*

mánudagur, 28. maí 2018
Týr
14. mars 2017 13:37

Birgitta skrapar botninn í umræðunni

Að standa upp í pontu á Alþingi og fjalla um einstaklinga (og maka þeirra) með óeðlilegum hætti er hluti af venjulegum vinnudegi Pírata.

Haraldur Guðjónsson

Það er full ástæða til að gleðjast yfir því að nú standi loksins til að afnema hin margumtöluðu gjaldeyrishöft. Reyndar er ekki búið að afnema þau með lögum og Týr bíður með tappann í flöskunni þangað til að það verður gert formlega. Það er mikið ósagt og óskrifað um líf Íslendinga innan gjaldeyrishafta sem Seðlabankinn hefur stýrt með ógnarvaldi í tæpan áratug.

***

Nú er sjálfsagt og eðlilegt að menn skiptist á skoðunum um framkvæmdina sjálfa, hvort að gengið hafi verið nógu langt fram gagnvart kröfuhöfum, hvort að eðlilegt sé að starfrækja áfram gjaldeyriseftirlit Seðlabankans og hver næstu verði varðandi peningamálastjórn landsins. Þar geta menn og konur haft mismunandi skoðanir og ekkert nema gott um það að segja, enda eðlilegur hluti í lýðræðisþjóðfélagi.

***

Eins og svo oft áður tók Birgitta Jónsdóttir, sjálfskipaður foringi Pírata, sig til og skrapaði botninn í umræðunni þegar rætt var um afnám hafta og næstu skref á Alþingi í gær.

***

Til að skýra málið betur þá var um helgina skipuð verkefnisstjórn um endurmat peningastefnunnar, sem að vísu er einnig í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem fjallað er um mikilvægi þess að forsendur peninga‐ og gjaldmiðilsstefnu Íslands verði endurmetnar. Þrír einstaklingar skipa umrædda verkefnastjórn; Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur, Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur og Illugi Gunnarsson hagfræðingur og fyrrverandi ráðherra.

***

Með sína sterku yfirsýn á þjóðfélagsmálin hafði Birgitta þetta um málið að segja á Alþingi í gær: „Síðan til að auka á ónotatilfinninguna þá kemur í ljós að þeir sérfræðingar sem eiga að leiða vinnuna við peningastefnuna eru fyrrum talsmenn greiningadeilda [...], aðili sem tengist Sjóð 9 og síðan annar aðili sem er beintengdur inn í Gamma. Þetta boðar ekki gott forseti, þegar kemur að því að skapa traust gagnvart nýjum tímum sem einkenna ættu nýja Ísland."

***

Förum aðeins yfir þetta.

***

Dr. Ásgeir Jónsson er í dag deildarforseti Hagfræðideildar HÍ, efnahagsráðgjafi Virðingar, höfundur bóka og greina um hagfræðimál og með virtari hagfræðingum landsins. Það eru liðin rúm átta ár frá því að Ásgeir var forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings. Síðan þá hefur hann sinnt kennslu, ráðgjöf, greiningum og skrifum á sviði hagfræði og viðskipta. Fáir búa yfir meiri reynslu af greiningum á fjármálamarkaði og hann er mjög eftirsóttur álitsgjafi á sviði peningahagfræði, þjóðhagfræði og öðrum þáttum sem snúa að hagkerfinu. Eins og gerist og gengur í hinum akademsíka heimi þá eru skoðanir hans, skrif og greiningar ekki hafnar yfir gagnrýni og um þær má deila – en enginn getur með sanngjörnum hætti efast um þekkingu hans á viðfangsefninu sem fyrrnefndur starfshópur mun takast á við.

***

Illugi Gunnarsson, fv. ráðherra og alþingismaður, hefur lokið BS-prófi og MBA prófi frá London Business School. Þá hefur hann starfað sem aðstoðarmaður forsætis- og utanríkisráðherra og var alþingismaður í tíu ár þar sem hann sat m.a. í efnahags- og skattanefnd, viðskiptanefnd, fjárlaganefnd og allsherjarnefnd. Hann vék þó af Alþingi um tíma á meðan rannsókn stóð yfir vegna Sjóðs 9. Þegar staðfesta var að ekkert saknæmt hefði átt sér stað við stýringu sjóðsins sneri hann aftur.

***

Og þá að Ásdísi Kristjánsdóttur. Ásdís starfa í dag sem forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (sú fyrsta sem gegnir því starfi). Þar áður starfaði hún sem forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. Hún lauk BS-prófi frá verkfræðideild Háskóla Íslands og MS-prófi í hagfræði frá viðskipta- og hagfræðideild HÍ. Ásdís er í dag með virtari álitsgjöfum þegar kemur að efnahagsmálum. Hún gat sér gott orð sem marktækur álitsgjafi þegar hún starfaði hjá Arion banka og hjá Samtökum atvinnulífsins hefur hún staðið fyrir margvíslegum greiningum og úttektum á íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Líkt og með Ásgeir þá er eðlilegt að ekki séu allir sammála þeim skoðunum sem hún kann að hafa lagt fram, en það er heldur ekki með sanngjörnum hætti hægt að efast um hæfni hennar og þekkingu til að takast á við þau verkefni sem nú liggja fyrir.

***

Að mati Birgittu stendur þá helst upp úr að Ásdís sé „aðili sem er beintengdur inn í Gamma“, en eiginmaður Ásdísar starfar hjá fjármálafyrirtækinu Gamma. Nú er Gamma reyndar bara hefðbundið fjármálafyrirtæki sem starfar bæði hér á landi og erlendis, en það er víst þyrnir í augum Pírata. Það sem hins vegar er mikilvægt að hafa í huga er að Ásdís hefur getið sér gott orð fyrir eigin verðleika.

***

Það er ekki hlutverk Týs að móðgast fyrir hönd þeirra einstaklinga sem hér er fjallað um, enda er það ekki tilefni þessara skrifa. Sem virkir þátttakendur í stjórnmálum annars vegar og þjóðfélagsumræðu hins vegar eru þau öll vel til þess fallin að verja sig sjálf og væntanlega með þykkan skráp.

***

Það sem hins vegar vekur athygli Týs er að kjörinn þingmaður skuli tala með þessum hætti um fólk út í bæ sem hann, þingmaðurinn, þekkir væntanlega lítið sem ekki neitt. Það kemur þó ekkert á óvart við þessi orð Birgittu. Píratar vilja og þurfa alltaf að draga upp neikvæðustu myndina, bæði af mönnum og málefnum. Þannig skapa þeir sér tilverurétt. Að standa upp í pontu á Alþingi og fjalla um einstaklinga (og maka þeirra) með óeðlilegum hætti er hluti af venjulegum vinnudegi fyrir Pírata. Eins og Týr hefur svo oft nefnt áður þá njóta Píratar sín best þegar aðrir misstíga sig.

***

Ef að það að hafa starfað fyrir tæpum áratug í greiningardeild banka, að hafa setið í stjórn verðbréfasjóðs eða eiga maka sem starfar í virtu fjármálafyrirtæki er það helsta sem Birgitta telur að verði ekki til þess að „skapa traust gagnvart nýjum tímum sem einkenna ættu nýja Ísland“ þá sefur Týr rólegur. Ef „nýja Ísland“ eins og Birgitta vill sjá það verður einhvern tímann að raunveruleika getur enginn sofið rólegur.

Stikkorð: Alþingi Gjaldeyrishöft Píratar
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.