Við áramót er vel við hæfi að staldra við og líta yfir farinn veg. Skoða hvert við erum komin og hvernig við komumst þangað. Það á sérstaklega vel við um þessi áramót þegar fjöldi kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði er að losna og kröfugerðir stærstu stéttarfélaganna hafa komið fram. Þessi áramót marka því ekki aðeins tímamót í dagatalinu, heldur líka í efnahagslegu tilliti. Þær ákvarðanir sem við munum taka í byrjun nýs árs munu hafa mikil áhrif á líf okkar allra næstu árin. Við þurfum að taka þær ákvarðanir út frá stöðunni eins og hún er í dag og reynslu okkar af því hvernig við unnum úr sambærilegum stöðum áður.

Skoðum nokkra lykilþætti. Í fyrsta lagi eru laun nú 35% hærri en þau voru fyrir fjórum árum, verðlag 10% hærra og kaupmáttur 25% hærri. Mikill vöxtur í ferðaþjónustu, bætt viðskiptakjör og afnám tolla og vörugjalda sköpuðu þessi einstöku skilyrði fyrir þessa miklu kaupmáttaraukningu. Þær aðstæður verða ekki endurteknar. Við unnum í lottóinu og getum ekki treyst á að við gerum það aftur. Ef við lítum lengra aftur, eða allt aftur til Þjóðarsáttarinnar 1990 þá hafa laun hækkað um 430% en verðlag um 204%. Kaupmáttur launa hækkaði um 75% á tímabilinu. Þetta tímabil hefur einkennst af verðstöðugleika og miklum kaupmáttaraukningum sem var mikil breyting frá því sem áður var, eins og allir þekkja.

Í öðru lagi er tekjujöfnuður hvergi annars staðar meiri og hann hefur verið að aukast. Nýjasti Gini-stuðullinn fyrir Ísland er 24,1, en hann var 26,3 fyrir tíu árum. Því lægri sem Gini-stuðullinn er því meiri er jöfnuðurinn. Ekki er til góður alþjóðlegur samanburður á eignajöfnuði. Á Íslandi er hins vegar hægt að bera saman hver hlutdeild þeirra sem eiga mest er í heildareignum. Hvort sem litið er til þeirra 0,1%, 1%, 5% eða 10% eignamestu þá hefur hlutdeild allra þessara hópa farið minnkandi í heildareignum Íslendinga á hverju ári það sem af er þessum áratug.

Í þriðja lagi rennur hvergi hærri hluti verðmætasköpunar til launamanna, eða 63%. Það hlutfall var 56,6% árið 2011. Í fjórða lagi eru meðallaun þau önnur hæstu í heimi. Í fyrra voru heildarlaun fullvinnandi launamanna að meðaltali 706.000 krónur á mánuði og miðgildi þeirra var 618.000 krónur. Annað sjónarhorn á þessar sömu stærðir er raungengi á mælikvarða launa. Það tekur tillit til bæði gengis gjaldmiðla og launa og er einn besti mælikvarðinn á samkeppnishæfni þjóðarbúa. Raungengið á fyrri árshelmingi 2018 var í 20 ára hámarki og hafði tvöfaldast frá lægsta gildi sínu árið 2009. Það er enn mjög hátt þótt krónan hafi veikst undanfarið. Við greiðum há laun og viljum gjarnan gera það áfram. Þau verða þó ætíð að rúmast innan þess svigrúms sem til staðar er hverju sinni.

Verði samið um launahækkanir umfram það svigrúm sem er til staðar mun tvennt gerast. Í fyrsta lagi mun verðlag hækka sem mun leiða til þess að launahækkanirnar munu ekki skila sér til launafólks. Í öðru lagi mun samkeppnishæfni útflutningsgreina okkar versna. Lakari samkeppnishæfni þýða færri störf og lægri skatttekjur hins opinbera en ella. Lægri skatttekjur þýðir að við höfum minna úr að spila til að standa undir velferðarkerfinu okkar og annarri samneyslu.

Það er ansi margt í þessum heimi sem skiptir okkur miklu máli en lítið land eins og við höfum enga stjórn á. Þar má fyrst og fremst nefna viðskiptakjör á alþjóðlegum markaði. Kosturinn við þessar lykilbreytur er þó sá að þær ganga jafnt yfir öll lönd. Samkeppnishæfni okkar breytist því ekki þótt breytingar verði á þessum þáttum.

Svo eru aðrar lykilbreytur sem við sem þjóð höfum fulla stjórn á eins og launahækkanir og skattar. Þær eru þeim annmörkum háðar að þær hafa engin áhrif á fyrirtæki í öðrum löndum. Of há laun og of háir skattar hækka kostnað íslenskra fyrirtækja en hafa augljóslega engin áhrif á samkeppnisaðila þeirra í öðrum löndum. Þótt vel meinandi verkalýðsleiðtogar vilji gjarnan hækka laun mikið væru þeir að gera félagsmönnum sínum bjarnargreiða. Launin myndu ekki skila sér í auknum kaupmætti og starfsöryggi þeirra myndi minnka.

Johann Wolfgang von Goethe sagði í Raunum Werthers unga eitthvað á þá leið að það væri óskandi að fjársjóðir væri ekki jafn brothættir og þeir eru dýrmætir og fallegir. Við erum í einstakri og góðri stöðu, en hún er mjög brothætt. Góðu fréttirnar eru þó að það er algerlega undir okkur sjálfum komið hvernig við spilum úr henni.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í tímaritinu Áramót, sem gefið er út af Viðskiptablaðinu og Frjálsri verslun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .