Fyrir stuttu var ég staddur í Vínarborg á málþingi um rannsóknir í verkefnastjórnun. Í einni kaffipásunni gaf sig á tal við mig aldraður maður. Ég kannaðist við andlitið, maðurinn heitir Hiroshi Tanaka, er þekktur í faginu og hefur verið leiðandi í uppbyggingu verkefnastjórnunar í heimalandi sínu Japan. Tanaka hafði fregnað að ég væri frá Íslandi og hann heilsaði mér og sagði: „Þið eigið heimsmet  á Íslandi.“ Ég hváði. „Jú, engin þjóð í heimi hefur fleiri vottaða verkefnastjóra.“ Ég sagði að þetta væri líklega rétt, ég hef nefnilega heyrt slíka tölfræði og veit að hvergi í heimi eru fleiri einstaklingar með alþjóðlega vottun á þekkingu sinni á sviði verkefnastjórnunar, ef miðað er við hina frægu höfðatölu.

Ég fór að velta vöngum yfir þessu heimsmeti. Vissulega segir það einhverja sögu um stöðu verkefnastjórnunar á Íslandi, en þegar upp er staðið hlýtur að skipta mestu máli hvernig gengur í þessum verkefnum. Hvernig gengur að velja rétt verkefni, að skila þeim innan viðmiða um tíma og kostnað, að tryggja að þau skili væntum árangri og síðast en ekki síst, hvaða árangri þessi verkefni skila til lengri tíma. Tilfinning min er sú að hér eigum við spottakorn eftir ófarið. Rannsóknir kollega míns Dr. Þórðar Víkings Friðgeirssonar lektors benda til dæmis til þess að frammúrskrið í kostnaði í opinberum framkvæmdum á Íslandi sé regla fremur en undantekning. Í grein í Viðskiptablaðinu í nóvember 2015 var haft eftir honum að 90% stórra opinberra verkefna fari fram úr áætlun og að íslensk stjórnsýsla standi öðrum löndum langt að baki á sviði ákvarðanatöku á sviði opinberra verkefna.

Fréttir um að verkefni fari út af sporinu eru því miður alltof algengar en því skal þó haldið til haga að þetta er ekki bundið við okkar litla land. Einnig skulu tekin af tvímæli um að það er alls ekkert náttúrulögmál að verkefni fari úr böndum. Til að sporna við slíku þarf fyrst og fremst að auka fagmennsku í öllu er lítur að undirbúningi og framkvæmd verkefna og hið háa hlutfall Íslendinga með alþjóðlega vottun í verkefnastjórnun er skref í rétta átt. Heimsmetið í vottun er þó fyrst og fremst táknrænt – eitt og sér skilar það litlum árangri. Nauðsynlegt er að huga að umgjörð verkefna, fyrirkomulagi við ákvarðanatöku og forgangsröðun verkefna. Niðurstöður rannsókna Þórðar Víkings sýna að hvað opinberar framkvæmdir varðar eru gríðarleg tækifæri fólgin í bættri verkefnastjórnsýslu og meiri fagmennsku.

Í ýmsum löndum sem við berum okkur saman við hefur verið unnið að verulegum umbótum á verkefnastjórnsýslu hin seinni ár. Nefna má sex OECD lönd, Noreg, Danmörku, Svíþjóð, Holland, Bretland og Quebec fylki í Kanada. Í öllum þessum löndum hefur verið gert mikið átak á þessum sviðum frá síðustu aldamótum. Nærtækt er að horfa til árangurs Norðmanna en þar hefur orðið alger viðsnúningur á einungis 16 árum, og heyrir nú fremur til undantekninga að verkefni fari þar fram úr kostnaðaráætlun. Þessum árangri er meðal annars náð með því að hið opinbera hefur stóraukið kröfur sínar um undirbúning verkefna, þau fara í gegnum ítarlega skoðun og rýni áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar. Ennfremur er gögnum safnað með skipulögðum hætti og leitast við að læra stöðugt af reynslunni og þannig ná betri og betri árangri.

Það er sérstakt fagnaðarefni að Alþingi hefur nú samþykkt þingsályktunartillögu um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Nú skal taka fyrstu skrefin í að stórbæta verkefnastjórnsýslu, líkt og gert hefur verið í Noregi. Ef allt gengur upp mun þetta leiða til þess að fagmennska í undirbúningi og framkvæmd opinberra verkefna mun stóraukast – og farið verður miklu betur með almannafé. Hér væri verðugt að setja nýtt heimsmet!

Höfundur er prófessor og forstöðumaður MPM náms við Háskólann í Reykjavík.