Það varð uppi fótur og fit í síðustu viku þegar kjararáð tilkynnti um hækkun launa stjórnmálamanna. Að sumu leyti er það eðlilegt því það er ansi klaufalegt að hækka launin svona mikið á einu bretti og það er eðlilegt að fólk staldri við þegar það sér svo háar prósentutölur. Kjararáði er hins vegar vorkunn því þegar litið er aftur í tímann sést að stjórnmálamenn hafa dregist aftur úr kjörum viðmiðunarhópa. Andrúmsloft pólitísks rétttrúnaðar eftirhrunsáranna bauð ekki upp á launahækkanir fyrir stjórnmálamenn.

Þetta er því fortíðarvandi sem verið er að glíma við og það er vandséð hvernig hægt er að leysa hann með öðrum hætti. Ef það er hækkað lítið í einu næst leiðrétting aldrei fram því launin hækka þá bara svipað og laun annarra. Það sem ætti að vera lykilatriði er hver launin eru eftir hækkun og hvernig þau eru í samanburði við aðra, ekki hve mikið þau hækkuðu á einhverju tímabili sem er valið af handahófi.

Það segir sitthvað um það hve lítt samkeppnishæf þau eru að verkalýðsleiðtogarnir sem gagnrýndu hækkunina hvað helst eru með hærri laun en alþingismenn verða með eftir hækkunina. Eftir sem áður eru stjórnmálin ekki samkeppnishæf í launum við þrýstihópana sem vinna meðal annars við að berjast fyrir hagsmunum félagsmanna sinna gagnvart stjórnmálunum.

Ef fólki finnst að stjórnmálamenn séu almennt af nægjanlega mikilli kalíberi þá þarf ekki að hækka launin umfram aðra, en ef fólki finnst, eins og mér, að kalíberið mætti vera meiri þá þarf að hækka launin. Maður fær jú það sem maður borgar fyrir, hvorki meira né minna.

Höfundur er lögfræðingur og MBA