*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Huginn og muninn
8. júlí 2018 11:01

Borgin blandar sér í húsfélagsdeilur

Það kom hröfnunum á óvart að Reykjavíkurborg varði 750 milljónum króna í að kaupa yfirgefna verslunarkjarna í Breiðholti.

Haraldur Guðjónsson

Hrafnarnir eru aufúsugestir í Breiðholtinu og verður að segjast að það kom þeim nokkuð á óvart að Reykjavíkurborg hafi varið 750 milljónum króna í að kaupa upp verslunarkjarnana í Völvufelli og Arnarbakka, sem hafa staðið auðir undanfarin ár. Hlutverk hins opinbera hefur að jafnaði verið talið að stíga inn í og bæta úr markaðsbresti sem einkaaðilar séu ekki vel til þess fallnir að greiða úr. Hrafnarnir hafa efasemdir um að stórvægilegur markaðsbrestur sé á markaði með verslunarrými í Breiðholtinu.

Nágrannaerjur og deilur um hver greiða eigi viðhald, hafa átt þátt í niðurníðslu verslunarhúsnæðisins. Spyrja má hvort Reykjavíkurborg muni bjóða upp á sömu þjónustu í öðrum húsfélagsdeilum. Herbert Guðmundsson hefði eflaust tekið því feginshendi ef Reykjavíkurborg hefði boðist til þess að kaupa raðhúsalengju sem hann bjó í, áður en deilur um kostnað við þakviðgerðir hússins fóru alla leið upp í Hæstarétt.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.