*

sunnudagur, 24. júní 2018
Týr
11. september 2017 12:15

En slæmu verkefnin?

„Það er enda svo – alveg burtséð frá pólitískum smekk – að Íslendingar hafa sjaldan haft það betra,“ skrifar Týr.

Haraldur Guðjónsson

Það var einkar ánægjulegt að lesa um það um helgina, að Ísland væri í 1. sæti á lista yfir efnahagslegan árangur landa heims, samkvæmt Positive Economy Index 2017. Sá staðall mælir árangur OECD-ríkja í efnahagsmálum, þar sem ekki er aðeins horft til hagtalna, heldur matskenndari atriða eins og jákvæðrar skuldastefnu hins opinbera, menntastefnu, endurnýjanlegrar orkunotkunar og samfélagslegs trausts og samheldni.

***

Týr veit að vísu ekki hvernig þeir fundu út að Íslendingar skoruðu hátt í þessu síðastnefnda. Hljóta að hafa komið á landsleik. Hú.

***

Nú er þessi mælikvarði að vísu búinn til af Jacques gamla Attali, sem var helsti handlangari François heitins Mitterrand á efnahagssviðinu og var síðar í ráðuneyti François ekki heitins Hollande (Attali setur það varla í CVið). En hann er hvorki slæmur né ónýtur maður svo Týr og æsir allir fagna þessum lárviðarsveig. Það er enda svo – alveg burtséð frá pólitískum smekk – að Íslendingar hafa sjaldan haft það betra. Ekki aðeins í hinum efnislega og mælanlega skilningi, heldur einnig í þessu óræðara eða langvinnara, því markmið Attali er einmitt það, að leyfa langtímaárangri og raunverulegum ávinningi að njóta sín, í stað þess að einblína á stundarhagsmuni þá, sem hagtölur liðins árs endurspegla.

***

Það er alveg rétt fyrir Íslendinga að staldra við þetta. Nei, það er ekki svo að hér bjáti ekkert á, en land og þjóð eru samt í frábærri stöðu. Ekki síst þegar horft er á hvernig helstu samanburðarlöndum hefur vegnað á umliðnum árum. Það er nauðsynlegt að menn átti sig á því og nauðsynlegra að menn spili vel úr þeirri stöðu. Lagi það sem þarf að laga.

***

Í því ljósi var spes að hlýða á Óttar Proppé, heilbrigðisráðherra og formann Bjartrar framtíðar, tjá sig um stöðuna á ársfundi flokksins um liðna helgi: „Við erum í þessari furðulegu stöðu að eftir einhverja mestu efnahagslægð sem við þekkjum, allaveganna í okkar lífi, erum við á toppi efnahagsbólu, myndi ég vilja segja.“ Harmaði svo fjármálalega ábyrgð sína og sagði „hundleiðinlegt að þurfa að fresta góðum verkefnum þegar vel gengi“. Í bólunni. Eða eitthvað. – Já, þetta er erfitt líf. En hvað segir ráðherrann þá um að skjóta niður nokkur slæm verkefni í staðinn? Eða finnast virkilega engin slík?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.