Við þurfum nýja landbúnaðarstefnu. Búvörusamningarnir sem gilda eiga til 10 ára, eru hænufet, eiginlega aftur á bak. Vonandi hafnar Alþingi samningunum og setur í gang mótun nýrrar landbúnaðarstefnu fyrir nýja tíma, með faglegum hætti.

Til að meta árangurinn af núverandi stefnu má bera saman verð á innlendri matvöru út úr búð og sambærilegum innfluttum matvælum, ef innflutningur væri opinn og tollfrjáls.

Ein af stærstu matvörukeðjunum reiknaði að beiðni undirritaðs út verð á helstu landbúnaðarafurðum ef flytja mætti þau inn tollfrjálst og án hindrana. Borin voru saman núverandi verð eins og þau eru út úr búð og verð á sambærilegri innfluttri vöru eins og matvörumarkaðurinn myndi verðleggja hana. Niðurstaðan er að ostar myndu lækka um 40%, kjúklingar 44%, kindakjöt 35%, egg 30%, svínakjöt 20% og nautakjöt 37%! Heilt yfir myndi matvælaverð lækka um 35%!

Skyldugreiðslur til landbúnaðar minna á „vistarband“

Hver Íslendingur er látinn styðja landbúnaðinn og tilheyrandi vinnslugreinar um sem nemur að meðaltali rúmlega 100.000 kr. á ári.

Fimm manna fjölskylda borgar þannig 500.000 kr. á ári til að viðhalda kerfinu. Vitað er að um 4.000 börn í landinu líða skort, sem og margir aldraðir, öryrkjar, einstæðir foreldrar… Tugir þúsunda íslenskra heimila strögla við að ná endum saman um hver mánaðamót. Fátækar fjölskyldur munar mest um lægra matarverð, bæði peningalega og gæðalega.

Stuðningur pr. bónda „út úr kú“

Skattgreiðendur og neytendur verja samtals um 35 milljörðum króna á ári vegna landbúnaðarins eða 350 milljörðum á 10 árum þegar stuðningur við matvælavinnslur er meðtalinn.

Mest hefur verið rætt um fjárstuðning við bændur „við búhlið“ en það má ekki undanskilja óhjá- kvæmilegan stuðning við vinnslurnar sem fylgir í pakkanum. Matvælavinnslurnar njóta tollverndar eins og bændur. Stuðningurinn kostar neytendur um 12,5 milljarða króna á ári. Í Evrópu er stuðningur við bændur aðeins um 1/3 af því sem hér viðgengst og í BNA aðeins um 1/5.

Stuðningurinn að vinnslunni meðtalinni er mismunandi eftir búgreinum, sjá töflu 3. Vernd hvers kjúklingaframleiðanda kostar um 192 milljónir kr. á ári að vinnslu meðtalinni, svínabúa 78 milljónir kr. og eggjabúa 44 milljónum kr. á ári. Samtals kosta þessi 50 verksmiðjubú neytendur 14 milljarða kr. á ári!

Stuðningur við mjólkurframleiðslu er í heildina hæstur, 12 milljarðar króna og næsthæstur við sauðfjárbú, 8,5 milljarðar króna. Á landinu teljast vera um 3.200 bændur þar af um 2.000 sauðfjárbændur sem flestir vinna einnig utan búsins. Það er ekki slæmt í sjálfu sér, en spurning með tilgang stuðningsins.

Meðalstuðningur pr. bónda er 7,1 m.kr./ári en 11 milljónir að vinnslunni meðtalinni. Stuðningurinn pr. bú reiknaðist talsvert hærri ef „hobbýbændur“ væru teknir út fyrir sviga. Dönsk bú fá um 3,4 m.kr. og finnsk um 2,0 m.kr./ári.

Þetta, ásamt verndar- og umhverfissjónarmiðum, ætti að sýna flestum hversu brýnt er að taka kerfið upp og móta nýja landbúnaðarstefnu.

Landbúnaðarstefna nýrra tíma

Móta þarf nýja landbúnaðarstefnu með faglegum hætti. Sækja má góðar fyrirmyndir til nágrannalandanna.

Núverandi stjórnkerfi landbúnaðarins ræður ekki við þetta verkefni, enda óraunsætt að landbúnaðarráðherra, sem virkar stundum eins og formaður í hagsmunafélagi, geti samið um hagsmuni er varða auk bænda, neytendur, skattgreið- endur, umhverfisvernd, velferð dýra og gróðurs sem og byggðastuðning almennt.

Stuðningur við landbúnað er öðrum þræði byggðamál. Verja ætti hluta af núverandi stuðningi við landbúnað í aðrar greinar sem henta betur viðkomandi svæði, svo sem ferðaþjónustu. Fella niður tollverndina, en bæta fyrir röskun og tjón með tillitssemi og beinum styrkjum.

Nýtt landbúnaðarkerfi þarf að veita virkum bændum hæfilegan grunnstuðning og frelsi til að færa sig milli búgreina og auka tekjur sínar með því að uppfylla þarfir neytenda, en að uppfylltum tilteknum skilyrðum um góða umgengni um vistkerfi og náttúru.

Með góðri byggða- og landbúnaðarstefnu má bæta lífskjör í landinu um að minnsta kosti 10%.

© vb.is (vb.is)

© vb.is (vb.is)