýrivexti. Og þar sem seðlabankar hefðu í raun aðeins eitt tæki gætu þeir aðeins haft eitt markmið sem hlyti að vera verðstöðugleiki. Af þeim sökum gætu þeir ekki tekið ábyrgð á neinum öðrum markmiðum. Sú umræða hefur breyst og í dag, samfara aukinni ábyrgð og nýjum tækjum, hefur aukin áhersla verið lögð á fjármálastöðugleika.

Seðlabanki Íslands hefur nú á að skipa ýmsum nýjum tækjum til þess að fylgja eftir markmiðum sínum og ber þar helst að nefna þjóðhagsvarúð (e. Macroprudential Policy), sem ætlað er að hafa stjórn á magnstærðum í fjármálakerfinu, s.s. útlánavöxt og almenna áhættutöku. Þetta felur í sér tvennt: Í fyrsta lagi getur bankinn framfylgt verðbólgumarkmiði sínu með beitingu fleiri tækja en stýrivaxta einum saman – þó það sé reyndar enn svo að fundargerðir og yfirlýsingar peningastefnunefndar geti þeirra nýju tækja hvergi. Í öðru lagi getur bankinn beint sjónum sínum að fleiri markmiðum en verðstöðugleika þar sem tækin eru fleiri. Flestar tillögur starfshópsins snúa að því að búa til ferla innan Seðlabankans til þess að beita þessum nýju tækjum í samhengi við vaxtastefnu bankans og jafnframt að reyna að samhæfa framfylgd markmiða um verðstöðugleika og fjármálastöðugleika.  Í því skyni lagði starfshópurinn fram tillögur um breytingar á stjórn og skipulagi Seðlabankans, s.s. ráðningu aðstoðarseðlabankastjóra á sviði fjármálastöðugleika.

Hin „arfavitlausa“ tillaga snýst um að skapa rétta forgangsröðun á milli markmiða um verðstöðugleika og fjármálastöðugleika – og er því mjög nauðsynleg í þeirri samhæfingu sem þarf að eiga sér stað á milli beitingu hefðbundinnar peningastefnu og þjóðhagsvarúðar. Hún er byggð á breskri fyrirmynd en umgjörð peningastefnunnar í Bretlandi var endurskoðuð árið 2013 sem leiddi til breytinga á samstarfssamningi þarlendra stjórnvalda og Englandsbanka. Þær breytingar sneru meðal annars að því að við ákveðnar aðstæður hefði fjármálastöðugleiki forgang fram yfir verðstöðugleika. Þessi breyting var nú síðast staðfest þann 29. október síðastliðinn í reglulegri endurskoðun á samstarfssamningnum við Englandsbanka en þar stendur eftirfarandi:

Circumstances may arise in which attempts to keep inflation at the inflation target could exacerbate the development of imbalances that the Financial Policy Committee may judge to represent a potential risk to financial stability. The Financial Policy Committees macroprudential tools are the first line of defence against such risks, but in these circumstances the Monetary Policy Committee may wish to allow inflation to deviate from the target temporarily, consistent with its need to have regard to the policy actions of the Financial Policy Committee.“

Þetta ákvæði hjá Bretum kemur ekki til að ástæðulausu en breskt fjármálakerfi varð fyrir miklum áföllum í fjármálakreppunni haustið 2008 og þurfti breska ríkið að koma mörgum fjármálastofnunum til bjargar. Sama á við um Ísland en peningastefna Seðlabankans á árunum fyrir hrun byggði á því að viðhalda verðbólgumarkmiði með því halda gengi krónunnar uppi með gríðarmiklum vaxtamun við útlönd gegn viðskiptahalla sem nam 20-30% af landsframleiðslu, sem kollvarpaði á endanum stöðugleika fjármálakerfisins. Það hvort verðbólga sé prósentinu hærri eða lægri hafði enga þýðingu þegar fjármálahrun blasti við, með tilheyrandi áhrif á gengi krónunnar og verðbólgu. Við slíkar aðstæður hefði Seðlabankanum aldrei tekist að sannfæra markaðsaðila, heimili og fyrirtæki um að verðstöðugleiki myndi ekki víkja fyrir fjármálastöðugleika. Það er ekki augljóst hvaðan arfinn spratt sem gerði tillöguna svona vitlausa en miðað við þann þjóðfélagslega kostnað sem hlýst af fjármálaóstöðugleika – hlýtur fjármálastöðugleiki að hafa forgang yfir verðstöðugleika ef slíkar aðstæður skapast.  

Höfundur er hagfræðingur og sat í starfshópi um endurmat á peningastefnu Íslands.

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim