*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Þorkell Sigurlaugsson
11. júní 2017 19:20

Er erfitt að spá fyrir um framtíðina?

Þessi árin stöndum við á tímamótum þar sem enn ein iðnbyltingin mun breyta okkar lifnaðarháttum.

Sjálfkeyrandi bíll í London.
european pressphoto agency

Einn af algengum frösum um spádóma er að „erfitt er að spá, sérstaklega um framtíðina“.  Þetta er mikill misskilningur og er oftar notað sem afsökun fyrir því að taka ekki ákvarðanir um breytingar, ný vinnubrögð og nýjar aðferðir við t.d. í fjármálaáætlun fyrirtækja og hins opinbera.

Árið 1987, fyrir 30 árum spurði Morgunblaðið mig og nokkra aðra svokallaða spámenn þess tíma um framtíðina. Hver yrði staðan eftir 25 ár þ.e. árið 2012? Spá okkar var birt í Lesbók Morgunblaðsins 21. desember 1987 og voru hugleiðingar mínar rifjaðar upp af blaðinu 8. febrúar 2015. Ótrúlega margt gekk eftir og var í raun fyrirsjáanlegt. Það sem skiptir máli þegar verið er að spá í framtíðina er að horfa á þróunina, tækifærin og hvert við viljum fara.  Ferðaþjónustan er gott dæmi um undirbúningsleysi stjórnvalda, en fiskveiðistjórnun og stýring á því sviði er að flestu leyti til fyrirmyndar. Stefnumörkun t.d. í atvinnumálum, menntamálum og á öðrum sviðum þarf að vera mun skýrari og byggja á meira samstarfi stjórnvalda og atvinnufyrirtækja.

Fjórða iðnbyltingin er hafin

Þessi árin stöndum við á tímamótum þar sem enn ein iðnbyltingin mun breyta því hvernig við lærum, lifum, störfum og eigum samskipti við hvort annað. Stærð, umfang og flækjustig þessara breytinga verður ef til vill meira en mannkynið hefur upplifað aldirnar á undan. Áhrifin verða mikil og munu kalla á umfangsmiklar breytingar í stjórnmálum, opinbera geiranum og einkageiranum, menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu, fjölmiðlun og á öllum sviðum samfélagsins. Hér eru nokkur dæmi um það sem er að gerast:

 •  Stærsta „leigubílafyrirtæki“ í heimi á enga leigubíla (Uber)
 • Stærsti leigumiðlari í heimi á engar íbúðir (Airbnb)
 • Stærstu símafyrirtækin eru ekki með neinn símainfrastrúktúr ( Skype, WeChat)
 • Verðmætasti smásöluaðilinn er ekki með neinar vörubirgðir ( Alibaba)
 •  Stærsta dreifiaðili kvikmynda/sjónvarpsefnis er á netinu (Netflix)
 •  Stærstu dreifiaðilar hugbúnaðar skrifar ekkert app (Apple & Google)
 • Verslanir eru með enga búðarkassa eða afgreiðslumenn á kassa (Amazon Go o.fl.)
 • Sjálfkeyrandi bílar, sjálfvirkni og gervigreind er á öllum sviðum (Tesla, Google o.fl)

Þetta kallar á nýja hugsun, alveg eins og rafmagnið umbreytti þjóðfélaginu. Við hættum fyrir löngu síðan að tala um rafmagnið og mikilvægi þess. Það er orðin sjálfsagður hlutur og allt okkar líf og starf byggir á því.  Sama gildir um Internetið, það er orðið 40 ára gamalt. Við tölum um það með öðrum hætti en áður og það er orðin sjálfsagður hlutur til samskipta og viðskipta. Nýting Internetsins, þráðlausra og stafrænna lausna og nýting gervigreindar er rétt að byrja.

Mikilvægi menntunar og mannauðs

Við núverandi aðstæður þarf að leggja sérstaka áherslu á menntamál, nýsköpun, rannsóknir og vísindastarf í öllum greinum atvinnulífsins. Mikilvægi kennarans, vísindamannsins og frumkvöðulsins er aldrei mikilvægara en í dag. Við sjáum hvernig þetta er að móta okkar daglegt líf hvort sem það snýst um nýtingu náttúruauðlinda, fjölmörgum hefðbundnum atvinnugreinum eða nýjum skapandi greinum. Þessi atriði voru til umræðu á morgunverðarfundi sem Viðskiptaráð og VÍB héldu þann 31.maí um niðurstöðu samkeppnisgreiningar IMD. Þar fluttu mjög áhugaverð erindi þau Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri hjá CCP og Ari Kristinn Jónsson, rektor HR.  Fyrir áhugasama er hægt að sjá upptöku af þessu fróðlega morgunverðarfundi á heimasíðu Íslandsbanka, www.islandsbanki.is.

Þekkingin verður ekki fjötruð í höftum

Við verðum að taka þátt í þessari 4. iðnbyltingu, því lífskjör Íslendinga, lífsgæði og lífsgleði mun ráðast af því hvernig til tekst. Verðmætasköpun mun í vaxandi mæli byggja á hugviti, sköpun og þekkingu til að auka framleiðni og verðmætasköpun. Þekkingin getur auðveldlega flutt af landi brott ef við sköpum ekki tækifæri hér á landi. Hún verður ekki í höftum eða bundin við Ísland eins og fasteignir, fiskveiðikvóti eða aðrar náttúruauðlindir. Auk innlendrar þekkingar verður að laða til landsins erlenda þekkingu, erlenda nemendur og erlent vinnuafl á sviði þekkingarsköpunar, en ekki eingöngu láglaunastarfa. Hvergi hefur þetta verið augljósara en í Kísildalnum í Kaliforníu  þar sem háskólar, fyrirtæki og einstaklingar af öllu þjóðerni hafa verið drifkraftur uppbyggingar hagkerfisins. Þar urðu til, oft innan háskóla, stærstu og verðmætustu fyrirtæki heimsins í dag. Danir hafa ákveðið að hafa sendiherra í Kísildalnum til að tengjast stórum alþjóðlegum fyrirtækjum og háskólum, því ekki væri lengur nóg að horfa eingöngu til einstakra landa.

Framtíðin mun byggjast á því að fjárfesta í nýsköpun, rannsóknum og háskólastarfi. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar endurspeglar ekki þá framtíðarsýn sem atvinnulífið og háskólasamfélagið hefur í því efni. Á því þarf að verða breyting við endurskoðun núverandi fjármálaáætlunar. Núverandi ríkisstjórnarflokkar ættu að hafa skilning á því, ekki síst þar sem þeir kenna sig við sjálfstæði, viðreisn og bjarta framtíð þjóðarinnar.

Höfundur er viðskiptafræðingur og formaður menntamálanefndar Sjálfstæðisflokksins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

 • - Viðskiptablaðið sent heim
 • - Vefaðgangur að vb.is
 • - Frjáls verslun sent heim
 • - Fiskifréttir sent heim