*

sunnudagur, 24. júní 2018
Leiðari
16. mars 2017 09:47

Átakamaður í formannsstól

Kosningabarátta Ragnars Þórs einkenndist öll af orðræðu átaka. Þetta er áhyggjuefni ekki bara fyrir atvinnulífið, heldur einnig fyrir félagsmenn VR.

Aðsend mynd

Kjör Ragnars Þórs Ingólfssonar í embætti formanns VR er ekki til þess fallið að auka bjartsýni á að næsta lota kjarasamningsviðræðna fari fram í friði og spekt. Þvert á móti einkenndist kosningabarátta Ragnars öll af orðræðu átaka. Þetta er áhyggjuefni ekki bara fyrir atvinnulífið, heldur einnig fyrir félagsmenn VR.

Síðast þegar boðað var til allsherjarverkfalls á íslenskum vinnumarkaði ákváðu félagsmenn VR að taka þátt í því. Öllum sem vildu mátti hins vegar vera ljóst að ef til verkfallsins hefði komið hefði stór hluti félagsmanna, jafnvel meirihluti, orðið verkfallsbrjótur.

Þátttaka í kosningum í VR hefur lengi verið arfaslök. Má sem dæmi nefna að kosningaþátttaka í nýafstöðnum formannskosningum var aðeins 17,09%. Þann 19. maí 2015 var þátttaka í kosningum um boðun verkfalls 25,2% og þar af greiddu 57% atkvæði með verkfalli.

Lítill minnihluti félagsmanna samþykkti verkfallsboðunina. Formanni og stjórn VR varð fljótlega ljóst að raunveruleg hætta væri á að verkfallsvopnið myndi snúast í höndum þeirra. Fjöldi félagsmanna hafði engan áhuga á að leggja niður störf með tilheyrandi tekjutapi og ætlaði að gerast verkfallsbrjótar, leynt eða ljóst. Það hefur eflaust leikið stórt hlutverk í þeirri ákvörðun stjórnarinnar að fresta verkfallinu áður en til þess kom.

Nýr formaður VR ætlar ekki að taka sæti í miðstjórn ASÍ og hefur sagt SALEK samkomulagið dautt. Hann mun eflaust verða enn harðari en forveri hans í því að beita verkfallsvopninu í komandi viðræðum og það er þá á ábyrgð almennra félagsmanna í VR að láta honum verða að ósk sinni eða ekki.

Ragnar hefur einnig talað um að það sé verkalýðsfélaganna að berjast gegn verðtryggingunni og á hann öflugan bandamann í þeirri baráttu í Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness. Vilhjálmur sendi Ragnari heillaóskaskeyti í pistli á Pressunni þar sem hann segir að samstarf og samvinna Verkalýðsfélags Akraness og Ragnars Þórs á þingum ASÍ hafi verið órjúfanleg. Vilhjálmur hefur verið sá verkalýðsleiðtogi sem undanfarin ár hefur verið einna herskáastur í orðræðu og athöfnum og hefur lítið gert til að stuðla að friði á vinnumarkaði. Það að hann telji sig hafa fundið bandamann í nýkjörnum formanni VR er ekki tilefni til bjartsýni.

Þá er einnig mikið áhyggjuefni að heyra hann tala um fjárfestingar lífeyrissjóðanna, en VR skipar helming stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Hann vill að lífeyrissjóðirnir komi að uppbyggingu húsnæðis, til dæmis með því að fjármagna „óhagnaðardrifin“ leigufélög.

Hlutverk lífeyrissjóðanna er það eitt að ávaxta fé sjóðsfélaga. Hlutverk þeirra er ekki að fjármagna gæluverkefni stjórnmálamanna, hvort sem þeir sitja á Alþingi eða á skrifstofum verkalýðsfélaga. Óskandi er að stjórn VR hugi að lögbundnu hlutverki sínu þegar krafan um breytta fjárfestingarstefnu berst frá skrifstofu formanns VR.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.