Langt er síðan jafn miklar sviptingar hafa verið á íslenska fjölmiðlamarkaðnum og nú undanfarið. Eins og með margt annað má vel velta því fyrir sér hvort fylgni sé á milli hræringa á fjölmiðlamarkaði og hagsveiflna.

14. mars var tilkynnt um kaup Fjarskipta (Vodafone) á öllum eignum 365 miðla nema Fréttablaðinu. Fjarskipti munu því meðal annars reka Stöð 2, Bylgjuna og vefmiðilinn Vísi. Örlög Fréttablaðsins eiga eftir að skýrast.

Þremur vikum seinna, eða 4. apríl, birtust fréttir um að Eyþór Arnalds fjárfestir hefði keypt ríflega fjórðungs hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Eyþór hefur gjarnan látið til sín taka þar sem hann hefur komið inn sem fjárfestir og því verður fróðlegt að fylgjast með framgöngu hans uppi í Hádegismóum.

Þann 6. apríl, eða aðeins tveimur dögum eftir að Eyþór hafði verið í fréttum, var greint frá því að rekstrarvandi Fréttatímans væri orðinn svo mikill að hluti starfsfólks hefði ekki fengið greidd laun. Mér og fleirum, sem vilja flóru fjölmiðla sem fjölbreyttasta hér á landi, þóttu þessar fréttir mjög dapurlegar.

Þann 18. apríl birtist enn ein fréttin úr íslenska fjölmiðlaheiminum. Þá barst tilkynning frá Birni Inga Hrafnssyni þess efnis að verið væri að klára 300 milljóna króna hlutafjáraukningu hjá Pressunni. Fyrir þá sem ekki vita þá rekur Pressan og félög henni tengd marga fjölmiðla. Má til dæmis nefna DV, Vikuna, Gestgjafann, Hús & híbýli, Nýtt Líf, ÍNN og þá eru vefmiðlar eins og pressan.is, eyjan.is, bleikt.is og 433.is einnig í eigu Pressunnar.

Unnendur fjölmiðla hljóta að fagna því að búið sé að tryggja rekstur fjölmiðla Pressunnar.

Besta fréttin fyrir okkur, sem berum hag vinnandi fólks fyrir brjósti, birtist í fréttatíma Sjónvarpsins þann 1. maí.  Þá spurði fréttamaður RÚV Gunnar Smára stofnanda Sósíalistaflokksins: "Þú hefur sjálfur sætt gagnrýni að undanförnu eftir viðskilnað þinn við Fréttatímann, þar sem að starfsfólk fékk ekki greidd laun, ert þú trúverðugur sem baráttumaður alþýðunnar?"

Gunnar Smári sagðist ekki geta lagt mat á það en bætti við: „Við stofnuðum Fréttatímann, rákum þar mjög róttækt fríblað, því miður þá gekk það ekki á markaði og það fór á hausinn. Starfsfólkið er varið þannig að það á allar eignir búsins og mun fá öll laun sín greidd.“

Það sem er mikilvægt að skilja í þessu svari er að Gunnar Smári talar um að starfsfólkið muni fá ÖLL laun sín greidd. Það getur ekki þýtt annað en að töluverðar eignir séu í búinu og þar með þurfi skattgreiðendur, ábyrgðarsjóður launa, ekki að borga brúsann.

Ef blaðamenn Fréttatímans hefðu þurft að sækja til ábyrgðarsjóðsins hefði það verið mikið högg því sjóðurinn greiðir einungis 385 þúsund krónur að hámarki fyrir hvern mánuð. Margir blaðamenn og starfsmenn voru með nokkuð hærri laun en það. Auk þess getur tekið marga mánuð að fá greitt úr sjóðnum.

Við fögnum því þessu útspili Gunnars Smára en óttumst á sama tíma svolítið að verkalýðsleiðtoginn nýi hafi verið alltof brattur í þessu svari. Að hann hafi byrjað ferilinn á því að segja ósatt um laun fyrrverandi starfsmanna og það í fréttum Ríkissjónvarpsins, á stofndegi Sósíalistaflokksins, baráttudegi verkalýðsins, 1. maí. Það kemur í ljós.