Á ferilskrá indversks félaga míns kemur fram að hann hafi náð hundraðasta besta árangrinum af 200.000 stúdentum í inntökuprófi í besta háskóla Indlands. Hann þurfti að ná betri árangri en ríflega 99% umsækjenda til að komast inn. Kínverjarnir búa við enn meiri samkeppni og fara ekki eins léttilega inn í bestu skólana í Kína. Í Shanghai eru tveir bestu skólar landsins og þar er samkeppnin talsvert meiri. Milljónir sækja um og einungis þeir sem ná bestum árangri á inntökuprófinu komast inn.

Að vera í topp 1% er ekki nálægt því að duga þar. Ef þú kemst ekki inn í annan þessara tveggja toppskóla eru flest toppstörfin í landinu utan seilingar. Alvöru samkeppni þar á ferð og umhverfi sem er órafjarri okkar íslenska veruleika.

Rétt er að velta fyrir sér hvaða áhrif ofursamkeppnin hefur á hugarfar félaga míns og hans líka. Hvernig hagarðu þér ef þú þarft að ná betri árangri en næstum allir til að ná settu marki? Líklegt er að þú einbeitir þér að því að vera ötull. Þú leggur mkið á þig og viðar að þér þekkingu sem eykur líkurnar á að þú komist í gegnum hið agnarsmáa nálarauga. Þú lágmarkar líka líkurnar á mistökum.

Það sem þú gerir ekki er að ögra umhverfinu eða taka sénsa. Þú ferð alls ekki að ráðum Steve Jobs og verður hungraður og flónskur (e. stay hungry — stay foolish), fórnarkostnaður af slíkum ævintýrum er bara allt of mikill. Ef 200.000 eða þaðan af fleiri vilja ná sama markmiði og þú þá má fátt út af bregða — ekkert svigrúm er fyrir frávik. Miklu líklegra er að þú verðir Excel-snillingur í banka með öruggar tekjur en að þú búir eitthvað nýtt til. Það er einfaldlega ekki séns að þú takir séns.

Lærdómurinn sem við Íslendingar, þjóð sem býr við andstæðu þessarar asísku ofursamkeppni, er að við náum aldrei árangri í alþjóðlegri viðureign við þjóðir ofursamkeppninnar með því að keppa á þeirra forsendum. Við verðum aldrei ötulust eða snjöllust. Ef eitt rétt svar er til við spurningu á fræðasviði þeirra sem hafa komist í gegnum asíska nálaraugað þá munu þeir vita það, alltaf. Ef tvö svör eru möguleg eða einhverrar túlkunar er þörf gætu þeir þó verið í vanda staddir. Ef ræða á eitthvað og velta upp möguleikum standa þeir oft á gati. Af þessu getum við lært.

Við munum aldrei þurfa að vaða sama eld og brennistein til að fá tækifæri. Við munum aldrei tileinka okkur sömu próftækni, aga og „heilalímseiginleika“ ofursamkeppnisþjóðanna. Við getum hins vegar margt sem þessir kappar geta ekki. Okkur er tamt að vera hungruð og flónsk — okkar fórnarkostnaður er órafjarri þeirra og það skiptir nánast engu máli þó aðeins bregði af leið, við getum alltaf tekið sénsa og ögrað umhverfinu. Okkur er tamt að hugsa út fyrir boxið. Við getum verið viss um að það er ekkert sem heitir ófarsæll frumkvöðull — við getum bara reynt aftur.

Þegar við náum svo árangri með flónskunni og hungrinu þá megum við ekki gleyma því að skortur á aga, sem fákeppnin færir okkur, getur verið okkur fjötur um fót. Eftir bankahrunið hafa eftiráspekingar iðulega bent okkur á þetta en af þessu getum við áfram lært. Til að forðast vanda þurfum við kostgæfnisathugun, aga og nákvæmni indverska vinar míns og hans líka — þeir eru, til lengri tíma litið, mikilvægir til að ná árangri.

Gleymum ekki að umhverfi okkar veitir okkur rík tækifæri og mótar hver við erum og hverjir okkar styrkleikar eru. Við þurfum að minnast þess að heimurinn er nógu stór til að okkar hæfileikar geti notið sín, og nýst öðrum. Við þurfum um leið að hafa í huga að með öðrum, og ólíkum, erum við sterkari. Fákeppnin er okkur fjötur um fót á mörgum vígstöðvum en við þurfum að fagna því að hún gerir okkur auðveldara að taka áhættu, að vera hungruð og flónsk — og þar með sigra heiminn.

Höfundur er hagfræðingur og tístir á @bolafsson á Twitter.com