Í aðdraganda árlegra alþingiskosninga ræða stjórnmálamenn flestra flokka um nauðsyn þess að „klára endurskipulagningu fjármálakerfisins“. Það er áhugavert að margir þeirra stjórnmálamanna sem tala fyrir þessu hafa setið á Alþingi og verið önnum kafnir einmitt við að endurskipuleggja sama fjármálakerfi.

Þessi endurskipulagning hefur falist í vinnu stjórnvalda við innleiðingu á um fjörutíu viðamiklum tilskipunum ESB sem snerta flesta þætti fjármálamarkaða. Þessar tilskipanir eru bein afurð þeirrar miklu endurskoðunarvinnu sem hófst í kjölfar fjármálakreppunnar og er ætlað að sníða af þá vankanta sem komu svo glögglega í ljós aðdraganda hennar.

Í umræðu hér á landi spyrja stjórnmálamenn stundum: Hvernig bankakerfi viljum við? Þeirri spurningu hefur þegar verið svarað í Evrópu og meðan við erum enn á hinum sameiginlega evrópska markaði er lítið svigrúm til þess að kveða séríslensk stef við það svar. Það grefur undan samkeppnisfærni íslenska fjármálageirans.

Það hefur því miður verið gert að einhverju leyti með því að flétta séríslenskum ákvæðum við innleiðingu þessara tilskipana og skattlagningu á fjármálageirann. Sú áhersla bitnar á viðskiptavinum fjármálafyrirtækja og rýrir jafnframt virði eignarhlutar ríkisins í viðskiptabönkunum. Varðandi það síðarnefnda þá lækkar bankaskatturinn, fjársýsluskatturinn og sérstakur fjársýsluskattur virði bankanna um 280 milljarða. Í þessu samhengi má nefna að lækkun á umfram eigið fé bankanna þannig að það uppfylli þó viðmið FME myndi skila ríkissjóð 70-100 milljörðum.

Endurskipulagning fjármálageirans hefur þegar átt sér stað. Nú er komið að umbreytingunni og þá reynir á samkeppnishæfnina. Innleiðing PSD II-tilskipunarinnar mun höggva stór skörð í viðskiptabankatekjur hefðbundinna fjármálafyrirtækja. Samkeppni um veitingu fjármálaþjónustu mun harðna með tilkomu nýrra aðila á borð við fjártæknifyrirtækja (e. fintech) inn á markaðinn. Það ætti því að vera keppikefli fyrir stjórnmálamenn að skapa hagkvæmt samkeppnisumhverfi fyrir íslenskan fjármálamarkað til að hann geti tekist á við breytta tíma.

Höfundur er sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja