Yfirleitt er hér því sleppt að fjalla um lífsstílsumfjöllun og slebbafréttir í fjölmiðlum. Þar ræðir enda yfirleitt fremur um afþreyingarefni en eiginlegar fréttir og sjaldnast mjög viðkvæm eða mikilvæg málefni til umfjöllunar. Jú, víst er nóg um ambögurnar og lágkúruna, tilefnisleysið og fánýtið, en hér væri vart um annað fjallað ef verið væri að eltast við það allt.

Hjá hinu er þó ekki hægt að líta að þar ræðir um mjög vinsælt fjölmiðlaefni, sem yfirleitt er lesið upp til agna, hvort heldur er í blöðum eða á vef. Slebbafréttir gera sig ekki síður á öldum ljósvakans, jafnvel þannig að úti í hinum stóra heimi eru heilu sjónvarpsrásirnar helgaðar fréttum úr afþreyingariðnaði, lífsstíl hinna ríku og frægu og því öllu. Áhuginn er slíkur, að það er ekki hægt að efast um að þar ræðir um jafnveigamikinn þátt menningar vorra daga og við ályktum um Róm af skylmingaþrælum Coloseum eða íþróttum Messalínu.

Eins sjáum við þetta á hinum ýmsu lífsstílsbloggum og félagsmiðlum, þar sem „áhrifavaldar“ leiða okkur fyrir sjónir að þessi eða hin gerðin af augnskugga færi okkur lífshamingjuna frekar en hinar. Slík umfjöllun hefur veitt hefðbundnum fjölmiðlum töluverða samkeppni, sem þeir hafa margir reynt að svara með svipuðu efni, nú eða með því að ráða slíka stílpenna til sín. Netið með sínar smelludólga hefur síður en svo dregið úr þessu, meðal annars með þeirri afleiðingu að jafnvel hinir virðulegustu miðlar eiga bágt með að láta slíkt efni eiga sig, enda lesturinn og auglýsingasalan sem með fylgir nánast ómótstæðileg. New York Times er ekki að flíka slebbasíðu sinni á forsíðu vefjar síns, hún er undirsíða tískusíðunnar, en samt ein vinsælasta vefsíða blaðsins, sem útgefendunum finnst hálfóþægilegt að ræða fyrir framan hina hefðbundnu lesendur blaðsins (velmegandi vinstrimenn).

Það þarf svo sem ekki ýkja virðulega miðla til heldur. Síðdegisblaðið Daily Mail í Bretlandi er þekkt fyrir hörku og afdráttarlausar skoðanir (til hægri), en vefur blaðsins er orðinn allt annar miðill, helgaður skjákílómetrum af slúðri um ævintýri og ömurð fræga fólksins. Útgefandinn harmar það ekki, enda blaðið bara miðlungi vinsælt á heimavelli, en vefurinn orðinn vinsælasti dagblaðsvefur í heimi.

Efni af þessu tagi lýtur að miklu leyti sínum eigin, nánast óskiljanlegu lögmálum, þar sem hverflynd frægðin og nýungjagjörn dægurmenning ráða för, með ýkjukenndara viðbragði en áður eftir því sem nýjustu YouTube-stjörnurnar og fegurðarstjórar Instagram bjóða.

* * *

Þessi þróun hefur átt sér stað á litla Íslandi sem annars staðar. Umfjöllun af því taginu hefur breitt úr sér í öllum íslenskum miðlum, mismikið þó og með misjöfnum hætti. Við þvi er í sjálfu sér lítið að segja, því þó menn geri oft mikið úr dagskrárvaldi fjölmiðla, þá er það nú yfirleitt þannig að þeir þurfa að elta lesendur sína, áheyrendur eða áhorfendur.

En það má vel finna að vinnubrögðunum, því þegar slíkt efni birtist í fjölmiðlum, þá er það fjölmiðlaefni og verður að standast þær kröfur sem við gerum til fjölmiðla. Og fjölmiðlar eiga að gera til sjálfra sín.

