Þann 8. júní 1783 á Hvítasunnuhátíð gaus hér upp eldur upp úr afréttarfjöllum, sem eyðilagði land, menn og skepnur með sínum verkunum nær og fjær.“ — Síra Jón Stefánsson.

Takan er þung og ákveðin. Það er greinilega nokkuð af fiski í strengnum því félagi minn er nýbúinn að landa gullfallegum, nýgengnum sjóbirtingi. Stór hængur, dökkur á roðið, fer eftir lengdarmælingu aftur í ána til að sinna hlutverki sínu. Ég er staddur við Eldvatn í Meðallandi á kunnuglegum slóðum í hópi góðra vina. Frá Meðallandssléttunni blasir við augum ein stórkostlegasta fjallasýn sem fyrirfinnst á okkar fagra landi með Mýrdalsjökul, Kötlu, Vatnajökul, Lómagnúp, Öræfajökul og Hvannadalshnúk sem krúnudjásn.

Í huganum hverf ég aftur til þess tíma þegar gosið mikla úr Lakagígum hófst 1783. Flýg yfir tuttugu og fimm kílómetra langa eldstöðina sem jós eldi og eimyrju úr 135 gígum yfir sýsluna og landið með þeim afleiðingum að íbúum landsins fækkaði um fjórðung. Í Fljótshverfi, Meðallandi og á Síðu fórst nær helmingur íbúanna, brennisteins- og saltpétursmengun veikti og drap búfénað, fiskur flaut upp dauður í ám og vötnum og fuglar féllu dauðir til jarðar. Þó langt sé um liðið erum við reglubundið minnt á ógnarkraft jarðeldsins, nú síðast þegar aska lagðist yfir sveitirnar í sýslunni í kjölfar eldanna í Eyjafjallajökli. Sjóbirtingurinn sem gekk í árnar fyrir gosið mikla hefur trúlega drepist að stærstum hluta í hamförunum, en þeir sem sluppu við afleiðingar eldanna voru ekki langt undan þegar árnar fundu sér nýja farvegi og náttúran tók til við að endurskapa skilyrði fyrir þá.

Mér hefur alltaf fundist Vestur–Skaftfellski sjóbirtingurinn einstakur. Þykkur á roðið, samanrekinn og sterkur, erfðafræðilega hertur við óblíðar aðstæður. Í seinni tíð eru það ekki eldgos eða náttúruhamfarir sem að honum hafa sótt heldur maðurinn í öllu sínu veldi. Við höfum ofveitt hann og gerum enn, eyðilagt búsvæði hans með jarðraski og troðið uppá hann aðkomustofnum sem ekkert erindi eiga í sjóbirtingsárnar í Vestur- Skaftafellssýslu. Sú skylda hvílir á herðum okkar að vernda Vestur–Skaftfellska sjóbirtinginn. Sýnum það í verki.

Höfundur: Pálmi Gunnarsson

Pistill Pálma birtist í Viðskiptablaðinu 18. október 2012. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum Tölublöð.