*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Gunnar Baldvinsson
26. mars 2017 19:20

Dauðafæri á línu

Viðbótarlífeyrissparnaður og stuðningur við kaup á fyrstu íbúð eru dæmi um tækifæri sem allir sem hafa tök á ættu að nýta

Haraldur Guðjónsson

Í fjármálum þurfa einstaklingar að vera útsjónarsamir og grípa tækifæri sem auðvelda þeim að nýta peningana sína sem best. Viðbótarlífeyrissparnaður og stuðningur við kaup á fyrstu íbúð eru dæmi um tækifæri sem allir sem hafa tök á ættu að nýta.

Viðbótarlífeyrissparnaður

Einstaklingar geta greitt allt að 4% af launum í viðbótarlífeyrissparnað. Það sem gerir sparnaðinn sérstaklega hagkvæman er að mótframlag launagreiðanda, allt að 2% af launum, bætist við 2% eigið framlag launþega samkvæmt kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Þetta þýðir:

 • ef launþegi leggur fyrir 4% af launum er sparnaðurinn samtals 6%, launagreiðandi leggur fram þriðjung af sparnaðinum.
 • ef launþegi leggur fyrir 2% af launum er sparnaðurinn samtals 4%, launagreiðandi leggur fram helming af sparnaðinum.
 • þeir sem sleppa því að vera með viðbótarlífeyrissparnað eru því í raun að fá 2% lægri laun en ella.

Aðrir helstu kostir viðbótarlífeyrissparnaðar eru:

 • Inneign er laus við 60 ára aldur og erfist við fráfall.
 • Viðbótarlífeyrissparnaður er laus til úttektar ef eigandi verður óvinnufær vegna veikinda eða slysa.
 • Ef einstaklingur verður gjaldþrota geta kröfuhafar ekki gengið að viðbótarlífeyrissparnaði.
 • Langtímasparnaður, vextir geta orðið meirihluti uppsafnaðs sparnaðar vegna áhrifa vaxtavaxta.

Viðbótarlífeyrissparnaður nýtur skattalegs hagræðis fram yfir annan sparnað. Mismunurinn felst í að á sparnaðartíma er ekki greiddur fjármagnstekjuskattur af vaxtatekjum eins og greitt er af öðrum sparnaði. Á árinu 2017 er skatthlutfall fjármagnstekjuskatts 20% sem þýðir að um það bil fimmta hver króna sem fæst í vexti fyrir hefðbundinn sparnað greiðist til ríkisins í formi skatta. Viðbótarlífeyrissparnaður nýtur hins vegar skattfrelsis á vaxtatekjur. Á löngum tíma getur munað miklu og má sem dæmi nefna að sparnaðarframlag inn á viðbótarlífeyrissparnað verður 10% hærra eftir 20 ár en ef sama fjárhæð er lögð fyrir sem hefðbundinn sparnaður ef árlegir vextir á báðum sparnaðarformum eru 3%.

Viðbótarlífeyrissparnaður er lagður fyrir áður en skattar eru dregnir frá launum. Þegar sparnaðurinn er greiddur út greiðist hins vegar tekjuskattur af útborgunum eins og af launatekjum. Í raun er tekjuskattinum frestað þar til inneignin er tekin út en í sumum tilvikum lækkar tekjuskattur einnig. Það gerist ef einstaklingur á ónýttan persónuafslátt þegar inneign er tekin út eða ef jaðarskattar eru lægri við útborgun en þegar skattinum var frestað.

Fyrsta íbúð og séreign inn á lán

Einstaklingar sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð geta greitt viðbótarlífeyrissparnað að tilteknu hámarki, sem er lagður fyrir á samfelldu tíu ára tímabili eftir 1. júlí 2017, óskattlagðan inn á íbúð eða húsnæðislán. Þeir sem hyggjast kaupa íbúð á næstu árum ættu hiklaust að nýta sér þennan möguleika.

Helstu atriði í lögum um stuðning við kaup á fyrstu íbúð eru:

 • Hámarksfjárhæð á ári sem má leggja fyrir í þessum tilgangi er 500 þúsund krónur á einstakling eða 41.667 á mánuði. Fjárhæðin er tvöföld fyrir hjón.
 • Til að fullnýta heimildina þarf einstaklingur að hafa laun upp á 694 þúsund krónur.
 • Hámarkssparnaður er 4% af launum frá launþega og 2% frá launagreiðanda. Einstaklingur spari a.m.k. til jafns við framlag launagreiðanda.
 • Skilyrði er að einstaklingur hafi ekki áður átt íbúð og að hann afli sér íbúðarhúsnæðis annað hvort einn eða í félagi við annan einstakling.
 • Einstaklingur þarf að eiga a.m.k. 30% í íbúð.
 • Þegar kemur að því að nýta sér heimildina þarf að sækja um á vefsíðu ríkisskattstjóra.

Þrátt fyrir að lögin um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð taki ekki í gildi fyrr en 1. júlí 2017 er einstaklingum sem eiga ekki íbúð og skulda ekki húsnæðislán heimilt að greiða viðbótarlífeyrissparnað sem hefur safnast frá 1. júlí 2014 til kaupa á íbúð til eigin nota. Það er því ekki eftir neinu að bíða.

