*

laugardagur, 20. apríl 2019
Óðinn
3. júlí 2018 11:01

Argasta hræsni

Stjórnendur Landspítalans stunda enn þann leik að rúlla sjúklingum út á ganga þegar verið er að vinna að fjárlagafrumvarpi.

Gosport War Memorial Hospital er rekinn sem hluti af NHS, ríkisheilbrigðisþjónustu Bretlands.
epa

Samkeppni milli fyrirtækja um að ná athygli og viðskiptum almennings hefur gríðarlega og augljósa kosti. Neytendur fá betri vörur á hagstæðara verði en ella og samkeppnin ýtir einnig undir nýsköpun hjá fyrirtækjum, bæði er varðar vöruþróun, en einnig í þáttum eins og þjónustu, birgðastjórnun, flutningum og svo framvegis. Fyrirtæki reyna að skapa sér sérstöðu og fátt er líklegra til að draga fyrirtæki á samkeppnismarkaði í þrot en að gera hlutina nákvæmlega eins og keppinauturinn.

                                                                ***

Þetta draga fáir í efa, þótt vissulega séu þeir ennþá til sem sjá í hillingum einhvers konar korporatíska einokun heilu atvinnugreinanna og tala þá gjarnan um að bankar séu hér of margir, eða olíufélög of mörg og að þessum fjölbreytileika fylgi sóun. Látum slíka steingervinga í friði að sinni.

                                                                ***

Enga samkeppni takk!

Þrátt fyrir augljósa kosti samkeppninnar þá eru ótrúlega margir sem telja ákveðna geira atvinnulífsins eiga að vera undanþegna samkeppni. Fólk, sem segist vilja sem mesta samkeppni á olíumarkaði, meðal tryggingafélaga og banka – fólk sem fagnaði komu Costco til landsins – segir í sömu andrá að ekki megi auka einkarekstur og þar með samkeppni í heilbrigðis- og menntageirunum.

                                                                ***

Hver sérstaða þessara tveggja geira á að vera er í raun aldrei almennilega útskýrt, heldur látið nægja að segja að þeir séu svo mikilvægir að ekki sé hægt að treysta einkaframtakinu til að skila þeirri þjónustu sem þörf krefur. Þegar haft er í huga að við erum fyllilega sátt við að láta einkaaðila um framleiðslu, dreifingu og sölu á matvælum, er erfitt að skilja þessa röksemdafærslu.

Matvælaöryggi, eins gildishlaðið og það orð er, er í raun enn mikilvægara öllum manneskjum en aðgangur að heilsugæslu eða skólakerfi. Samt eru það aðeins hörðustu kommúnistar sem vilja að hið opinbera taki að sér allan sauðfjárbúskap á landinu eða umsjón með öllum matvælaverslunum.

                                                                ***

Afleiðingin er sú að heilbrigðiskerfið og menntakerfið eru að stórum hluta undanþegin því aðhaldi sem raunveruleg samkeppni veitir. Vissulega er eitthvað um einkarekstur í báðum geirum, en hið opinbera er allt um lykjandi í geirunum tveimur.

                                                                ***

Undarlegur áhugi fjölmiðla

Fjölmiðlar eru margir sérstaklega fjandsamlegir í garð einkareksturs í þessum tveimur atvinnugreinum. Sem er kaldhæðnislegt því sömu miðlar kvarta svo sáran undan yfirburðastöðu ríkisfjölmiðilsins RÚV á auglýsingamarkaði. Þegar fyrirtæki í heilbrigðis- og menntageiranum skila hagnaði er það málað dökkum litum í umfjölluninni og sagt dæmi um það hvernig gírugir kapítalistar græða á almúganum. Þegar illa gengur hjá slíkum fyrirtækjum eru enn dekkri litir notaðir og fyrirtækin sögð sýna það að ekki sé hægt að treysta einkaaðilum til að veita þessa þjónustu.

                                                                ***

Af einhverjum ástæðum er ekki sama áhuganum fyrir að fara þegar fjallað er um rekstur opinberra stofnana. Þær eru fáar opinberu heilbrigðisstofnanirnar sem skila fjárhagslegum afgangi. Þvert á móti stunda stjórnendur Landspítalans enn þann leik að rúlla sjúklingum út á ganga þegar verið er að vinna að fjárlagafrumvarpi til að vekja upp meðaumkun fjölmiðlafólks og almennings og setja þrýsting á stjórnmálamenn.

