Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kynnti nýja stefnu varðandi löggæslu í miðborginni á þriðjudag. Fram kom að átta til tíu manna lögreglusveit mun marsera um miðborgina og skipta sér af minnstu sem stærstu málum og öllu sem henni þætti að betur mætti fara.

Hugtakið sem lögreglan notaði um þetta var „zero tolerance“. Þetta sé gert til að auka öryggi og öryggistilfinningu borgaranna.

Reyndar kom fram í sömu frétt að ofbeldi væri ekki að aukast og rætt var við starfsmannastjóra á veitingastað í miðborginni sem sagði stöðuna vera þokkalega og að slagsmálum og róstum hefði fækkað með árunum.

Maður hlýtur því að spyrja hver tilgangurinn með þessu sé. Þótt þetta kunni að hljóma vel í upphafi vekur þetta ýmsar spurningar þegar betur er að gáð.

Í fyrsta lagi er rétt að nefna að lögreglunni ber að fylgja meðalhófsreglu í störfum sínum. Hún hefur einkarétt á valdbeitingu og ber því að sjálfsögðu að fara vel með það vald og beita því ekki í meira mæli eða oftar en þörf krefur.

Það er vandséð hvernig meðalhófsregla er samrýmanleg „zero tolerance“ reglu, en ég get ekki séð að nein lagaheimild sé fyrir síðarnefndu reglunni.

Í öðru lagi eykur það ekki öryggistilfinningu mína að hugsa til þess að lögreglan sé að eyða kröftum sínum í ýmis óknytti í stað þess að forgangsraða í þágu alvarlegra afbrota, eins og ofbeldisbrota.

Lögreglan kvartar gjarnan undan fjárskorti sem ætti að segja okkur að hún geti ekki sinnt öllu vel. Ætlar hún þá að eyða takmörkuðum kröftum í að eltast við veggjakrot, ölvun og þvaglát á almannafæri?

Er ekki líklegra að borgurunum líði betur í borg þar sem lögreglan sýnir umburðarlyndi og sveigjanleika gagnvart borgurunum og beinir kröftum sínum að alvarlegum afbrotum, í stað þess að standa í svona pólitík og sýndarmennsku?

Höfundur er lögfræðingur og MBA