*

þriðjudagur, 17. júlí 2018
Leiðari
7. september 2017 14:40

Ferskir vindar

Costco hefur þegar haft mikil áhrif á íslenska verslun en þegar efnahagslífið fer í lægð þá fyrst mun hrikta í stoðum.

Haraldur Guðjónsson

Verslunin nefnist Bónus og dregur nafn sitt af þeim afslætti sem veittur verður af öllum vörum.“ Þetta sagði Jóhannes Jónsson heitinn í viðtali við DV þegar Bónus opnaði sína fyrstu verslun í Skútuvogi vorið 1989. Þó að þessi matvöruverslun hafi verið tiltölulega lítil, eða um 400 fermetrar, breytti hún íslenskri verslun. Neytendur fögnuðu lægra vöruverði en þeir höfðu áður séð. Bónus færði út kví­ arnar og í dag eru ríflega 30 Bónus-verslanir víðs vegar um landið. Í dag tilheyrir Bónus smásölurisanum Högum.

Nú, tæplega 30 árum eftir að litla verslunin var opnuð í Skútuvogi, stendur íslensk verslun á tímamótum. Ástæðan er fyrst og síðast sú að hérlendis ríkir almenn velmegun. Hagvöxtur er kröftugur og er hann að stórum hluta drifinn áfram af einkaneyslu enda kaupmáttur launa í hæstu hæðum. Þrátt fyrir að Ísland sé örmarkaður í stóra samhenginu hefur uppgangurinn í efnahagslífinu ratað inn á radar erlendra verslunarkeðja. Eins og líklega hver einasta mannsbarn veit þá opnaði Costco verslun í Kauptúni í Garðabæ í byrjun sumars. Viðtökurnar sem þessi bandaríski verslunarrisi hefur fengið hér eru líklega efni í doktorsritgerð í markaðsfræðum. Costco hefur verið fagnað eins og frelsaranum enda kannski ekki skrítið. Íslensk smásöluverslun var að mörgu leyti stöðnuð og með komu Costco hafa ferskir vindar blásið um neytendur. Ekki ósvipað og árið 1989.

Fyrir komu Costco voru gefnar út skýrslur og haldnir fundir víðs vegar um borgina, þar sem talað var um möguleg áhrif fyrirtækisins á íslenskan markað. Þrátt fyrir þetta, og að talað hafi verið um komu Costco til Íslands í mörg ár, virðist sem opnun verslunarinnar og áhrifin á markaðinn hafi komið mörgum í opna skjöldu.

Svo vill til að stærsta smásölufyrirtækið er skráð á markað og reksturinn því mjög gagnsær. Þann 23. maí, þegar Costco var opnað, þá stóð gengi hlutabréfa í Högum í 55,2 en við lokun markaða í fyrradag var það komið niður í 35,05. Á ríflega þremur mánuðum hefur gengi bréfanna því lækkað um tæplega 37% og markaðsvirði Haga rýrnað um 25 milljarða króna.
Þetta eitt segir okkur að markaðurinn hefur vanmetið áhrif Costco ellegar hefði hann verið búinn að leiðrétta sig enda ekki eins og opnunin hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Auðvitað hefur ýmislegt annað verið á döfinni hjá Högum eins og til dæmis kaupin á Lyfju, sem Samkeppniseftirlitið hafnaði. Það hefur auðvitað líka áhrif á gengi bréfa í félaginu. Úti í heimi, sérstaklega vestanhafs, hefur verið talað um „endalok smásölunnar“ og þá í tengslum við aukna netverslun en eins og stendur er erfitt að færa það upp á íslenska markaðinn, nema að litlu leyti.

Þó að markaðurinn hafi vanmetið áhrif Costco þá hafa forsvarsmenn Haga gert eitt og annað. Má þar til dæmis nefna að á síðasta rekstrarári Haga fór fram þónokkur endurskipulagning á rekstrinum. Verslunum var lokað og leigðum fermetrum fækkað um 20 þúsund, sem var nær helmingur alls verslunarrýmis félagsins. Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu.
Hagar eru hér teknir út fyrir sviga því það er langstærsta fyrirtækið á smásölumarkaði og auðvelt að nálgast upplýsingar um fjárhag þess. Áhugavert verður að skoða ársreikninga minni verslana og reyndar líka heildsala fyrir þetta ár.
Fleiri erlendar verslanakeðjur hafa augastað á Íslandi og má nefna Aldi, Illums Bolighus, Nespresso og GAP. Vonandi hafa íslenskir verslunarmenn lært af Costco-reynslunni.

Í öllu þessu umróti á smásölumarkaðinum er brýnt að hafa eitt í huga. Allar aðstæður til verslunarrekstrar eru með besta móti í dag. Eins og áður sagði þá er hér mikill hagvöxtur og einkaneysla í hæstu hæðum. Þegar efnahagslífið fer í lægð þá fyrst mun hrikta í stoðum. Í viðtali við Viðskiptablaðið í vitnar Finnur Árnason, forstjóri Haga, í kínverska spakmælið „Megir þú lifa áhugaverða tíma“ og bætir við: „Við erum að lifa áhugaverða tíma í íslenskri verslun …“

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.