Þær voru nokkuð fjörlegar fréttirnar úr Ráðhúsinu í liðinni viku. Eftir að meirihluti borgarstjórnar ákvað að færa Björk Vilhelmsdóttur viðskiptabann á Ísrael í pólitíska kveðjugjöf kárnaði gamanið.

Fjölmiðlar voru misfljótir að kveikja á því um hvað málið snerist eiginlega, þó það færi ekki framhjá þeim að þarna væru fréttir á ferð. Þeim var kannski vorkunn, því ekki var að sjá að allir borgarfulltrúar, jafnvel borgarstjórar, væru fyllilega með á nótunum heldur. Og þegar sjálft Ríkisútvarpið þekkir ekki muninn á borgarstjórn og borgaráði, þá er varla von á góðu.

Það kom brátt í ljós að samþykkt borgarstjórnar var eitthvað broguð, en borgarstjóri tók þá til við að spinna sig út úr vandræðunum, að tillagan hefði nú verið hugsuð öðru vísi og yrði útfærð hinsegin, dregin til baka og alls konar fyrir aumingja. Og hver veit, kannski málið hefði bara endað þar, það virtist mestur vindur úr því.

***

Þá vildi svo til að Þorbjörn Þórðarson, fréttamaður á Stöð 2, setti sig inn í málið, en hann er lögfræðimenntaður og hefur gott auga fyrir smáatriðum og næmt eyra fyrir þvættingi. Hann gerði því frétt um málið, sem m.a. innihélt viðtal við borgarstjórann.

Nú eru ágeng viðtöl engin nýlunda í ljósvakamiðlum, en þau felast þá oftast í að spyrlarnir láta sig ekki gagnvart viðmælanda, sem fer undan í flæmingi, spyrja í þaula og virðast jafnvel á þann veginn að fara að rífast við hann. Stundum getur það vel átt við, en það er þó sjaldnast mjög árangursrík viðtalsaðferð. Nema svona til þess að sýna að fréttamaðurinn sé sko ekkert blávatn!

Hitt er hins vegar sjaldgæfara, að sjá konfrontasjón og afhjúpun í fréttaviðtali, þar sem fréttamaður gefur viðmælandanum færi á að segja sína sögu en ber svo undir hann staðreyndir málsins, jafnvel hans eigin orð, sem ekki standast þær skýringar.

Ætli glæsilegasta dæmið um það sé ekki þegar Kristján Guy Burgess tók útvarpsviðtal á RÚV við Árna Johnsen í dúksmálinu miðju og spurði svo beinskeyttra spurninga af fyllstu kurteisi, að Árni gerði út um sjálfan sig með undanbrögðum, ósannindum og óbærilegum þögnum.

***

Viðtal Þorbjarnar við borgarstjóra var af svipuðu kalíberi, þó stíllinn væri annar. Þegar borgarstjóri reyndi að þæfa málið hélt Þorbjörn honum við efnið, minnti hann á ályktunina, sem er svo örstutt að í henni felst ekkert svigrúm til misskilnings eða túlkunar, dró fram að skýringar borgarstjóra stæðust ekki fékk hann loks til þess að játa að borgarstjórn hefði enga hugmynd haft um hvaða vörur hún ætlaði að sniðganga.

Þetta var vel og snyrtilega gert hjá Þorbirni, af festu en án hörku, af vissu en án oflætis. Og hann var ekki að bregða fæti fyrir viðmælandann, heldur leyfði honum að fella sjálfan sig. Í lok fréttar var öllum ljóst að þessu máli væri síður en svo að ljúka.

***

Það er eilíf ástæða til þess að brýna fyrir blaðamönnum að vanda sig við fyrirsagnasmíð. Þessi misserin er skylda að hafa myndir með öllum fréttum og því er rétt að minna menn á að samhengi mynda og fyrirsagna má ekki vera annarlegt.

Þannig var frekar skrýtið að lesa í DV fyrirsögnina „Ef þú ert gyðingur þá ertu ekki velkominn hingað“ yfir mynd af Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion. Hann hafði auðvitað ekki sagt þetta, heldur fengið bréf, þar sem bent var á að einhver kynni að draga þá ályktun af fyrrgreindri samþykkt borgarstjórnarmeirihlutans.

***

Hún var litlu skárri frétt RÚV af því að þriðja heimsstyrjöldin væri yfirvofandi: „Bandaríkin undirbúa stríð gegn Rússum“, sem svo fjallaði um að Bandaríkin ættu ýmsar hernaðaráætlanir til vara ef í odda skærist.

***

Fyrirsögn ársins er komin, en hún birtist á stuttri frétt í Vísi um kaffileytið á mánudag:

Bieber notaði almenningssalerni á Selfossi: Stefnir á gullna hringinn

Ókei. Annars voru sumir fjölmiðlar greinilega í miklu uppnámi yfir komu Kanödudrengsins knáa, en ekki síst virtust það þó vera þvaglát stjörnunnar, sem voru þeim hugleikin.

Atli Már Gylfason, blaðamaður DV, gekk þó skrefinu lengra, því hann sat fyrir Bieber, þar sem hann kom út af kamrinum á Olísstöðinni á Selfossi, og náði við hann einkaviðtali. Um það mátti lesa í einkaviðtali um einkaviðtal, sem Jakob Bjarnar, blaðamaður Vísis, náði við Atla Má.