*

föstudagur, 19. apríl 2019
Bjarni Ólafsson
28. febrúar 2015 15:41

Fall evrunnar

Upptaka evrunnar, í þeirri mynd sem hún var tekin upp, var mikið óráð. Vonandi verða afleiðingarnar ekki óviðráðanlegar.

Haraldur Guðjónsson

Tillögur grísku ríkisstjórnarinnar um eins konar „diet“ aðhald í ríkisfjármálum, að minnsta kosti í samanburði við þær aðhaldskröfur sem gerðar voru samkvæmt upphaflegu björgunaráætluninni, voru samþykktar á þriðjudaginn og því ljóst að Grikkir munu fá þá fjögurra mánaða framlengingu á fjárhagsaðstoð sem þeir óskuðu eftir. Ríkissjóður Grikklands verður því vart gjaldþrota á þessu tímabili og evrusvæðið stendur enn óhaggað.

Í bili að minnsta kosti. Reynslan hefur ekki gefið tilefni til bjartsýni þegar kemur að skuldasamningum við gríska ríkið. Það breytir heldur ekki þeim undirliggjandi þáttum sem gera evruna að veikari gjaldmiðli en margir telja hana vera. Gideon Rachman skrifaði í vikunni mjög góðan pistil í Financial Times um þessa veikleika myntsamstarfsins sem hægt er að taka undir heils hugar.

Þar segir hann að hann hafi frá upphafi verið sannfærður um að evran gæti ekki, að óbreyttu, varað að eilífu. Hún sé dæmd til falls. Í fyrsta lagi geti myntbandalag ekki virkað án þess að það sé stutt pólitísku bandalagi. Í öðru lagi muni slíkt pólitískt bandalag aldrei verða til í Evrópu vegna þess að engin sameiginleg pólitísk sjálfsmynd bindur allar evruþjóðirnar. Af þessum tveimur ástæðum geti evran ekki annað en fallið á endanum.

Vandi Grikklands, sem og annarra ríkja sem höllum fæti standa, líkt og Portúgals og Ítalíu, undirstrikar þennan grundvallargalla í evrusamstarfinu. Norður-Evrópuríki, Þýskaland þar fremst í flokki, geta hugsað sér að aðstoða suðræna frændur sína með lánveitingum. Kjósendur í Svíþjóð, Hollandi og Þýskalandi munu hins vegar seint samþykkja nánara pólitískt bandalag sem fæli í sér varanlegt flæði fjármagns frá þessum svæðum til S-Evrópu. Allt tal um nánara fjárlagabandalag mun stranda á þessum kjósendum.

Með tilkomu evrunnar hættu ríki eins og Ítalía að geta lækkað skuldir sínar með því að fella gengi og blása upp verðbólgu. Enda hafa þessi ríki safnað upp svo miklum skuldum að erfitt er að sjá hvernig þau eiga að standa undir þeim. Þetta þýðir hins vegar ekki að hægt sé að „hlakka til“ þess þegar evran fellur. Þegar og ef Grikkland, eða annað veikburða Suður-Evrópuríki, yfirgefur evrusamstarfið nauðugt viljugt mun það hafa gríðarleg áhrif innan þessa sama ríkis og ekki jákvæð. Þessi neikvæðu áhrif munu smitast, meira eða minna, yfir í þau lönd sem bundin eru ríkinu nánustum viðskiptaböndum.

Sá pólitíski óstöðugleiki sem afar líklegt er að myndi fylgja í kjölfarið myndi hafa áhrif sem erfitt er að sjá fyrir. Nú, þegar óformlegt stríð er háð í Úkraínu, er nauðsynlegt að Evrópuríki vinni saman. Þessi pólitíski óstöðugleiki gæti enn fremur ýtt enn undir þá ólgu sem fært hefur öfgaflokkum meira kjörfylgi en þeir hafa notið í áratugi. Evrópa þekkir öðrum álfum fremur hættuna sem af slíkri þróun stafar.

Þetta allt undirstrikar það hve upptaka evrunnar, í þeirri mynd sem hún var tekin upp, var mikið óráð. Vonandi verða afleiðingarnar ekki óviðráðanlegar.

Stikkorð: Leiðari
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim