Í nærri því 20 ár hef ég ferðast sjálfstætt um ýmis lönd í Asíu, Ameríku og Evrópu. Þegar ég byrjaði að ferðast á eigin vegum þótti það sæmilega djarft á Íslandi, en síðustu ár velja alltaf fleiri að skipuleggja sínar ferðir sjálfir í stað þess að fara í tilbúnar pakkaferðir.

Það eru í dag ótrúlega margar leiðir til að skipuleggja ferðalög og afla sér upplýsinga um áfangastaði, en þrátt fyrir það virðast alltof margir fara af stað í ferðalög án þess að hafa unnið undirbúningsvinnu fyrir utan það að bóka hótel og flug.

Mjög oft heyri ég af fólki sem bókar helgarferð til Stokkhólms (þar sem ég bý) og hugar ekki að vali á veitingastöðum til að borða á fyrr en það er komið til borgarinnar og þá oftast alltof seint til þess að fá borð á skemmtilegustu stöðunum á laugardagskvöldi.

Mitt fyrsta ráð til allra sem ætla að ferðast sjálfstætt er að kaupa ferða- handbók nokkrum vikum fyrir brottför. Lonely Planet dugar fyrir langflesta byrjendur. Fyrir þá sem eru á lengri ferðalögum getur það hins vegar verið þreytandi að allir sem lesa Lonely Planet fylgja sama plani, þannig að maður rekst á sama fólk á gistiheimilum í Hanoi og Bangkok. En fyrir einfaldari ferðalög þá dugar Lonely Planet fyrir flesta.

Þegar ferðahandbókin er komin er auðvelt að finna skemmtileg hótel sem tilheyra ekki endilega stóru bandarísku keðjunum, finna hluti til að gera á daginn og góða hverfis-veitingastaði til að borða á kvöldin. Ferðahandbókin hjálpar líka við að skipuleggja tímann, þannig að dagarnir fari í eitthvað annað en marklaust labb. Það getur verið gríðarlega mikilvægt, sérstaklega í styttri borgarferðum.