Fréttir hafa borist þess efnis undanfarnar vikur að innlend fyrirtæki í smásölu og heildsölu hafi þurft að segja upp fólki í kjölfar breyttra aðstæðna á markaði. Þessar breyttu aðstæður felast í því að erlendar verslanakeðjur hafa streymt til landsins á síðustu misserum, auk aukins umfangs netverslunar.

Þessar breytingar eru stærsta áskorun sem íslensk verslunarfyrirtæki hafa nokkurn tímann stað­ið frammi fyrir. Erlendu keðjurnar eru í mörgum tilfellum með margfalda landsframleiðslu Íslands, selja oft vörur undir kostnaðarverði og búa við allt önnur vaxtakjör og stærðarhagkvæmni en innlend fyrirtæki. Þetta hefur knúið framleiðendur og verslanir í landinu til hagræðingar í rekstri, sem felst meðal annars í uppsögnum.

Fyrirtæki á borð við Papco, Ölgerðina og Haga, sem dæmi, hafa fengið að finna fyrir því. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segist sjá fleiri uppsagnir í kortunum, ef fram heldur sem horfir, sem sé áhyggjuefni.

Það að segja upp starfsfólki er hræðileg reynsla, bæði fyrir vinnuveitendur og starfsfólk. En ekki er ástæða til að örvænta. Þeir sem hafa það eitt að segja að stóru erlendu verslanirnar séu að valda atvinnuleysi hér á landi eru ekki að hugsa málið til enda. Það nægir ekki eingöngu að rýna í það sem fyrir augu ber eða velta fyrir sér áhrifunum á afmarkaðan hóp samfélagsins.

Full atvinna er ekki markmið í sjálfu sér, ólíkt því sem stjórnmálamenn og hagsmunasamtök segja. Það er staðreynd að einstaklingar, fyrirtækir og þjóðir reyni að ná sem mestum árangri með sem minnstri fyrirhöfn. Þess vegna var hjólið fundið upp. Hvert er þá hið raunverulega markmið allra hagkerfa? Að hámarka framleiðslu og verðmætasköpun.

Full atvinna er nauðsynlegur fylgifiskur fullrar framleiðslu. Það er ekki hægt að ná sem mestri framleiðslu án þess að allir sem eru tilbúnir að vinna séu í vinnu. En það er mjög auðvelt að ná fullri atvinnu án þess að framleiðsla sé í hámarki. Ríkið gæti til dæmis bannað fólki að nota vinstri höndina í vinnunni. En það myndi engum detta í hug að það myndi auka afköst eða framleiðslu.

Það sem við viljum raunverulega er ekki að atvinna sé í hámarki, heldur að framleiðsla sé í hámarki. Aukin samkeppni frá erlendum verslanakeðjum stuðlar að því með því að auka hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta og þar með framleiðni – fyrir utan það að þrýsta niður verði og fjárfesta innanlands. Vinnuafl færist úr óhagkvæmum rekstri yfir í hagkvæmari rekstur. Fórnarkostnaðurinn er atvinnuleysi afmarkaðs hóps til skamms tíma. En ávinningurinn er aukin verðmætasköpun, atvinna og velferð fyrir samfélagið í heild sinni til lengri tíma litið.