# metoo byltingin hefur varla farið fram hjá neinum sem hefur fylgst með umræðunni í fjölmiðlum á síðustu vikum og mánuðum. Margir spyrja sig hvaða tilgangi þessar #metoo sögur þjóna og hvort komið sé nóg af sögum. Sögurnar hjálpa okkur að sjá hvað hefur viðgengist í samfélaginu sem konum þykir óþægilegt og hverju við þurfum að breyta til að bæta samskipti kynjanna. Sögurnar eru því nauðsynlegar á meðan við erum að fóta okkur í því hvernig við nýtum byltinguna til breytinga.

Við upphaf umræðunnar kom fram gagnrýni á þá karlmenn sem blönduðu sér í umræðuna og hvorki þeim, né konunum virtist ljóst hvert þeirra hlutverk væri í þessari byltingu. Þessi gagnrýni hefur mögulega haft þau áhrif að karlmenn veigra sér við að taka þátt í umræðunni. Ef við viljum að byltingin leiði til jákvæðra breytinga þurfum við að finna leiðir til þess að karlar og konur mætist í umræðunni og ræði saman um ný viðmið í samskiptum kynjanna.

Hvað svo?

Nú hafa línur skýrst um um það sem verið hefur í gangi og hvaða áhrif það hefur haft á konur. Þá þarf að horfa til þess hvaða breytingar þurfa að verða til að öllum geti liðið vel í þessu samfélagi okkar. Breytingarnar sem gera þarf, eru breytingar á menningu. Menningu verður ekki breytt með lögum og reglum, það hefur áður verið reynt án árangurs.

Menning er eitthvað sem skapast í kringum gildi og viðhorf þeirra sem byggja samfélagið. Með því að hlusta á sögurnar fáum við tækifæri til að endurskoða hvað okkur finnst í lagi í samskiptum og tækifæri til að skapa nýja framtíð með breyttum viðhorfum.

Hverjir breyta menningunni?

Ég held að bæði kynin hafi í gegnum tíðina átt sinn þátt í skapa þá menningu sem ríkt hefur. Með því að segja upphátt hvernig konur upplifa samskipti, fá karlar tækifæri til að endurskoða þau frá sinni hlið.

Það hefur verið bent á mikilvægi þess að biðja um leyfi fyrir snertingu, virða vilja til sambandsslita, ekki áreita ef augljóst er að áhuginn er ekki gagnkvæmur o.s.frv. Við þurfum líka að gæta betur orða okkar, hvernig við tölum um, við og til annarra einstaklinga. Það er ljóst að hvorki karlar né konur geta breytt þessu einhliða og við þurfum öll að hjálpast að og skapa ný viðmið í samskiptum.

Dæmi um breytt viðmið og gildi

Saga Noru Mörk, landsliðskonu Noregs í handbolta, er gott dæmi um það sem #metoo byltingin hefur áorkað. Þann 13. nóvember 2017 kom Nora fram í sjónvarpsviðtali á TV2 þar sem hún upplýsti að brotist hefði verið inn í símann hennar og viðkvæmar myndir af henni væru komnar í dreifingu. Tveimur dögum síðar voru lagðar fram kærur á 15 menn sem höfðu tekið þátt í dreifingu myndanna.

Strax í nóvember hafði hún samband við norska handknattleikssambandið og upplýsti að meðal þeirra sem dreifðu af henni myndum væru leikmenn í norska karlalandsliðinu í handbolta. Viðbrögð handknattleikssambandsins voru engin. Sama dag og karlalandsliðið tryggði sér sæti á EM í Króatíu, þann 16. janúar 2018, upplýsti hún opinberlega um að leikmenn úr norska karlalandsliðinu væru meðal gerenda og tilkynnti að hún íhugaði að hætta að spila með norska kvennalandsliðinu í handbolta vegna fálætis ráðamanna í handknattleikssambandinu.

Bjarte Myrhol, fyrirliði norska karlalandsliðsins sá ástæðu til að gagnrýna Noru opinberlega fyrir að hafa „hent þessu fram í dagsljósið á miðju stórmóti hjá körlunum“ þar sem hann taldi þetta mikið álag á leikmennina á svo mikilvægum leikdegi. Svo virðist sem karlalandsliðið hafi fengið fremur dræm viðbrögð við þessum umkvörtunum sínum, því að í lok febrúar fundaði norska handknattleikssambandið tvívegis með Noru og í framhaldi af því gaf hún út yfirlýsingu um að hún væri tilbúin til að spila áfram með kvennalandsliði Noregs.

Ástæðan var sú að norska handknattleikssambandið hefur ákveðið að breyta öllum sínum vinnureglum er varðar kynferðislega áreitni. Barátta Noru hefur því skilað þeim árangri að á hana er nú hlustað og það er hún sem hefur stjórnina á aðstæðum sem áður voru í höndum þeirra sem brutu á henni. Það má því segja að Nora hafi með eftirtektarverðum hætti náð að færa skömmina frá sér sem þolanda til gerenda í málinu, bæði þeirra sem dreifðu myndunum og ekki síður þeirra sem höfðu aðstöðu til að aðhafast í málinu en gerðu það ekki.

Munum að aðgerðarleysi er ákvörðun og getur haft afgerandi afleiðingar fyrir framgang þessa mikilvæga málefnis.

Höfundur er framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar Íslands og fulltrúi Félags kvenna í atvinnulífinu í nefnd Jafnréttisráðuneytisins um #metoo