Samhliða lögum um stuðning um kaup á fyrstu íbúð var samþykkt að framlengja heimild einstaklinga sem eiga íbúð og skulda húsnæðislán til að greiða séreignarsparnað skattfrjálst inn á húsnæðislán. Heimildin var framlengd um tvö ár eða fram til 30. júní 2019 en upphaflega heimildin var frá 1. júlí 2014 til 30. júní 2017. Samkvæmt þessum lögum geta einstaklingar greitt að hámarki 500 þúsund krónur á ári inn á lán en 750 þúsund krónur fyrir hjón eða einstaklinga sem uppfylla skilyrði til samsköttunar.

Viðbótarlífeyrissparnaður hentar vel til að safna fyrir útborgun í íbúð eða greiða inn á húsnæðislán. Á árunum 2016 til 2018 hækkar skylduiðgjald í lífeyrissjóð á almennum vinnumarkaði úr 12% af launum í 15,5%. Það er mikil hækkun og mun leiða til samsvarandi hækkunar á lífeyrisréttindum eða um 29% hjá þeim sem greiða svo há iðgjöld í lífeyrissjóð alla starfsævina. Hjá þeim hefur þörfin fyrir viðbótarsparnað minnkað og því er upplagt fyrir ungt fólk að nota sparnaðinn til að safna fyrir íbúð. Mælt er með að leggja fyrir 4% af launum á meðan safnað er fyrir íbúð en 2% af launum eftir það.

Dæmi um ávinning

Kosturinn við viðbótarlífeyrissparnað er að eigið framlag er bara hluti af uppsöfnuðum sparnaði. Munar þar mestu um mótframlag launagreiðanda sem er á bilinu einn þriðji til helmingur af því sem lagt er fyrir. Þeir sem nýta viðbótarlífeyrissparnað við kaup á fyrstu íbúð fá til viðbótar afslátt af sköttum. Þeir sem spara til starfsloka og nýta sparnaðinn til að bæta við eftirlaunin fá vexti og vaxtavexti sem geta orðið meirihluti eignar á löngum tíma.

Myndin sýnir dæmi um sparnað einstaklings sem er með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun og leggur fyrir 4% af launum í 42 ár frá 23 ára aldri til 64 ára. Reiknað er með að einstaklingurinn spari sjálfur 4% af launum fyrstu 10 árin, en 2% í 32 ár og fái 2% mótframlag frá launagreiðanda allan tímann. Vextir eru 3,5%. Eftir 10 ár greiðir hann 2,6 milljónir upp í útborgun í íbúð af þeirri fjárhæð er eigið framlag 41%. Þegar hann lætur af störfum á hann 8,4 milljónir til að bæta við eftirlaunin. Sú fjárhæð dugar til að greiða honum 83 þúsund krónur á mánuði í 10 ár eða 28% af launum sem bætist þá við eftirlaunagreiðslur úr lífeyrissjóði. Eigið framlag af inneign í starfslok er aðeins 27% af viðbótarlífeyrissparnaði en afgangurinn er mótframlag launagreiðanda og uppsafnaðir vextir á 32 ára tímabili.

Gríptu tækifærið

Viðbótarlífeyrissparnaður er hagkvæmasti sparnaður sem völ er á. Með lögum um stuðning við kaup á fyrstu íbúð má segja að sparnaðurinn sé ómótstæðilegur fyrir ungt fólk sem hyggst kaupa íbúð á næstu árum. Ef ekkert verður af kaupum íbúðarhúsnæðis mun sparnaðurinn nýtast sem viðbót við eftirlaunin. Handboltamenn myndu kalla þetta dauðafæri á línu.

Nokkur góð ráð um viðbótarlífeyrissparnað

 • Byrjaðu strax til að tryggja þér mótframlag launagreiðanda.
 • Ef þú átt ekki íbúð og ert með lægri laun en 694 þúsund á mánuði skaltu leggja fyrir 4% af launum til að fullnýta heimild til skattaafsláttar.
 • Ef þú átt íbúð og skuldar húsnæðislán skaltu nýta heimild til að greiða séreign inn á lán til 30. júní 2019.
 • Leggðu a.m.k. 2% af launum fyrir til að bæta við eftirlaunin þegar þú hættir að vinna. Ef það stefnir í að eftirlaun verða ekki ásættanleg miðað við núverandi sparnað getur verið skynsamlegt að hækka sparnaðinn í 4% af launum.
 • Vandaðu val á vörsluaðila lífeyrissparnaðar og kynntu þér ávöxtunarleiðir í boði.
 • Kostnaður skiptir máli. Spurðu um umsjónarkostnað eða rekstrarkostnað vörsluaðila.

Höfundur er framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og höfundur bókanna Lífið er framundan og Lífið er rétt að byrja.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

 • - Viðskiptablaðið sent heim
 • - Vefaðgangur að vb.is
 • - Frjáls verslun sent heim
 • - Fiskifréttir sent heim