*

sunnudagur, 22. júlí 2018
Huginn og muninn
18. ágúst 2017 12:55

Ástæðan fyrir ákvörðun Halldórs

Margir telja að rekja megi útspil oddviti sjálfstæðismanna í borginni til ákvörðunar sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík.

Haraldur Guðjónsson

Það kom flestum í opna skjöldu að Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, skyldi tilkynna í fyrradag, að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér til borgarstjórnarkosninganna á næsta ári. Til þessa hefur Halldór talað eins og forystuhlutverk sitt í komandi kosningum væri sjálfgefið og að engu haft háværa gagnrýni um að hann yrði að víkja, þó ekki væri nema í ljós kosningaósigurs Sjálfstæðisflokksins í borginni síðast. Sjálfur hefur hann til þessa sagst ætla að leggja það í dóm kjósenda í prófkjöri. Það hefur greinilega breyst síðustu daga, en í viðtali við Stöð 2 sagðist Halldór hafa tekið þessa ákvörðun fyrir 10 dögum eftir að hafa hugsað málið vel í sumarfríinu.

Margir rekja þetta útspil Halldórs til ákvörðunar sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík um að halda leiðtogaprófkjör 21. október, en stilla listanum að öðru leyti upp. Hann hafi talið sig a.m.k. eiga eins góða möguleika og hver annar í efsta sætið í venjulegu prófkjöri, þar sem atkvæði keppinauta myndu dreifast talsvert. Lögmálin í leiðtogaprófkjöri væru hins vegar önnur, þar yrðu færri í framboði og hann ætti erfiðara með að svara spurningum um frammistöðuna á kjörtímabilinu, sem margir flokksmenn hafa gagnrýnt leynt og ljóst. Hvernig sem því er farið, þá er ljóst að forystumál sjálfstæðismanna í borginni hafa galopnast við þetta og leiðtogakjörið fjörlegt. Það verður enda nóg að gera hjá sjöllunum, því aðeins tveimur vikum eftir leiðtogakjörið verður haldinn landsfundur, þar sem kjörinn verður nýr varaformaður. Ekki verður það til þess að einfalda kapalinn!

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.