                                                                ***

Aðhaldið er einnig lítið hvað varðar hegðun opinberra starfsmanna í þessum geirum. Þannig er ekki að finna á heimasíðu Landlæknis nýrri upplýsingar um kvartanir vegna meintra læknamistaka en frá árinu 2014 og eru þær afar þunnur þrettándi.

                                                                ***

Missti ekki starfsleyfið

Óðni varð hugsað til þessa alls þegar hann las alvarlega frétt frá Bretlandi.

                                                                ***

Á ellefu ára tímabili létust 450 sjúklingar á Gosport War Memorial sjúkrahúsinu í Hampshire vegna þess að þeim var gefið of mikið magn af verkjalyfjum. Í nýrri skýrslu kemur fram að allt að 200 sjúklingar til viðbótar gætu hafa látist af sömu sökum, en ekki sé hægt að fullyrða það vegna þess að gögn um sjúklingana finnast ekki.

                                                                ***

Á spítalanum ríkti andrúmsloft þar sem lítil virðing var borin fyrir mannslífum, svo vitnað sé beint í skýrsluna.

                                                                ***

Það segir sína sögu að skýrslan er að koma út nú átján árum eftir að misferlið á spítalanum átti sér síðast stað. Fjöldi aðstandenda hefur um áraraðir reynt að vekja athygli á því að eitthvað misjafnt ætti sér stað í Gosport og þrjátíu ár eru liðin frá því að hjúkrunarfræðingur vakti fyrst máls á því að lyfjagjöf þar væri áfátt. Alls fóru þrjár lögreglurannsóknir fram á árunum 1998 til 2006, þar sem dauðsföll 92 sjúklinga voru rannsökuð. Enginn var ákærður vegna þessa.

                                                                ***

Í skýrslunni kemur einnig fram að stjórnvöld, bæði innan spítalans og lögreglan, hafi litið svo á að aðstandendur sjúklinganna væru að „búa til vandræði“ og að athugasemdir hjúkrunarfræðinga hafi verið þaggaðar niður.

                                                                ***

Aðeins einn læknir, Dr. Jane Barton, hefur þurft að svara fyrir þátt sinn í því sem á gekk. Hún var áminnt fyrir að hafa ekki sinnt skyldum sínum í aðhlynningu, tólf sjúklingum milli 1996 og 1999. Hún var ekki ákærð og missti ekki einu sinni starfsleyfi sitt, heldur fékk að fara á eftirlaun.

                                                                ***

Horft framhjá mistökunum

Óðni gengur það ekki til með þessari samantekt að halda því fram að misferlið í Gosport sé einhver sönnun þess að opinber rekstur í heilbrigðisþjónustunni sé lífshættulegur sjúklingum.

                                                                ***

Yfirgnæfandi meirihluti starfsfólks í heilbrigðisgeiranum, í hvaða landi sem það starfar, vinnur af heilindum og gerir allt sem það getur fyrir skjólstæðinga sína. Það á jafnt við um starfsmenn í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Hjá opinberum stofnunum vantar hins vegar ákveðna hvata og kerfisaðhald, sem einkareksturinn inniheldur.

Verði lækni á mistök getur sjúklingur höfðað mál og krafist bóta. Starfi læknirinn hjá opinberu sjúkrahúsi ber ríkissjóður kostnaðinn, en ef hann starfar hjá einkareknu sjúkrahúsi lendir kostnaðurinn á eigendunum. Það eitt og sér býr til aukahvata til að fara varlega, sem ekki eru til staðar í opinbera kerfinu.

                                                                ***

Það verður ekki hjá því litið að ef Gosport hefði verið einkarekið sjúkrahús þá hefðu aðstandendur ekki þurft að bíða í áratugi eftir því að mál ástvina þeirra yrðu skoðuð, eða að fjölmiðlar hefðu sýnt þessu jafnlítinn áhuga og raun virðist vera.

                                                                ***

Þeir sem hvað hrifnastir eru af opinberum rekstri í heilbrigðisog menntakerfinu hafa nefnilega þann leiða ávana að horfa alfarið framhjá göllunum við það fyrirkomulag. Mistök og misferli eru afgreidd sem einstök mál, sem ekki hafa með rekstrarformið að gera. Þegar hins vegar samskonar mistök og misferli koma upp í einkareknum fyrirtækjum er það blásið út og sagt óhjákvæmileg afleiðing „græðgisvæðingar“.

                                                                ***

Á mannamáli er slíkt kallað hræsni.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim