Hluti heimilisbókhalds allra Íslendinga liggur nú frammi í afgreiðslum ríkisskattstjóra, auk þess sem embættið hefur tekið að sér að spara fjölmiðlum vinnu og sent þeim lista yfir svokallaða skattakónga. Til að stytta raðir hjá ríkisskattstjóra hafa svo fjölmiðlar tekið að sér að velja nokkur þúsund manns sem þeir taka sérstaklega fyrir og birta laun þeirra.

Að mati réttlætisriddara samfélagsmiðla og athugasemdakerfa eru þeir tekjuhæstu glæpamenn og þeir tekjulægstu skattsvikarar. Birtingin virðist lítið annað gera en að ala á óánægju og öfund. Líklega líður fáum betur eftir að hafa lesið tekjublöðin.

Tveimur dögum áður en álagningarskrárnar voru birtar komst Mannréttindadómstóll Evrópu að niðurstöðu í máli Satakunnan Markkinapörssi Oy og Satamedia Oy gegn finnska ríkinu. Íslenskir fjölmiðlar voru líklega of uppteknir við að hnýsast í álagningarskrárnar til að gefa þessum dómi gaum. Finnska ríkið hafði bannað fyrirtækjunum að birta upplýsingar úr álagningarskrám á þeim forsendum að það væri brot á friðhelgi einkalífs.

Fyrirtækin töldu það vera brot á tjáningarfrelsi en Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri nið- urstöðu að svo væri ekki. Dómstólinn sá ekki ástæðu til að hnekkja því mati finnskra dómstóla að birtingin hefði ekki þýðingu fyrir almenning. Þegar tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs voru vegin saman var talið að í þessu tilfelli ætti friðhelgi einkalífs að vega þyngra.

Á sama tíma og auknar kröfur eru eðlilegar um gagnsæi í starfsemi hins opinbera er mikilvægt að standa vörð um friðhelgi einkalífs einstaklinga. Vandséð er af hverju friðhelgi ætti að ríkja um nær öll önnur fjármál einstaklinga en tekjur. Af hverju tekur ekki ríkið að sér að birta útgjöldin líka? Listi yfir mestu eyðsluseggi landsins væri mun meira krassandi.

Höfundur er lögfræðingur og er með MBA gráðu.