Í herbergi í stæðilegu húsi við Kalkofnsveg, sitja fimm manns við hringlaga borð, með nokkuð trekktar taugar og hugsanlega nokkrar svitaperlur á enni. Stundin er runnin upp, vaxtaákvörðun hjá peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands. Meðlimir nefndarinnar hafa í nokkuð langan tíma haft áhyggjur af hækkandi verðbólgu og verðbólguvæntingum en jákvæð þróun undanfarinna missera hefur leitt til þeirrar niðurstöðu að nú skuli vextir lækkaðir um hálft prósent.

Daginn eftir, þegar ákvörðunin hefur verið formlega kynnt, ríkir nokkur óvissa hjá nefndarmönnum því að þeirra mati hefur gríðarlega aðhaldsöm peningastefna gegnt lykilhlutverki við að ýta niður verðbólgu og verðbólguvæntingum undanfarin ár. Ákvörðun gærdagsins kann að hafa ófyrsjáanlegar afleiðingar, hugsanlega hefur hún losað um kjölfestu peningastefnunnar og stuðlað að því að verðbólga og verðbólguvæntingar hækki á ný.

Viðbrögð á skuldabréfamarkaðaranis láta hins vegar ekki sér standa, því þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi slakað lítillega á ofurháum raunvöxtum sínum hríðfalla verðbólguvæntingar til skemmri og lengri tíma á skuldabréfamarkaði.

Meðlimum peningastefnunefndar er létt, þróunin er í samræmi við niðurstöður kannana sem bankinn lét gera fyrir vaxtaákvörðunina og bendir til að ákvörðunin hafi verið mjög skynsamleg. Enda eru verðbólguvæntingarnar í sínu lægsta gildi í dag, um 2,2% eftir að hafa sveiflast í í kringum 3% frá september 2015, og reyndar mun lægri ef leiðrétt er fyrir áhættuálagi, sem Seðlabankinn hefur metið sem 0,5%.

Peningastefnunefnd ætti að geta gert sér glaðan dag á næstunni. Hagvöxtur er sterkur, atvinnuleysi er lágt á sama tíma og ráðstöfunartekjur fara hækkandi. En á sama tíma gera hefðbundin bólumerki ekki vart við sig – skuldir ríkis, heimila og fyrirtækja fara lækkandi, gjaldeyrisforði Seðlabankans þenst út, sparnaður eykst og verðbólguvæntingar eru á hraðri niðurleið. Það ætti að vera sannkallað fagnaðarefni!