*

mánudagur, 23. október 2017
Leiðari
30. júní 2012 11:15

Ekki sjálfgefin renta

Þótt fiskurinn verði enn í sjónum eftir að búið verður að veikja undirstöðu fiskveiðikerfisins verður rentan það ekki.

Haraldur Guðjónsson

Það er auðvelt fyrir stjórnmálamenn að afla fylgis við þá pólitísku stefnu að skattleggja sjávarútveginn sérstaklega til að færa fólkinu arðinn af auðlind sem sögð er í þeirra eigu. En það er ekki sjálfsagt að þessi auðlind skili arði. Það þarf ekki að fara mjög mörg ár aftur í tímann til að rifja upp erfiðleika í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, jafnvel áður en þau þurftu að fjárfesta í aflaheimildum. Þetta voru jafnvel fyrirtæki sem rekin voru á ábyrgð skattgreiðenda. 

Í samantekt OECD kemur fram að sjávarútvegur hefur víðast hvar notið beins ríkisstuðnings. Stuðningur ríkisins við sjávarútveg er að meðaltali 20% af aflaverðmæti. Hér á landi var komið í veg fyrir að svo færi með breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það er ein af mörgum vísbendingum um að svokölluð auðlindarenta fiskveiða er sýnd veiði en ekki gefin. 

Eftir að kvótakerfinu var komið á og lagfært með tímanum tókst að auka verðmæti fiskveiða og vinnslu. En það var í sjálfu sér ekki því að þakka að fiskurinn var þegar í sjónum. Taprekstur hér á landi og annars staðar sýndi fram á það. Fólkið sem hefur byggt upp atvinnustarfsemi í kringum sjávarútveg hefur í sífelldri þekkingarleit fundið leiðir til að hámarka afrakstur auðlindarinnar. Þetta hefur víða haft mjög jákvæð áhrif þótt menn einblíni of oft bara á fiskiskip og frystihús í þessu samhengi. 

Daði Már Kristófersson, dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands, gagnrýnir í viðtali við Lilju Dögg Jónsdóttur hvernig veiðigjaldið er hugsað til að skattleggja svokallaða auðlindarentu. Rentan sé bara ein gerð umframhagnaðar sem geti annars orðið til á marga vegu.

 „Sem dæmi má nefna hagnað sem tengist tímabundið föstum framleiðsluþáttum. Dæmi um það geta verið fjárfestingar í markaðssetningu. Eða tækninýjungar eða hæfileikar einstakra stjórnenda. Slíkt hefur auðvitað ekkert með íslenska fiskinn að gera heldur eru bara skynsamlegar ákvarðanir í rekstri sem skila umframhagnaði. Og að skattleggja hann er auðvitað vægast sagt hæpið. Því þá ertu farinn að skilgreina hugvit einstaklinga sem auðlindaarð sem ríkið á tilkall og það virkar nú svolítið langsótt,“ segir Daði. 

Hvort sem menn vilja horfast í augu við það eða ekki þá er kvótakerfið orðið mjög þroskað að mati Daða. „Með þroskað á ég við að mikil viðskipti hafa átt sér stað og renta hefur horfið út úr greininni. Sem þýðir að skattlagning og rými til hennar er takmarkað, einfaldlega vegna þess að verulegur hluti af rentunni er horfinn.“ 

Í rannsókn Jeffreys Sachs og Andrews Warner frá árinu 1997 er komist að því að hagvöxtur ríkja, þar sem náttúruauðlindir voru hátt hlutfall útflutningstekna, var minni en hinna. Hagrannsóknir hafa líka sýnt að traust stjórnarfar, vel skilgreind eignaréttindi og frelsi í viðskiptum stuðla frekar að hagvexti. 

Sé skoðaður rekstur opinberra orkufyrirtækja, sem nýta orkuauðlindina, þá hafa fyrirtækin ekki skilað auðlindarentu síðastliðin fimm ár eins og hún er mæld í lögum um veiðigjald. Fara þarf aftur til ársins 2006 til að finna jákvæða auðlindarentu í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur samkvæmt skilgreiningu laganna. 

að er ekki allt unnið með því að fela ríkinu stærra hlutverk í atvinnulífinu. Þessi afstaða byggir ekki á einhverri hagsmunagæslu fyrir útgerðirnar. Hún byggir á því að aukin ríkisvæðing leiðir fátt gott af sér. Með tímanum bitnar það á lífskjörum almennings í þessu landi. Auðlindarentan er afrakstur fiskveiðistjórnunarkerfisins en ekki auðlindarinnar sem slíkrar. Og þótt fiskurinn verði enn í sjónum eftir að búið verður að veikja undirstöðu fiskveiðikerfisins verður rentan það ekki.

Af þeim sökum verður að fella lögin um sérstakt veiðigjald úr gildi.  

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.