Alþingi samþykkti á dögunum að fella niður virðisaukaskatt af rafbílum og vetnisbílum. Ísland er annað landið í heiminum til að fara þessa leið en í Noregi er ekki greiddur virðisaukaskattur af rafbílum. Lögin kveða á um að virðisaukaskattur af raf- og vetnisbílum sem kosta innan við sex milljónir falli niður.

Engin vörugjöld eru af rafbílum og því verða bílarnir talsvert ódýrari en ef greiddur væri fullur skattur af þeim. Lögin munu taka þegar gildi en einhver tími mun hins vegar líða þar til rafbílar fara að koma til landsins.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins munu fyrstu rafbílarnir ekki koma til landsins fyrr en næsta vetur. Þeir hafa allir verið pantaðir fyrir allöngu síðan. Þá sem langar í rafbíl í dag verða að sýna þolinmæði því talsverður tími mun líða þar til þeir fá hann afhentan. Á þessu ári verða framleiddir um 150 þúsund rafbílar í heiminum en það er bara lítið brot af allri bílaframleiðslu í heiminum. Á næsta ári er reiknað með að framleiðslan verði um 500 þúsund rafbílar.

Álið er málið

Bílaframleiðendur hafa margir aukið mjög notkun áls í bílum sínum. Helst hefur notkun áls verið í felgur, vélar og fjöðrunarbúnað á undanförnum árum en á síðustu misserum hefur álnotkunin einnig náð til hurða, bretta, húddloka og jafnvel burðargrindar. Audi hefur verið frumkvöðull á þessu sviði og byggt bíla sem að langmestu leyti hafa verið úr áli. Annar þýskur lúxusbílaframleiðandi, Mercedes- Benz, hefur aukið mjög álnotkun í bílum sínum að undanförnu og fleiri bílaframleiðendur fylgja í kjölfarið.

Aukin notkun áls minnkar mengun bíla þar sem álið léttir þá til muna. Ál vegur þrisvar sinnum minna en stál en kostar meira og er erfiðara og dýrara að móta. Álið er mest notað í lúxusbílum því þar er helst hægt að réttlæta aukinn kostnað og koma honum út í verðlagið. Þess má geta að Mercedes-Benz SL Roadster er svo til alveg byggður úr áli og með því hefur hann lést um 150 kíló.

Pistillinn birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins 28. júní síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.