*

sunnudagur, 22. júlí 2018
Leiðari
13. júlí 2017 13:13

Dreggjar Dagsins

Ekkert bendir til þess að innan borgarkerfisins hafi nokkur ætlað að upplýsa borgarbúa um að það væri búið að útbía ströndina í saur.

Haraldur Guðjónsson

Það ætti að vera óþarfi að rekja hið fráleita fráveitumál undanfarinna daga, en í aðalatriðum snýst það um að gríðarlegt magn af óhreinsuðu skólpi hefur vegna bilunar runnið út í flæðarmálið við Faxaskjól í Reykjavík. Viðgerð tafðist og því hefur viðbjóðurinn flætt um fjörur einnar helstu útivistarperlu höfuðborgarinnar dögum saman.

Það er afleitt, en hneykslið í málinu er það að borgaryfirvöld sögðu engum frá, þannig að það var sjósundfólk, hundaeigendur og aðrir útivistarunnendur, sem uppgötvuðu ógeðið og gerðu fjölmiðlum viðvart. Enginn vafi leikur á að með þögninni þverbrutu borgaryfirvöld lög um upplýsingarétt um umhverfismál, lög sem voru sérstaklega sett til þess að koma í veg fyrir nákvæmlega þetta framferði, að yfirvöld héldu umhverfisslysum leyndum fyrir borgurunum.

Mesta furðu vöktu þó viðbrögð stjórnvalda. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hætti allt í einu að taka símtöl frá fjölmiðlum. Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hafði það helst að segja að þetta væri „bagalegt“ en játaði að sem foreldri þá myndi hún ekki fara með börn sín í fjöru þar sem væru saurgerlar.

En engum öðrum foreldrum sagði hún frá því. S. Björn Blöndal, forseti borgarstjórnar, lét svo lítið að segja að það hefði verið „heppilegra að láta vita af skólpi“. Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, sagði að ekki hafi verið talin ástæða til þess að láta neina vita af biluninni, enda hafi Heilbrigðiseftirlitið ekki talið hættu á ferð. Það að skólpið streymdi dögum saman út í flæðarmálið breytti engu um það.

Ekkert bendir til þess að innan borgarkerfisins hafi nokkur ætlað að upplýsa borgarbúa um að það væri búið að útbía ströndina í saur.

Varnir Heilbrigðiseftirlitsins eru svo lélegar að framtíð þess og stjórnenda þess hlýtur að koma til skoðunar. Þegar bilunin kom fyrst upp var tekið sýni í fjörunni, en þá þótti svo lítið af saurgerlum að óþarfi væri að segja almenningi frá biluninni. Svo liðu dagarnir og enginn hugsaði neitt meira um það, hvað þá að ástæða þætti til þess að taka eins og aðra mælingu. Við blasir að eftirlitið er ekki hlutverki sínu vaxið.

Ekki var hitt skárra þegar Stefán Eiríksson borgarritari pakkaði í vörn fyrir samstarfsmenn sína í Ráðhúsinu og útskýrði að þetta kæmi þeim eiginlega ekki við, það væru sko Veitur ohf., sem yrðu að svara því hvort lög um upplýsingarétt um umhverfismál hefðu verið brotin, þegar ákveðið var að upplýsa almenning ekki um bilunina, líkt og einhver þjónustufyrirtæki í eigu borgarinnar séu stjórnvöld.

Öll þessi viðbrögð eru til marks um ömurlega pólitík og ömurlega stjórnsýslu. Borgarstjóri er framkvæmdastjóri borgarinnar og á endanum hvílir ábyrgðin hjá honum, ekki einhverjum undirsátum sem hann vill fórna.

Dagur reynir að verja sig með því að hann hafi ekkert vitað, en það er vond vörn. Hann átti að vita og til þess hefur hann komið trúnaðarmönnum sínum fyrir í stjórn borgarfyrirtækja og til þess er embættismannakerfið, að upplýsa hann. Bregðist það er ábyrgðin eftir sem áður hjá honum.

Það er þó aðeins hluti vandans og hann má leysa, því kosningar eru einmitt til þess fallnar að losna við lélega stjórnmálamenn. Hér er vandinn hins vegar miklu meiri, því öll þessi sorgarsaga ber vott um mölbrotið stjórnkerfi.

Hér bendir hver á annan, menn skáka í skjóli ohf-unar og kennitöluskipta í stjórnsýslunni, enginn vill veita upplýsingar, í mesta lagi umlað um að skoða þurfi verkferla, en alls ekki neinn vill taka minnstu ábyrgð. Þetta er óboðlegt ástand hvar sem er, en í höfuðborg landsins er það hreint hneyksli. Við eigum betra skilið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.