Sumt af því sem þar birtist stenst tæpast hefðbundnar kröfur af því taginu. Á undanförnum árum hefur t.d. rutt sér til rúms birting á „kostuðu efni“, sem er auðvitað lítið annað en auglýsingar. Og stundum verra en auglýsingar, því þær eru dulbúnar sem almennt efni fjölmiðilsins, sem neytendur í hrekkleysi sínu gera ráð fyrir að sé eins og alvöru fjölmiðlaefni, skrifað af sanngirni, hlutleysi, athygli, vandvirkni og þar fram eftir götum. Ekki aðeins hagsmunum auglýsandans. Oft er slíkt efni merkt með einhverjum hætti, sjaldnast mjög áberandi þó, en maður rekur glyrnurnar ekki sjaldnar í efni sem er öldungis ómerkt, þó að af efnistökunum megi oftast merkja að það er aðallega skrifað af hollustu við auglýsandann. Alvöru fjölmiðlar sýna aðeins hollustu við almenning. Það er þeirra ríkasta trúnaðarsamband. Fyrirgeri þeir þeirri tiltrú og trúverðugleika er eiginlega allt annað glatað, því það er punkturinn með fjölmiðlum.

Sem auðvitað kemur ekki fyrir að menn gefi út auglýsingablöð í ýmsum tilgangi, en það má þá ekki rugla þeim saman við raunverulega fjölmiðla.

* * *

Tilefnið af þessu fjasi er lítið viðtal, sem fjölmiðlarýnir rakst á í vikunni. Það var birt á Smartlandi á mbl.is, en Morgunblaðið hefur þann háttinn á að halda slíku efni armslengd frá sér með því að gefa það út undir öðrum haus. Það er skynsamlegt, þó erfitt sé að sjá hvernig það land er smart í nokkrum skilningi þess orðs. Viðtalið tók sjálf Marta „smarta“ Jónsdóttir, ritstjóri Smartlands, við Ellýu Ármannsdóttur, sem mun landsmönnum að góðu kunn fyrir eitt og annað, eins og títt er um frægðarfólk: fræg fyrir að vera fræg.

Viðtalið var undir fyrirsögninni „Hefur sjaldan verið í betra formi,“ en það snerist að mestu leyti um það hvernig stæði á því. Eða öllu heldur hverju væri helst að þakka það. Þar var minnst á hugleiðslu, meðvitaðri neyslu og Guð almáttugan, mjólkursýrugerlana frá Abel Probi Mage LP299V®, kjúklingasalatið á Fresco, tilbúna kjúklinginn í Nettó, BodyPump tímana í Reebok („Reebok-stöðvarnar það besta í dag fyrir konu eins og mig“) og hina frábæru íslensku íþróttafatahönnun frá emory.is. Svo nokkuð sé nefnt.

Viðtalið skildi auðvitað eftir ýmsar spurningar, en það var auðvelt að svara þeim með því að fletta upp sams konar umfjöllun um Ellý, sem birtist í Birtu og á dv.is fyrr í mánuðinum, en þar var degi í lífi hennar lýst.

Sumt þar var meira að segja bráðfyndið, eins og þegar haft var eftir henni að hún einbeitti sér að myndlistinni og málaði aðeins myndir af nöktum konum, nánar til tekið sjálfri sér í öllum tilvikum. Um það mætti vafalaust skrifa langt mál, ekki þó síst þar sem með greininni birtist mynd af Ellý með verkum sínum: allt hestamyndir.

En það er hitt sem skiptir meira máli. Þetta efni er var allt frekar illa dulbúin auglýsing fyrir alls konar vöru og þjónustu. Ekki skal efað að allt hefur það dugað viðmælandanum til betra lífs, en eftir stendur að þetta var auglýsing. Ellý má vel mæla með því öllu, en fjölmiðlarnir eiga ekki að birta slíkan vaðal og skrum sem eiginlegt efni. Lesendur þeirra eiga betra skilið.