*

föstudagur, 24. maí 2019
Leiðari
22. nóvember 2018 18:01

Dauðhreinsun orðanna

Galli pólitískrar rétthugsunar felst í orðunum – rétt hugsun.

Aðsend mynd

Birgitta Haukdal gaf á dögunum út barnabókina Lára fer til læknis. Bókin er nú orðið eitt umdeildasta bókmenntaverk seinni ára eða allt síðan bókaútgáfan Skrudda stóð fyrir endurútgáfu á bókinni Negrastrákarnir árið 2007. Lára litla komst í fréttirnar eftir að hjúkrunarfræðingar gagnrýndu meðal annars að í bókinni væri notað orðið hjúkrunarkona en ekki hjúkrunarfræðingur.

Í þessu máli, eins og mörgum öðrum, skiptist fólk í tvo hópa. Sumum finnst gagnrýnin eiga rétt á sér en öðrum ekki. En þetta mál leiðir líka hugann að öðru – tungumálinu, orðunum og pólitískri rétthugsun.

Íslendingar eru flestir stoltir af tungumáli sínu, sem hefur tekið minni breytingum frá fornnorrænu en önnur norræn mál. Þegar við tökum á móti erlendum gestum gortum við okkur af löngum skrítnum orðum og hinu gríðarflókna beygingakerfi, sem hefur lítið breyst síðan á víkingaöldinni. Við erum svo stolt af tungumálinu að við höldum meira að segja upp á dag íslenskrar tungu.

Þótt ekki sé mikið um mállýskur á Íslandi þá er töluverður framburðarmunur. Sem dæmi er svokallað harðmæli algengt á Norðurlandi. Mörgum þykir harðmælið fallegt en líklega er aðdáunin á því hvergi meiri en í Ríkisútvarpinu þar sem fréttalesarar með norðlenskan framburð eru rjóminn.

Íslenskan er lifandi tungumál. Við erum dugleg að finna upp ný orð, sem oftast en alls ekki alltaf, eiga það sammerkt að vera lýsandi og gegnsæ. Þegar fyrsti bíllinn kom til Íslands varð til orðið bílskúr. Í viðskiptalífinu virðast sum orð skrítin og flókin en við nánari skoðun eru mörg þeirra góð og gegnsæ. Arðsemiskrafa er til dæmis mjög gott orð sem og brúarlán og launastigi.

„Ég sá útrásarvíking í lundabúð um daginn. Hann var í snjallsímanum, líklega að telja aflandskrónurnar.“ Um aldamótin síðustu hefði ekki nokkur maður fengið botn í þessa setningu. Svona er íslenskan lifandi.

Síðan eru líka til hundleiðinleg orð. Oftar en ekki eru þau sprottin upp úr því sem kalla má stofnanavæðingu orðanna. Í nýlegri skýrslu innri endurskoðunar á vinnustaðamenningu hjá Orkuveitu Reykjavíkur er að finna þessa setningu: „Á þeim grundvelli er það niðurstaða innri endurskoðunar að uppsögn vegna frammistöðuvanda hafi verið réttmæt.“ Frammistöðuvandi er álíka skemmtilegt orð og aðili enda er þetta orðskrípi ekki að finna í orðabók. Orðið frammistöðumaður er reyndar til.

Þó að tímarnir breytist og mennirnir með megum við ekki dauðhreinsa íslenska tungu þannig að orðin verði ógegnsæ og grá. Það er nefnilega hættan ef pólitísk rétthugsun fær að vaða uppi gagnrýnislaust. Hún fletur samfélagið út og gerir það einsleitt. Galli pólitískrar rétthugsunar felst í orðunum – rétt hugsun.

Það er kaldhæðni örlaganna að árið 2018 býsnist fólk yfir því að orðið hjúkrunarkona skuli hafa verið ritað í barnabók en fyrir fimm árum valdi þjóðin orðið ljósmóðir fegursta orð íslenskrar tungu. Og fyrst þið eruð enn að velta því fyrir ykkur þá er frammistöðumaður þjónn. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim