*

mánudagur, 25. mars 2019
Helgi Þór Ingason
22. október 2018 10:21

Brexit – verkefni í vanda?

Þótt líta megi á Brexit sem risastórt verkefni virðist svo sem helsta vandamálið varði óskýra stefnumörkun af hálfu breskra stjórnvalda og óskýr og jafnvel stríðandi markmið.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
epa

Daglega berast fréttir um Brexit. Þær snúast oft um afmarkaða þætti útgöngunnar en einnig um mikla pólitíska óeiningu um málið. Hér verður reynt að rýna í Brexit í gegnum sjóngler verkefnastjórnunar enda má segja að Brexit sé í eðli sínu verkefni – sem gengur út á að útfæra og innleiða stefnu stjórnvalda í Bretlandi um útgöngu úr ESB innan tiltekinna tímamarka.

Í júlí 2016 birtist grein eftir reyndan breskan verkefnastjóra sem fjallaði um Brexit sem verkefni, hið gríðarlega og fordæmalausa umfang og að ef árangur ætti að nást þyrfti einmitt að framkvæma Brexit með aðferðum verkefnastjórnunar. Ekki síst að skilgreina skýr markmið Breta og gera viðamikla áætlun, en þetta risastóra verkefni samanstæði í raun af mörgum minni verkefnum. Theresa May væri bakhjarlinn og ríkisstjórnin væri í stýrihópurinn. David Davis, útgönguráðherra á þeim tíma, væri verkefnisstjóri. Í mars 2017 skrifuðu Bresku verkefnastjórnunarsamtökin APM stutta skýrslu um Brexit. Fyrst voru forsendurnar dregnar fram, en þann 29. mars 2017 virkjaði forsætisráðherrann grein 50 í Lissabon sáttmálanum og þar með var hafið tveggja ára tímabil þar sem Bretland semur um útgöngu úr ESB.

Af hálfu breskra stjórnvalda hefur Brexit verið skipt í þrennt. Undirbúning samninga, að undirbúa breska stjórnsýslu og búa til yfirlit yfir viðhorf og sjónarmið atvinnulífs og stjórnsýslu. Svo er sjálft samningaferlið um skilmála útgöngu og nýtt fyrirkomulag samskipta. Síðast en ekki síst er svo innleiðing Brexit, þar sem bresk lög taka yfir það sem áður var hluti af lögum ESB, að hanna og innleiða nýja stefnu og reglugerðir. Brexit er stærsta verkefni sem bresk stjórnsýsla hefur staðið frammi fyrir á friðartímum. Til að árangur náist þarf að ráða marga verkefnastjóra með rétta færni og þekkingu. Forsendur fyrir árangri eru hæf verkefnateymi, skilvirk stjórnsýsla og skýr markmið. Strax vorið 2017 virtust vera töluverð vandamál varðandi allar þessar forsendur. Síðla vors 2018 fjallaði tímarit APM um Brexit út frá sjónarhóli verkefnastjórnunar (Craik, 2018). Þar segir að öldurótið sem fylgdi þjóðaratkvæðagreiðslunni í júní 2016 hafi hvergi nærri lægt og margt virðist jafnvel óskýrara nú en fyrir tveimur árum. Vitnað er í greinina frá júlí 2016 og bent á að því fari fjarri að verkefnið Brexit hafi gengið eins og ráð var fyrir gert. Að vísu hafa einhver markmið verið sett en þau eru óljós og sumpart stríðandi og mjög erfitt virðist vera að samræma ólík sjónarmið, til dæmis varðandi stöðu Norður-Írlands og samstarf í tollamálum. Einnig er því velt upp að Brexit er ekkert venjulegt verkefni. Það er runnið af pólitískum rótum, byggt á þjóðaratkvæðagreiðslu sem fylgdi engin leiðsögn um hvernig ætti að ná settu lokatakmarki. Brexit byggir á ótrúlega flóknum samningaviðræðum og kallar á víðtækt samstarf milli stofnana og deilda stjórnkerfisins og umfangið og mikilvægið er fordæmalaust.

Stærsta vandamálið felst ef til vill í óljósri setningu markmiða; markmiðin eru óskýr og uppi er óvissa um stöðu og tilgang verkefnisins. Frá sjónarhóli verkefnastjórnunar er þetta kjarni málsins. Því hefur verið haldið fram að í samræmingu Brexit skorti fjöldamörg af einkennum góðrar verkefnastjórnunar. Ekki einungis vanti skýr markmið og umfang, heldur einnig viljasterkan og öflugan bakhjarl. Einnig vanti skuldbindingu lykilhagsmunaaðila, og endatakmarkið sé óskilgreint. Af þessum ástæðum sé varla hægt að tala um Brexit sem verkefni og sumir halda því raunar fram að betra væri að líta á Brexit sem ferli. Frekara mat á stöðunni má sjá í skýrslu sem Institute for Government gaf út í júní 2018. Breska stjórnsýslan er komin í gang og gríðarleg vinna hefur verið unnin. Starfsfólki hefur fjölgað mikið; stjórnvöld hafa þegar ráðið í 2400 ný stöðugildi sem tengjast Brexit og til viðbótar koma 1300 ný stöðugildi á næstunni.

Unnið er myrkranna á milli í mörgum ráðuneytum. En stærstu vandamálin tengjast ekki stjórnsýslunni heldur miklu fremur stjórnmálunum. Skortur er á skýrri stefnu og leyndarhyggja hindra framvindu því upplýsingar færast ekki á milli eininga stjórnkerfisins og langan tíma tekur því að ná samstöðu. Forsvarsmenn eiga mjög erfitt með að gera málamiðlanir, skortur er á gagnsæi, forsendurnar eru óljósar og svo skortir á samráð við aðila utan stjórnsýslunnar og erfitt er að ráða rétta fólkið og halda því. Á sama tíma er óbærileg tímapressa og brátt eru liðin árin tvö sem gefin eru til að ljúka ferlinu. Enda þótt líta megi á Brexit sem risastórt verkefni virðist svo sem helsta vandamálið varði óskýra stefnumörkun af hálfu breskra stjórnvalda og óskýr og jafnvel stríðandi markmið. Þetta eru vel þekkt vandamál í verkefnastjórnun og afleiðingin er sú að verkefnisteymið má sín lítils, sama hversu vel mannað og hæft það er. En til viðbótar virðist nú sem fleiri og fleiri Bretar velti því fyrir sér af hverju í ósköpunum lagt var af stað með þetta verkefni. 

Höfundur er prófessor og forstöðumaður MPM náms við Háskólann í Reykjavík.

Heimildir:

  • Hopkinson, Martin. (2016). The Brexit Project - The need for a project-based approach. PM World Journal, Vol. V, Issue VIII – August 2016. Sótt 21. ágúst 2018 á https://pmworldjournal.net/wp-content/uploads/2016/08/pmwj49-Aug2016-Hopkinson-the-brexit-project-commentary.pdf
  • APM (2017). Brexit – The Great British Project? Association for Project Management. Sótt 21. ágúst 2018 á https://www.apm.org.uk/media/4425/brexitreport_2017.pdf
  • Craik D. (2018). The Ins and Outs of Brexit - Special report. Project journal, Spring 2018, Issue 294.
  • Owen J., Lloyd L. & Rutter J. (2018). Preparing Brexit - How ready is Whitehall? Institute for Government, June 2018. Sótt 21. ágúst 2018 á https://www.instituteforgovernment.org.uk/sites/default/files/publications/IFGJ6279-Preparing-Brexit-Whitehall-Report-180607-FINAL-3c.pdf
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.