Fyrir skömmu var haldinn fundur á vegum Fjármálaeftirlitsins þar sem farið var yfir afleita stöðu íslenskra lífeyrissjóða og þá  sérstaklega lífeyrissjóða á ábyrgð ríkissjóðs. Áfallin staða, sem er hugtak yfir loforð um greiðslur sem ekki er innistæða fyrir,  nemur hundruðum milljarða og mun á endanum falla á skattgreiðendur. Að hægt sé að reka lífeyrissjóði með viðvarandi halla er sér kapítuli út af fyrir sig. En það þarf aðeins að huga að því hvaða ákvarðanir við erum að taka með því að leyfa þessu að viðgangast. Á fundi FME kom fram að stór hluti áfallinnar stöðu komi ekki til greiðslu fyrr en eftir 15-20 ár. Með öðrum orðum: við erum búin að fresta vandanum yfir á næstu kynslóð.

Ef greiðslur eiga ekki að koma frá ríkissjóði þá þarf að breyta lögum svo að hægt sé að hækka lífeyrisaldur, lækka lífeyrisgreiðslur eða að hækka iðgjöld. Þægilegasta ákvörðunin fyrir þingmenn er því engin ákvörðun. Þá þarf enginn að taka ábyrgð á því að fólk reiðist þar sem það þarf að vinna lengur eða fær minna greitt. En engin  ákvörðun er, eins og svo oft, svo sannarlega ákvörðun sem taka þarf að ígrunduðu máli. Með engri ákvörðun er fimmtugur  þingmaður að segja óvitum næstu kynslóðar að þeir þurfi að borga hærri skatta svo að hann geti haldið sínum lífeyrisréttindum þegar hann og hans kynslóð setjast í helgan stein. Reyndar einungis þeir vinir hans sem eru svo heppnir að greiða í lífeyrissjóð sem er með baktryggingu ríkissjóðs.

Það er auðvitað galið að hægt sé að koma á kerfi þar sem fólk lofar sér góðæri í ellinni á kostnað annarra. Heilbrigt lífeyriskerfi ætti að byggja á því að við söfnum okkur réttindum á meðan við erum á vinnualdri og njótum svo þessara réttinda þegar til þess kemur. Með því að láta  næstu kynslóð borga undir gjaldþrota loforð erum við að veðsetja börnin okkar. Sumir myndu kalla það ósvífni, aðrir þjófnað, en svo eru líka til fallegri orð eins og neikvæð tryggingafræðileg áfallin staða.