Ég er mikill áhugamaður um sagnfræði og þrátt fyrir að ég sé farinn að kaupa allar mínar bækur á rafrænu formi þykir mér alltaf gaman að kíkja inn í bókabúðir borgarinnar og skoða úrvalið af sagnfræðibókum. Nú síðast gerði ég það á þriðjudaginn og ofbauð svo lélegt framboð að ég ákvað að gera litla tölfræðilega úttekt á því.

Í hillunni, sem merkt er „Saga“ voru 66 mismunandi sögutitlar. Þar af voru 33 um seinni heimsstyrjöldina og einstaklinga sem tengdir eru henni með nánum hætti, s.s. Stalín og Churchill. Ef bætt er við sambærilegum bókum um fyrri heimsstyrjöldina og kalda stríðið fer talan upp í um það bil 40. Ekki var að sjá neinar bækur um sögu Forngrikkja, Rómarveldis, miðalda, endurreisnarinnar eða upplýsingaraldarinnar. Nú hef ég eins og flestir aðrir sagnfræðirugludallar lesið yfir mig af seinni heimsstyrjöldinni á einhverjum tímapunkti. Þetta er mikilvægur tími í mannkynssögunni og því eðlilegt að fólk hafi áhuga á honum. Ég velti því hins vegar fyrir mér af hverju langstærstur hluti framboðsins í þessari tilteknu bókabúð eru bækur um nasista, þriðja ríkið og Hitler. Ég sá enga bók um helförina, þótt henni sé eflaust gerð skil í einhverjum af áðurnefndum bókum. Ekki var heldur að sjá neina bók sem sérstaklega tekur á stríðinu í Asíu. Hvað um það.

Það er nánast eins og sagnfræðiáhugi íslenskra viðskiptavina bókabúðarinnar stoppi við þarsíðustu aldamót og er það miður. Það er gríðarlega margt sem hægt er að læra af Forngrikkjum og Rómverjum, upphafsmönnum vestrænnar siðmenningar. Miðaldirnar eru stórskemmtilegar aflestrar, þótt fæst okkar vildum hafa verið uppi á þeim tíma. Eins er ómögulegt að ná sæmilega umfangsmiklum skilningi á því af hverju heimurinn er eins og hann er ef maður þekkir ekki til þrjátíu ára stríðsins, byltinganna í Englandi 1688 og Frakklandi 1789 og Napóleonsstríðanna.

Mér blöskrar þegar ég hitti fólk sem ekki þekkir Lúðvík 14. en það er e.t.v. mitt vandamál. Bandaríska sjónvarpsstöðin History Channel sýndi um tíma nánast eingöngu þætti um seinni heimsstyrjöldina og var svo komið að hún fékk viðurnefnið Hitler Channel hjá gárungunum. Núna sýnir hún hins vegar aðallega þætti um geimverur og er óskandi að sagnfræðideildir íslenskra bókabúða fylgi ekki í kjölfarið.