*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Bjarni Ólafsson
4. júlí 2016 16:14

Bretland og Evrópa

Bretar munu fóta sig ágætlega utan sambandsins. Það eru fáir sem kunna á alþjóðaviðskipti og -verslun betur en þeir.

Wikipedia/Themightyquill

Tilfinningarnar sem maður ber til Breta þessa dagana eru blendnar. Á fimmtudaginn varð maður gríðarlega ánægður með þá ákvörðun þeirra að þora að taka skrefið út úr Evrópusambandinu og láta ekki hræðsluáróður valdhafa ráða þeirri ákvörðun. Á hinn bóginn var ótrúlega ljúft að sjá íslenska landsliðið þramma yfir það enska og snýta öllum þeim sem töluðu af lítilsvirðingu um íslenska landsliðið og íslenska knattspyrnu. Maður vorkennir Bretum, en samt ekki. Er ánægður með þá, en samt ekki.

Þetta er flókið.

Alltént held ég að útganga Breta, að því gefnu náttúrlega að stjórnmálamenn þar í landi guggni ekki á þessu og hætti við allt saman, muni hafa meiri áhrif til lengri tíma litið á Evrópusambandið en á Bretland. Bretar munu fóta sig ágætlega utan sambandsins. Það eru fáir sem kunna á alþjóðaviðskipti og -verslun betur en þeir. Ákvörðunin um að stíga út úr sambandinu gæti hins vegar orðið alvarlegri fyrir ESB.

Það vita það allir sem vilja að óánægja meðal almennings í sambandinu er mikil og fer vaxandi. Stjórnmálamenn sem sjá sér hag í að mæta þessum áhyggjum kjósenda munu eflaust benda á Breta sem fordæmi og krefjast slíkra kosninga í eigin löndum. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart ef fleiri kosningar af þessu tagi fara fram á næstu árum, eða að minnsta kosti að tekist verði á um hvort slíkar kosningar verði haldnar.

Ég held að leiðtogar Evrópusambandsins viti þetta vel sjálfir og það skýri að hluta til af hverju þeir hafa margir tekið ákvörðun Breta af jafnmikilli hörku og raun ber vitni. JeanClaude Juncker og Francois Hollande vilja báðir refsa Bretum og helst sparka þeim öfugum út í hafsauga. Markmiðið er að fæla aðrar þjóðir frá. Það myndu þeir ekki gera hefðu þeir engar áhyggjur af framhaldinu.

Hvernig sem því líður þá held ég að sá litli möguleiki sem enn var á inngöngu Íslands í ESB hafi að engu orðið síðastliðið fimmtudagskvöld.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim