Blessunarlega voru stýrivextir ekki hækkaðir eftir fund peningastefnunefndar Seðlabankans í gær, en í enn eitt skiptið var sterklega gefið í skyn að slíkrar hækkunar mætti vænta á næstu mánuðum eða misserum. Ætli megi ekki líta svo á að meiri líkur séu á hækkun en lækkun.

Vandi Seðlabankans er tvenns konar. Í fyrsta lagi hefur verðbólgan, sem hann ef til vill réttilega óttaðist í kjölfar launahækkana í fyrra, ekki látið á sér kræla. Ennþá að minnsta kosti. Fyrir því eru ýmsar ástæður, ekki síst mjög dræmur hagvöxtur í ríkjunum í kringum okkur og í stærstu mörkuðum heims. Hrávörur, sérstaklega olía, hafa lækkað mikið í verði og því hefur verið talað um að verðhjöðnun hafi hér verið flutt inn.

Efnahagslegur uppgangur hefur verið hér mikill, sérstaklega í samanburði við önnur ríki, og hefur það auðveldað fyrirtækjum að taka á sig launahækkanirnar án þess að velta kostnaðinum að öllu leyti út í verðlag. Samkvæmt spá Seðlabankans verður hag­ vöxtur hér á landi 8,7% í ár og á næsta ári samanlagt, en í fyrri spá hafði Seðlabankinn gert ráð fyrir 7,7% hagvexti á tímabilinu.

Þá má heldur ekki horfa framhjá því að krónan hefur styrkst nokkuð, þrátt fyrir tölu­ verð gjaldeyriskaup Seðlabank­ ans, og hefur það einnig unnið gegn verðbólgunni. Eða öllu heldur hækkunum á vísitölu neysluverðs. En fari svo að áhyggjur seðla­ bankamanna rætist og verð­ bólgan fer aftur að hækka þá kemur hinn vandi seðlabank­ ans í ljós. Hann hefur eingöngu stýrivaxtatækið til að beita í baráttunni og eru hendur hans því bundnar.

Í afar áhugaverðu erindi á ársfundi Samtaka atvinnulífs­ins á dögunum fór Jón Daníelsson hagfræðingur yfir þá galla sem felast í því að styðjast við verðbólgumarkmið og beita vaxtatækinu fyrir lítil og opin hagkerfi. Þessar aðferðir virki vel fyrir stór hagkerfi sem sveiflist lítið í takt við ytri aðstæður. Því virki vaxtatækið betur í Bandaríkjunum en hér.

Hækkun stýrivaxta sem viðbrögð við verðbólgu hér gæti hins vegar auðveldlega haft þveröfug áhrif, eins og sást berlega í að­ draganda bankahrunsins 2008. Hærri vextir gerðu vaxtamun við útlönd enn meiri og gerðu íslensk verðbréf ennþá meira aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta. Í stað þess að slá á þenslu í sam­ félaginu má færa fyrir því rök að vaxtahækkanir hafi ýtt undir fremur en dempað uppsveifluna.

Þessu verður ekki breytt með augabragði, en það er vel þess virði að skoða það hvort við séum endilega að nota bestu tækin við hagstjórn landsins miðað við efni og ástæður. Nefndi jón að hugsanlega væri betra við íslenskar aðstæður að nota bindi­ skyldu banka til að hafa áhrif á magn peninga í umferð og þar af leiðandi á verðbólgu.