Athyglisvert hefur verið að hlusta á umræðu síðustu vikna um sölu Kaupþings á Arion banka til eigin eigenda og hafa margir viljað líkja sölunni við annað fréttaefni síðustu daga, sölunni á Búnaðarbankanum til Kaupþings.

Hafa háværustu raddirnar jafnvel viljað stöðva söluna eins og það sé enn í höndum ríkisins að ákveða hvað einkaaðilar gera við eigur sínar.

Grundvallarmunurinn þarna á er þó einmitt sú staðreynd að annars vegar var um að ræða eign ríkisins sem seld var til einkaaðila, og hins vegar að hér eru einkaaðilar að selja öðrum einkaaðilum.

Þó svo að um sé að ræða sömu aðilana báðum megin borðs að langmestu leyti. Fleira áhugavert er þó að koma í ljós um málið.

Má þar nefna að nokkru áður en Seðlabankinn seldi hlut sinn í Kaupþing til einmitt þeirra aðila sem eru fremstir í flokki í kaupunum á Arion banka höfðu þeir opinberlega sagt félagið töluvert undirverðlagt eins og komið hefur á daginn.

En hvort tveggja undirstrikar þó að það er ekki lengur í höndum ríkisins hver á Arion banka, fyrir utan þann litla hlut sem ríkið heldur.

Jafnvel þó eðlilegt sé að gera kröfur um að það sé vitað hverjir standi að bak við kaupin, þá hefur ríkið ekkert með það að gera að ætla að grípa þarna inn í eða taka til baka viðskiptin, líkt og sumir þingmenn Framsóknar hafa lagt til á Alþingi að verði gert.

Í því samhengi er þó áhugavert að velta því upp hverjir voru í stjórn í október og nóvember þegar fyrrnefndur hlutur Seðlabankans var seldur.

Ef menn vildu stækka enn meira eignarhlut ríkisins í bankakerfinu hefði ekki verið tækifærið þá að taka út beinan eignarhlut í Arion banka í skiptum fyrir eignarhlut Seðlabankans í Kaupþingi?

Ef þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna ætla svo að styðja þessa þingsályktunartillögu Framsóknarmanna yrði auðvitað eðlilegt að spyrja þá hvað hefði breyst síðan ríkisstjórn þessara flokka stóð fyrir því að núverandi eigendum Kaupþings, var eftirlátið að halda eign sinni í þrotabúinu.

Því tengt væri þá auðvitað athyglisvert að velta því fyrir sér hver ágóði vogunarsjóðanna ógurlegu hefur verið af þessari ákvörðun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Grundvallaratriðið er að þegar stjórnmálamenn geta gripið inn í frjáls viðskipti einstaklinga leiðir það á endanum til meiri hörmunga heldur en væntanlegur skammtímaávinningur af eignarupptökunni, líkt og fjallað er um hér á þessum síðum í viðtali mínu við Gloriu Álvarez, sem ræddi um uppgang popúlismans í Suður-Ameríku og skaðann sem sósíalisminn hefur valdið þar í álfu.