Nú þegar blikur eru á lofti um auglýsingamarkaðinn í prentmiðlum er ljóst að markaðsmenn þurfa að hugsa rækilega út fyrir kassann til þess að vekja athygli á vörum og þjónustu viðskiptavina sinna. Eitt sinn dugði fyrir verslanir að senda stutta tilkynningu í blöðin um „Nýjar vörur daglega“, eða að kakómalt sé bæði „ljúffengur og handhægur drykkur“, og málið var dautt.

Nú er auglýsingum komið fyrir næstum hvert sem maður lítur og með tilkomu internetsins er ekki skrítið að fólk hafi einfaldlega fengið nóg af þeim. Mér var hugsað til þessarar þróunar þegar ég sá forsíðu Morgunblaðsins í gær. Forsíðufréttin fjallaði um þá ákvörðun IKEA á Íslandi að lækka vöruverð í verslun sinni um 2,8% og bættist þar í hóp með fyrirtækjum á borð við Texasborgara sem vilja segja verðbólgunni stríð á hendur. Sem dyggur viðskiptavinur IKEA fagna ég þessum áformum en sem fjölmiðlamaður er ég nokkuð uggandi yfir ákvörðun Morgunblaðsins að gera forsíðuefni úr þessum tíðindum.

Ástæðan er sú að þótt þetta sé fréttnæmt þá er þetta einnig nokkuð augljóst að um svokallað fjölmiðlastönt er að ræða. Það að húsgagnaverslun lækki verð er í besta falli tilefni til stuttrar fréttar í blaðið í ljósi þess að flest fyrirtæki eru að færa launahækkanir í verðlag. Það væri hins vegar meira viðeigandi að IKEA sæi sóma sinn í að kaupa auglýsingu í blaðið. Nokkru síðar kom einnig frétt á mbl.is um að húsgagnaverslunin ætlaði sér að tvöfalda veitingastað sinn auk þess sem frétt birtist um að forseti ASÍ hvetji fyrirtæki í landinu að taka verðlækkun IKEA sér til fyrirmyndar. Verst þótti mér þó þegar megnið af viðtali mbl.is við seðlabankastjóra í kjölfar stýrivaxtaákvörðunar fór í að ræða verðlækkun IKEA. Þeir markaðsmenn sem standa að baki þessu stönti eiga hrós skilið fyrir frumlega leið til að auglýsa vörur sænska húsgagnaframleiðandans. Það er hins vegar ekki Morgunblaðinu til framdráttar að rugla saman auglýsingum og fréttaefni. Vonandi gerist það ekki aftur.