Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, benti í nýlegu viðtali á skaðleg áhrif skorts á tæknimentuðu fólki á hagvöxt. Þrátt fyrir að viðtalið bæri með sér að þarna færi háskólamaður í leit að aur er hægt að taka undir orð rektorsins um mikilvægi (tækni)menntunar. Frá mínum bæjardyrum séð er vandamálið hins vegar miklu víðtækara og stærra en það sem rektorinn fjallar um- og ég er ekki viss um að við getum gert neitt í því.

Vandinn er að á Íslandi er einfaldlega allt of fátt fólk. Hvort sem við fjölgum tæknimenntuðum eða ekki þá verður allt of fátt hæfileikafólk á Íslandi. Um leið og fyrirtæki ná tiltekinni stærð þá mun þurfa að sækja fólk annað. Það er ekkert óeðlilegt að stór nýsköpunarfyrirtæki flytji starfsemi sína úr landi þegar ná ákveðinni stærð. Það er ekki spekileki. Það er eðlileg þróun.

Að sama skapi er mikil samkeppni um gott fólk á Íslandi. Um leið og Íslendingur sýnir einhvern snefil af hæfileikum eða getu þá fær hann feikna ábyrgð og tækifæri. Þetta er frábært fyrir okkur, frá persónulegu sjónarhorni, en frá sjónarhorni hagkerfisins eða fyrirtækjanna er þetta ekki gott. Reynslulítil, illa menntuð og einsleit hjörð íslenskra sérfræðinga og stjórnenda gerir það að verkum að við náum aldrei þeim árangri sem meiri samkeppni og fleira fólk gæti skapað okkur. Það er kannski allt í lagi. Við ættum ekki að hafa væntingar um slíkt. Það er ekkert 300.000 manna þorp sem ætlar sér eins stóra hluti og við. Stundum er það alveg frábært. Stundum er það ekki.

Ég hef rætt við erlenda fjárfesta um íslenskt atvinnulíf og íslenska sérfræðinga og stjórnendur. Það er þeirra samdóma álit að Íslendingar séu á margan hátt frábærir og frjóir en ýmislegt skorti sem skrifa má á fólksfæð og skort á samkeppni. Erlendur fjárfestir sagði mér eitt sinn að það væri himinn á haf á milli þeirra sérfræðinga sem hann réði á Íslandi og þeirra sem hann ætti að venjast frá Bandaríkjunum. Á Íslandi væri hans stoðsveit; lögfræðingar, endurskoðendur og aðrir slíkir, af allt öðru og verra kaliberi en hann ætti að venjast. Þetta hefði verið talsvert áfall fyrir hann í fyrstu en þessu hefði hann nú vanist. Þetta ætti ekki að koma á óvart. Sérfræðingar í stærri og agaðri samfélögum hafa þurft að vaða eld og brennistein til þess að komast til ábyrgðar. Samkeppnin er miklu meiri en hér og þeir þurfa að leggja svo miklu meira á sig til að komast til metorða. Sérfræðingarnir hafa þurft að dvelja í myrkvuðum bakherbergjum til fjölda ára til þess eins að komast inn í nógu gott framhaldsnám til að fyrirtækin sem þeir vilja vinna hjá taki við þeim þegar námi er lokið. Fyrirtækin planta þeim þá aftur í bakhbergin í nokkur ár áður en þeir takast á við þau störf sem íslenskir sérfræðingar ganga að sem vísum eftir fárra ára reynslu og litla sem enga menntun.

Ef fólksfæðin er sett til hliðar og við skoðum hvaða hæfileika okkar fámenna hjörð þarfnast mest held ég að við nemum staðar annars staðar en rektorinn í upphafi. Ef rætt er við þá frumkvöðla sem nú starfa og eru að reyna að hasla sér völl á hinum ýmsu alþjóðlegu mörkuðum þá er ég viss um að þeir fullyrði að flöskuháls farsældarinnar sé ekki skortur á tæknimenntuðu fólki. Þeim reynist erfiðara að finna stórkostlega sölu- og markaðsmenn en framúrskarandi forritara.

Við eigum mjög frambærilegt tæknifólk en við eigum ekki mjög marga farsæla og snjalla alþjóðlega markaðsmenn. Veggirnir sem frumkvöðlafyrirtækin reka sig á eru frekar tengdir markaðsmálum og sölu en tæknilegum lausnum. Íslensku frumkvöðlarnir eiga í vandræðum við að vekja athygli á vörunni og fá fólk til að kaupa hana. Þeir eiga erfitt með að átta sig á markaðinum og móta réttu stefnuna. Þetta breytist ekki með auknum fjölda tæknimanna en gæti breyst með betri viðskiptamenntun. Við eigum að sækja fram með aukinni menntun, fjölbreyttari reynsluheim og aukinni þekkingu. Sú þekking á ekki eingöngu að vera tækniþekking eða sölumennska – þó hvort tveggja sé mikilvægt. Við eigum að höfða til fjölbreytni og hærra menntunarstigs og með því treysta undirstöður vaxtar og velferðar á Íslandi. Á endanum megum við þó ekki gleyma því að við erum aðeins lítið þorp, sem mun aldrei leysa öll heimsins vandamál – til þess erum við bara allt of fá.