Sérþekking og sérstaða eru verð mæt. Fyrirtæki sem gerir einn hlut vel er verðmætara fyrir samfélagið en það fyrirtæki sem gerir fleiri hluti minna vel. Verðmætustu fyrirtækin fyrir samfélagið eru þau sem einbeita sér að því að gera fáa hluti á heimsmælikvarða.

Fjármálaþjónustan í heiminum er gott dæmi um atvinnugrein í breytingaferli til meiri sérhæfingar enda kalla tæknibreytingar, lagabreytingar, samfélagsbreytingar og breytt hegðun viðskiptavina á ný viðskiptalíkön. „Nýju viðskiptavinirnir“ hafa meiri kaupþekkingu en áður og möguleika til að sækja vörur og þjónustu hvert og hvenær sem þeir kjósa. Þeir eru ekki, og vilja ekki vera, háð­ir vöndli af vörum og þjónustu frá sama aðila.

Fjölhæfða bankalíkanið er á útleið og sérhæfingin er að taka við. Bankar um allan heim eru að endurskilgreina hlutverk sitt og taka ákvarð­anir um framtíðina. Keppinautar koma úr nýrri átt, sérhæfðir aðilar, fjártæknifyrirtæki, sveigjanlegir keppinautar sem gera fáa hluti, og gera þá vel. Þeir eru viðbragðsfljótir og hafa viðskiptavininn í forgrunni í öllum aðgerðum sínum. Tækniþróun hefur mikil áhrif en til ársins 2025 er því t.d. spáð að gervigreind leysi af hólmi 230 þúsund störf á sviði verðbréfaviðskipta.

Fjármálakerfið í klasasamfélag

Íslenska bankakerfið verður að ganga í gegnum breytingar. Venjulega eru eigendur fyrirtækja hreyfiafl stefnulegra breytinga. Í tilviki íslenska bankakerfisins fara stjórnvöld með eignarhaldið að stærstum hluta. Það er afar óheppilegt að ríkið sé eigandi að þjónustufyrirtækjum í samkeppnisrekstri og beri ábyrgð á rekstri þeirra og stefnulegri þróun. Það er hins vegar staðreyndin sem vinna þarf út frá.

Kerfið í heild er með a.m.k. 130 milljarða af umfram eiginfé og það kostar um 7% af vergri landsframleiðslu að standa undir hóflegri arð­semi og rekstri viðskiptabankanna þriggja og Íbúðalánasjóðs. Til samanburðar, þá er þetta heldur hærra hlutfall en útgjöld til menntamála og aðeins lægra en útgjöld til heilbrigðismála.

Viðskiptalíkön bankanna eru keimlík og byggja á fjölhæfingu. Ríkið, sem eigandi, þarf að framkvæma vandaða áætlun sem byggir á að hámarka verðmæti eignarhluta síns í bankakerfinu og notagildi þess fyrir samfélagið. Vænlegasta leiðin er að minnka eigið fé, lagfæra fjármagnsskipan, ákveða sérhæfinguna og opna innviðina fyrir samstarfsaðilum, sem oft á tíðum eru einnig samkeppnisaðilar. Þannig er hægt að umbreyta fjármálakerfinu í klasasamfélag þar sem sérhæfing, samstarf og samkeppni njóta sín.

Sérhæfingin grundvallar gæðin

Í sjávarútveginum, einni af undirstöðuatvinnugrein okkar og helstu sérhæfingu, hefur orðið til klasasamfélag. Bæði með formlegum hætti, samanber Íslenska sjávarklasann, en einnig með óformlegum hætti. Í tengslum við vöxt og viðgang öflugra útgerðarfyrirtækja á heimsmælikvarða hafa orðið til fyrirtæki í stoðgreinum við útgerðina sem einnig eru á heimsmælikvarða í sinni sérhæfingu. Þar má nefna sem dæmi Marel, verðmætasta hlutafélagið á íslenska hlutabréfamarkaðnum, og Skagann 3X, sem hlaut fjölda viðurkenninga á nýliðnu ári.

Loftmengun er eitt stærsta vandamál samtímans. Talið er að árlegur samfélagskostnaður vegna loftmengunar sé u.þ.b. 5. þúsund milljarðar dala á heimsvísu og muni margfaldast á næstu áratugum. Samfélagsbreytingar, sem fela í sér tilflutning fólks úr dreifbýli í þéttbýli, og fólksfjölgun, einkum í Afríku og Asíu, hafa í för með sér gríðarlega borgaog innviðauppbyggingu. Allt eru þetta þættir sem kalla á aukna þörf fyrir nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa til raforkuframleiðslu, húshitunar og -kælingar.

Nýting endurnýjanlegra orkugjafa er sérþekking og sérhæfing sem íslenskt samfélag býr að og erum við í fararbroddi í heiminum hvað hana varðar. Sérþekking og árangur Íslands hefur skapað íslenskum vísindamönnum, sérfræðingum og athafnafólki sérstöðu á þessum vettvangi alþjóðlega. Klasasamfélag orkugeirans hefur mikla framtíðarmöguleika til að búa til verðmæti fyrir íslenskt samfélag og leysa ýmsar þarfir heimsins fyrir hreina orku.

Við mótun stefnulegrar áætlunar um umbreytingu fjármálageirans er hægt að taka mið af árangri við sérhæfingu og samstarf innan klasasamfélags í öðrum atvinnugreinum. Skilvirkt fjármálakerfi er grundvöllur öflugs atvinnulífs og ætti að taka mið af sérþekkingu og sérhæfingu þess. Innan fjármálakerfisins er jafnframt til staðar þekking á verðmætri sérhæfingu sem finna má í íslensku atvinnulífi, eins og t.d. í sjávarútvegi og orku og tengdum greinum. Sú þekking er góður grunnur til að byggja á verðmæta sérhæfingu sem hefur alþjóðlegt notagildi.

Á árinu 2018 verður því tekist á við ógnanir og risastór úrlausnarmál í fjármálakerfinu. En jafnframt eru til staðar mikil tækifæri að búa til enn betra fjármálakerfi sem byggir á sérhæfingu og sérstöðu.

Höfundur er stjórnarformaður ILTA Investments.