*

miðvikudagur, 22. maí 2019
Brynjar Örn Ólafsson
5. júní 2018 13:03

Einföldun innherjasvika

Tölulega skilgreindar reglur fyrir útgefendur fjármálagerninga gegn innherjasvikum myndu auka öryggi á verðbréfamarkaðnum og draga úr eftirlitskostnaði.

Hótel Kea á Akureyri.
Aðsend mynd

Áður en lengra er haldið skal tekið fram að höfundur greinarinnar telur að ekki hafi verið átt viðskipti með hluti Regins hf. þann 4. september 2012 byggð á innherjaupplýsingum.

Að kvöldi 4. september 2012 tilkynnti fasteignafélagið Reginn hf. í fréttakerfi Kauphallarinnar um samkomulag um kaup á Hafnarstræti 83-89 á Akureyri sem hýsir Hótel Kea. Í tilkynningunni var kaupverð trúnaðarmál en áætlað var að rekstrarhagnaður Regins hf. myndi aukast um 5%. Lesandi þekkir skilgreiningafrelsi orðsins „áætlað“.

Líkt og myndin sýnir fóru fram 23 viðskipti með hlutabréf félagsins að virði 270 milljónir króna samkvæmt KODIAK Excel. Verð á hlut hækkaði um 1,5% frá fyrstu viðskiptum til þeirra síðustu eða nokkru minna en áætluð hækkun rekstrarhagnaðar. Var í einhverjum tilvikum um innherjasvik að ræða? Höfðu upplýsingar um samkomulagið lekið út áður en tilkynningin var birt um kvöldið?

Fjárfestar velta fyrir sér hvort áætlun um 2% aukningu, í stað 5%, hefði sömuleiðis talist til innherjaupplýsinga. En áætluð 0,5% aukning? Hefðu upplýsingarnar talist neikvæðar innherjaupplýsingar ef félagið hefði áætlað óbreyttan hagnað þar sem stjórn félagsins gæti talist vanhæf til að annast fjárfestingar fyrir hönd félagsins? 

Undirritaður viðurkennir að oft er erfitt að skilgreina hvort upplýsingar eru öruggt verðmótandi. Skráðum útgefendum er hins vegar skylt að taka sífellt afstöðu til upplýsinga sem varða þá beint eða óbeint. Nýleg niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í máli númer E-1931/2017, Eimskipafélag Íslands hf. gegn Fjármálaeftirlitinu, er útgefendum fordæmisgefandi. Þar segir að ekki megi fresta birtingu afkomuviðvörunar ef nægjanlega tilgreind drög að árshlutareikningi gefa til kynna yfir 21% árshækkun hagnaðar.

Um skýra reglu er að ræða og er framtíðin laus við gagnslausar rökræður um hvað skuli gera með árshækkun hagnaðar yfir 21%. En hvað um 5% hækkun? Á að miða við nýjustu afkomuspá (sem verður fljótlega úrelt)? Skiptir nefnari hagnaðarhækkunar máli? Lesandi þekkir að hagnaður er jöfnuður tekna og gjalda og getur því sveiflast talsvert óháð stærð fyrirtækis.

Víð skilgreining innherjaupplýsinga er umhugsunarverð eða sem upplýsingar sem líklega hefðu marktæk áhrif á verð ef opinberar. Er til dæmis sanngjarnt að upplýsingar um mögulega sölu stórs hluthafa séu á ábyrgð útgefanda? En fyrirhugað tilboð sem Samtök atvinnulífsins leggja fram fyrir hönd útgefanda í kjaraviðræðum? En áhyggjur læknis af geðheilsu forstjóra útgefanda? Velta má upp hvort óljósar leiðbeiningar til markaðarins neyði ekki útgefendur til að birta ónauðsynlegar upplýsingar um möguleg áhrif á virði skráðra fjármálagerninga.

Í stað ríkjandi huglægra reglna myndu tölulega skilgreindar reglur fyrir útgefendur fjármálagerninga gegn innherjasvikum auka öryggi á verðbréfamarkaðinum og draga úr eftirlitskostnaði. Reglur sem fjárfestar gætu sömuleiðis notast við. Til dæmis er erfitt að ímynda sér að í framtíðinni verði minna ólöglegt að eiga viðskipti á óbirtar upplýsingar um 5% hækkun rekstrarhagnaðar.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim