Oft er talað um dagskrárvald fjölmiðla, að fyrir utan sjálf efnistökin, þá geti efnisvalið haft sitt að segja. Það er nokkuð til í því, þó ekki sé það einhlítt. Ef málið er þunnt, þvælt eða þrugl, þá kemst enginn miðill upp með að segja af því fréttir í einhverju skyni. Það munu aðrir miðlar halda þeim við efnið, ef ekki almenningur, sem nú hefur margföld tækifæri til þess að láta í sér heyra.

Aftur á móti geta fjölmiðla notað þetta dagskrárvald til þess að koma þörfum málefnum í brennidepil og það er raunar eitt af hlutverkum þeirra.

Dagskrárvaldið getur þó birst með ýmsum hætti, svo spurningar veki, til dæmis í viðmælendavali. Það mátti til dæmis heyra í Vikulokum Ríkisútvarpsins um liðna helgi, þar sem Helgi Seljan hafði fengið þau Aðalheiði Ámundadóttur, blaðamann á Fréttablaðinu (fv. starfsmann þingflokks Pírata og oddvita flokksins í NA-kjördæmi), Kristjón Kormák Guðjónsson ritstjóra DV og Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans. Út af fyrir sig gildir einu hverrar skoðunar hvert og eitt þeirra er, en halda menn að þessir viðmælendur hafi galdrað fram fjölbreytt og óvænt sjónarmið?

Menn geta t.d. ímyndað sér óhlustað af hversu mikilli sanngirni var fjallað um akstur Ásmundar Friðrikssonar eða embættisfærslu Sigríðar Á. Andersen.

Ríkisútvarpið hefur lagaskyldu til þess að kynna fjölbreytt og andstæð sjónarmið í dagskrárþáttum af þessu tagi. Má ekki ætlast til þess að menn þykist a.m.k. reyna það?

***

Í ljósi yfirgripsmikilla og vandaðra skrifa Baldurs Arnarssonar í Morgunblaðið um dómaramálin öll, er raunar skandall að hann skuli ekki hafa verið meðal gesta í þættinum. Hann hafði augljósa fjölmargt fram að færa, sem veigur væri í fyrir Ríkisútvarpið að enduróma með einhverjum hætti.

***

Jakob Bjarnar Grétarsson tók athyglisvert viðtal við mann, sem gefið var að sök að hafa sálgað konu sinni, en eftir krufningu var lát hennar úrskurðað sjálfsmorð. Í viðtalinu var skýrt tekið fram að þar væri sögð „hans hlið“ og á henni geta menn haft sínar skoðanir.

Það gerði Elísabet Ýr Atladóttir á bloggnum Kvenfrelsi, en hún dró ekki úr grunsemdum sínum í garð mannsins og bætti um betur með því að væna Jakob Bjarnar um meðvirkni, að ekki sé sagt hlutdrægni eða verra! Það allt lýsir ótrúlegum ranghugmyndum um fjölmiðla, eðli þeirra og vinnubrögð.

Hið skrýtna var þó að Guðrún Ósk Guðjónsdóttir, blaðamaður á DV, tók þessa þvælu upp og gerði að „frétt“, sem varla er unnt að kalla annað en atvinnuróg og stenst engan veginn siðareglur Blaðamannafélagsins.

Og svo er nú hitt, að það er ekki blaðamennska að afrita færslur á bloggum og félagsmiðlum, birta bitastæðustu bútana, bæta inn millifyrirsögnum og kalla frétt.

***

Annað svipað dæmi um gerviblaðamennsku sá fjölmiðlarýnir á Pressunni/Eyjunni í vikunni, þó þar hefði viðkomandi „blaðamaður“ rænu á því að merkja sér ekki ósköpin. Þar var sagt frá því að trúnaðarráð Verslunarmannafélags Reykjavíkur (Virðingu og réttlæti) hefði veitt stjórn félagsins umboð til þess „að vinna að ódýru leiguhúsnæði“, líkt og formaður félagsins hefði viðrað hugmyndir um.

Svo voru birt tvær langar tilvitnanir í formanninn um að leigufélög í borginni væru að græða á neyð fólks, sem skapaði félaginu markaðstækifæri á þessu sviði. Engar spurningar, bara skrúfað frá krananum. Og kunnugleikinn svo mikill, að formaðurinn var ekki kynntur með fullu nafni í fréttinni, aðeins nefndur Ragnar Þór. Svona eins og það sé aðeins einn slíkur á meðal vor.

Skyldi einhver hafa efast um frábærleika þessara hugmynda voru þeim til staðfestingar birt löng tilvitnun í Gunnar Smára Egilsson, leiðtoga Sósíalistaflokksins, sem hann hafði skrifað um ranglæti leigufélaga borgarinnar á Facebook.

Þessar skoðanir kunna að vera góðar og gildar, nú eða alls ekki. En þetta er ekki blaðamennska að birta svona vaðal gagnrýnislaust innan gæsalappa og kalla frétt.

Það er svona ámóta leti og maður sér stundum á Facebook, þar sem segjast bara ætla að skilja eitthvað eftir, athugasemdalaust.

***

Fyrst minnst var á Aðalheiði Ásmundsdóttur hér fyrr í pistlinum má líka drepa á frétt, sem hún skrifaði um umtalaða skýrslu dr. Hannesar H. Gissurarsonar, prófessors í stjórnmálafræði, um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins. Hún var birt undir fyrirsögninni „Kurr í fræðasamféaginu vegna skýrslu Hannesar“. En í fréttinni var látið nægja að segja að blaðið hefði heimildir fyrir þessum kurri án þess að nokkur þeirra væri nefnd eða tilvitnun í nokkurn mann, nefndan eða nafnlausan. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins sýndist víst líka sitt hverjum um efni hennar!

Þetta gengur ekki. Ef þetta er þungamiðja fréttarinar, þá verður a.m.k. að koma fram hvað mönnum þykir athugavert og helst hverjum þykir það.                                             ***

Íþróttadeild RÚV hlaut í vikunni „fjölmiðlaviðurkenningu KSÍ“ vegna ársins 2017 fyrir heimildarþáttaröðina Leiðin á EM í umsjón þeirra Eddu Sifjar Pálsdóttur og Maríu Bjarkar Guðmundsdóttur. Hún var gerð í aðdraganda Evrópumeistaramóts kvenna í fótbolta í Hollandi, þar sem skyggnst var bak við tjöldin hjá landsliðinu, leikmenn og þjálfarar teknir tali og fylgst með undirbúningi liðsins.

Þetta var fín þáttaröð og vel að viðurkenningu komin. En það skal enn og aftur áréttað, að það er eitthvað einstaklega bogið við það þegar hinir og þessir aðilar eru að veita verðlaun fyrir fjölmiðlaumfjöllun um sig og málefni, sem þeim eru kær. Þar gildir einu hvort um er að ræða ráðuneyti eða íþróttasambönd, fyrirtæki eða hégómlega einstaklinga.

Einkennilegast er þó að fjölmiðlar skuli taka við svona „verðlaunum“. Því þau eru skammarverðlaun. Ekki vegna þess að þar hafi miðlarnir staðið illa að verki, heldur vegna þess hverjir veita þau. Þetta eru verðlaun fyrir að hafa flutt fregnir eða fjallað um einhver mál með þóknanlegum hætti.