Þegar fólk talaði um efnahagsuppganginn sem einkenndi íslenskt þjóðfélag á árunum fyrir 2008 er oft talað um Range Rover bílana í sömu andránni. Gárungarnir kölluðu jeppana jafnvel Game Over , í kjölfar efnahagsáfallsins 2008. Bílarnir þóttu lýsa ágætlega þeim tíðaranda sem ríkti í íslensku þjóðfélagi: Glamúr, skuldsetning einstaklinga og sýndarmennska.

Aftur á móti mætti færa rök fyrir því að nýir Volvo jeppar á borð við Volvo XC90 séu táknmynd nýja góðærisins. Volvo er bílategund sem reynir iðulega að tengja vörumerki sitt við öryggi og stöðugleika. Bíllinn var meira að segja valinn bíll ársins 2016. Bílarnir eru oft umhverfisvænir og öruggir, en einnig fagrir. Nýja góðærið er ólíkt því sem ríkti fyrir hrun. Fólk er ekki eins skuldsett, vísitala kaupmáttar hefur hækkað mikið og fólk er með meira milli handanna. Kjörorðin eru skynsemi og stöðugleiki. Ferðaþjónustan verður grundvallaratvinnugrein og skilar okkur verulegum hagvexti, ríkið borgar niður skuldir. Eina sem eyðileggur stemminguna í þjóðfélaginu er hátt íbúðarverð og leiðinlegir yfirmenn.

2017 góðæri

Fyrir mér mætti Volvo-jeppinn alveg halda áfram að vera táknmynd góðærisins. Til tákns um stöðugleika og öryggi. Á Íslandi er mesti hagvöxtur meðal þróaðra ríkja, hann mældist 7,2% og hefur ekki mælst meiri að árinu 2007 undanskildu. Þó er gert ráð fyrir því að hægist nokkuð á vextinum á næstu árum, sem ætti ekkert endilega að þýða neitt slæmt. Atvinnuleysi mælist 5,3% í maí og verðbólga 1,8% í júlí. Einkaneysla jókst um 6,9% í fyrra og fjárfesting um 22,7% samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands. Nú stefnir fjármálaráðherra og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, að því að greiða niður skuldir hins opinbera næstu árin þannig að hreinar skuldir ríkissjóðs verði engar innan tíu ára – til tákns um skynsemi. Allt mjög Volvo-legar aðstæður.

Þegar litið er til einstaklingsins þá vakti nýleg grein sem birtist inn á Mbl.is athygli. Þar kom fram að skuldsetning einstaklinga vegna bílakaupa er mun minni en hún var fyrir áratug og að fáir einstaklingar nýta sér lánshlutfallið sem fjármálastofnanir bjóða til fulls að því er kemur fram í svörum þriggja bílaumboða. Þá er bara stóra spurningin, hversu margir af þessum einstaklingum hafa verið að kaupa sér Volvo? Menn ættu kannski að fara að taka saman Volvo-vísitölu — en þetta er svo sem bara tilfinning hjá mér.