Í byrjun mánaðarins lýsti Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, því yfir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum að hann væri búinn til bardaga gegn atvinnustarfsemi í svarta hagkerfinu í landinu – gegn skattaundanskotum, peningaþvætti og greiðslum framhjá kjarasamningum.

Í Facebook-færslu þann 1. febrúar sagði fjármálaráðherra að til stæði að „undirbúa löggjöf til þess að þrengja að svarta hagkerfinu þar sem bannað yrði að greiða laun út með reiðufé og allir þyrftu að borga hluti yfir ákveðnu verði í gegnum banka eða kreditkort þannig að viðskiptin yrðu rekjanleg.“ Áður en boðið væri til hólmgöngu þyrfti þó að sjá hvernig viðrar og skipa í nefnd um málið.

Rökin sem Benedikt hefur lagt fram tillögu sinni til stuðnings eru m.a. þau að breytingin yrði engin kollsteypa núverandi fyrirkomulags. Nær allar launagreiðslur og nær öll viðskipti í landinu fara fram með rafrænum hætti. Þar að auki hefur Benedikt bent á að Ísland sé eitt fárra ríkja sem ekki hefur reglur hvað þetta varðar.

Engin ástæða er til að véfengja það að Benedikt vilji gera samfélaginu til góðs með slíkri aðgerð, enda markmiðið göfugt. Þetta er það sem sést. En fyrir hverja aðgerð í hagkerfinu nægir ekki eingöngu að rýna í tilætlaðar afleiðingar eða það sem fyrir augu ber, heldur þarf jafnan að líta til þeirra afleiðinga sem eru ótilætlaðar og ófyrirséðar.

Það sem ekki sést er að svört atvinnustarfsemi myndi varla stöðvast. Austurríski hagfræðingurinn Carl Menger sýndi fram á það fyrir 125 árum að peningar verða til í viðskiptum án tilhlutunar ríkisvalds. Ólögmæt og eftirlitslaus viðskipti myndu fara fram í gjaldeyri eða öðru sem metið er til fjár, og gætu jafnvel færst í vöxt. Ekki er því víst að Benedikt verði kápan úr klæðinu.

Það sem ekki sést er að löggjöfin myndi þvinga almenning til að stunda viðskipti við fjármálafyrirtæki og eigendur þeirra, og skerða þannig val og frelsi almennings til að ráðstafa fé sínu. Almenningur þyrfti einnig að greiða meira fyrir að stunda sín viðskipti, enda kostar meira að stunda viðskipti með kort heldur en reiðufé.

Það sem ekki sést er að löggjöfin myndi auka eftirlit með viðskiptum almennings. Spurningar vakna um friðhelgi einkalífsins og hvaða umboð fjármálaráðherra hefur til að takmarka notkun lögeyris í landinu.

Það sem ekki sést er að löggjöfin yrði mögulega í þágu ríkiskassans þar sem hún myndi gefa ríkinu betra yfrlit yfir það hvað sé hægt að skattleggja og endurdreifa.

Svona mætti halda áfram. Hér er ekki verið að saka menn um annarlegar hvatir, heldur er verið að vekja athygli á því að það eru tvær hliðar á sérhverri ríkisaðgerð í hagkerfinu, tilætlaðar og ótilætlaðar afleiðingar. Þegar öllu er á botninn hvolft gætu ríkisinngripin gengið gegn háleitum markmiðum sínum og skapað verri aðstæður en fyrir voru.