Hagvöxtur verður 1,5% árið 2019 samkvæmt þjóðhagsspá Íslandsbanka frá 26. september síðastliðnum. Í þeim þremur spám sem bankinn hafði áður gefið út frá því í september í fyrra var gert ráð fyrir að vöxtur fjárfestingar árið 2019 yrði að lágmarki 4%. Síðast í maí var gert ráð fyrir 5,4% vexti en í nýrri spá bregður svo við að á næsta ári verður sennilegast 0,6% samdráttur í fjárfestingu.

Aðallega er atvinnuvegafjárfestingu um að kenna sem er erfið spástærð nema fyrirliggjandi séu opinberar áætlanir fyrirtækja. Myndin sýnir skiptingu fjárfestingar atvinnuvega frá árinu 1990 samkvæmt Hagstofu Íslands en samtala hennar í fyrra var liðlega 400 milljarðar króna.

Í ljósi nýlegra frétta um 6 milljarða króna fjármögnun WOW air hf. og greiðslustöðvun Primera Air er horft mikið til fjárfestingar í ferðaþjónustu. Myndin sýnir að fjárfesting í skipum og flugvélum hefur að jafnaði numið 8% af heildarfjárfestingu ár hvert og 33 milljörðum í fyrra. Ef ein flugvél myndi heltast úr lestinni geta um fimm skip komið til móts við upphæðina. Ágætt er að rifja upp fjárfestakynningu Icelandair group hf. fyrir annan ársfjórðung þar sem fram kemur að félagið hefur ekki hætt við fjárfestingu sex nýrra 737-MAX véla árið 2019. Þá veit lesandi að ef umrædd fjárfesting er innflutt – eins og flugvélar – hefur samdráttur hennar nettó engin áhrif á hagvöxt.

En ef spáin rætist veit lesandi að framleiðsluspenna dregst saman og verður jafnvel hverfandi en í Peningamálum Seðlabankans í ágúst er gert ráð fyrir 1% spennu árið 2019. Í slíku ástandi má gera ráð fyrir að um 67% líkur séu á að peningastefnunefnd horfi fremur til verðbólguálags yfir 2,8% sem rökstuðning fyrir óbreyttum vöxtum ef marka má ákvörðunarlíkan nefndarinnar sem fjallað var um hér í apríl í fyrra. Við lok viðskipta síðastliðinn þriðjudag var fimm ára álagið 3,8% samkvæmt Kodiak Excel og hefur hækkað um 86 punkta síðan í júní.

Ákveðnar vísbendingar eru um að framleiðsluspenna fari minnkandi á næsta ári. Til að mynda kemur fram á mynd II-18 í Hagvísum Seðlabankans sem gefnir voru út síðastliðinn föstudag að væntingar 400 stærstu fyrirtækja landsins um horfur í efnahagsmálum til næstu sex mánaða hafi aldrei verið verri. Að þeirra mati eru horfurnar nærri tvöfalt verri en árið 2009. Afstaða meðal fjárfesta – sem fjármagna stærstu fyrirtæki landsins – er önnur sem greina má meðal annars á að gildi kennitölunnar virði-á-móti-hagnaði fyrir Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar var 17 í lok september (sjá hi.is/~boo4) sem gefur til kynna eðlilega verðlagningu miðað við nýjustu hagnaðartölur.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.