Gunnar Smári Egilsson hefur á ótrúlega stuttum tíma breyst úr útrásarvíkingi í forystumann Sósíalistaflokks Íslands. Á útrásartímanum í Dagsbrún tókst Gunnari Smára að setja mörg met í taprekstri í fjölmiðlaútgáfu og kaupum á prentsmiðju sem vonandi verða aldrei slegin. Sumir gætu þó litið á þau afrek hans sem venesúelskan sósíalisma þar sem hann stuðlaði vissulega að auknum tekjujöfnuði með því að setja helstu auðmenn landsins næstum því á hausinn með skýjaborgum sínum.

***

Fjórir smárar verða fimm

Eftir að Gunnar Smári setti Fréttatímann á hausinn í fyrra hefur hann fengið viðurnefnið fimm blaða smári íslenskrar blaðaútgáfu en áður stjórnaði hann DV, Pressunni, Eintaki og Fréttablaðinu sem öll fóru í þrot. Margir starfsmenn Fréttatímans töpuðu launum á gjaldþroti blaðsins.

***

Formaður eða framkvæmdastjóri

Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Einar Þorsteinsson komu Óðni nokkuð á óvart á föstudagskvöld í kappræðum leiðtoganna í borginni með ákveðnum spurningum sem kjósendur vildu heyra svörin við. Ein spurning Einars fór illa í Gunnar Smára þegar hann spurði hvort kjósendur framboðsins gætu treyst Gunnari Smára, formanni flokksins, þar sem hann hefði oftar en einu sinni „skilið launafólk eftir kauplaust“. Gunnar Smári sagði Einar drullusokk og hann hefði viljað fara í kosningabaráttu gegn sér.

***

Þessi spurning átti rétt á sér. Það er þungt högg fyrir efnalítið fólk að fá ekki launin sín greidd. Gunnar Smári er stofnandi flokks sem á að heita málsvari lítilmagnans. Þetta er í fyrsta sinn sem flokkurinn býður fram. Það væri óeðlilegt að spyrja ekki um þetta. Að auki er ekki óeðlilegt að spyrja oddvita Sósíalista um þetta. Réttar hefði verið að spyrja. Sanna! Hvernig í ósköpunum getur þú boðið þig fram fyrir hirðmey útrásarinnar, Gunnari fimmblaðaSmára? Mann sem hefur haft kaupið af venjulegu launafólki.

***

Þegar Gunnar Smári var forstjóri Dagsbrúnar, nánar tiltekið í apríl 2006 gerði dótturfélag Dagsbrúnar ráðningarsamning við tvo menn, Svenn Aage Hyllerød Dam og Morten Nissen Nielsen. Samkvæmt samningum áttu Danirnir að kaupa hluti á genginu 1 en öðluðust jafnframt rétt til að selja þá aftur þannig að 1/3 hlutabréfanna yrði keyptur á genginu 45 hver hluti eftir 1. júlí 2009, 1/3 hlutabréfanna á genginu 45 hver hluti eftir 1. júlí 2010, og 1/3 hlutabréfanna á genginu 45 hver hluti eftir 1. júlí 2011. Og var mönnunum þannig tryggð 1.500% ávöxtun í þrjú ár, ávöxtun sem smálánafyrirtæki geta ekki látið sig dreyma um og þekkist ekki annars staðar en hjá handrukkurum og öðrum misindismönnum.

***

Hvað ætli framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, Gunnar Smári, segði ef forstjóri hér á landi myndi lofa stjórnendum hjá sér 45-falda ávöxtun á hlutabréfunum á þremur til fimm árum?

***

Samkvæmt auglýsingu skiptastjóra þrotabús Íslenskrar afþreyingar (áður Dagsbrúnar) var gjaldþrotaskiptum lokið þann 10. janúar 2012. Í svarbréfi skiptastjóra þrotabús Íslenskrar afþreyingar til lögmanns Dananna tveggja hafnaði skiptastjórinn kröfum þeirra um greiðslu söluverðsins á þeim grundvelli að Gunnar Smári hefði ekki haft umboð til að gera samkomulag við þá fyrir hönd félagsins. Að mati skiptastjórans hafði Gunnar Smári ekki umboð frá stjórn félagsins til að gera þennan fordæmalausa samning við Danina tvo og hlýtur það furðu að sæta að þessi gjörningur skuli ekki hafa verið rannsakaður af sérstökum saksóknara.

***

Allir sjá hversu ömurlegur fulltrúi öreiganna Gunnar Smári er. Egill Helgason er einn af mörgum sem hafa látið Gunnar Smára heyra það að undanförnu. „Þér tókst að ganga frá rekstri fjölmiðla sem voru nú allavegana með stórfé, eftir að hafa verið innan um svívirðilegustu kapítalista sem Ísland hefur alið og þjónað þeim. Það er einfaldlega staðreynd. Nú ertu annar maður – jú, sjáum hvað það endist. Mér finnst þetta aðallega hálf spaugilegt. Hins vegar er fólk þarna í sósíalistaframboðinu sem mér sýnist vera ágætlega marktækt, hugsjónafólk, sem er ekki bara að elta síðustu hugdettu sína. Það er ekkert sérlega marktækt þegar þú ert sífellt að lesa yfir hausamótunum á öðrum með þessum yfirgengilega besserwisserahætti. Smá auðmýkt gæti hjálpað.“

***

Gunnar Smári svaraði þessu á þá leið að þetta væri allt saman eitthvert rugl í Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra. Það er einmitt það.

***

Óðinn leggur til að Gunnar Smári fari til Venesúela og kynni sér ástandið þar sem sósíalisminn hefur eyðilagt eitt gjöfulasta land heims.

***

Hugsanlegt er að einhver af félögum hans úr útrásinni eigi eins og eina einkaþotu á lausu í ferðalagið. Þá getur hann rifjað upp dýrðardagana fyrir hrun. Sá er nefnilega vandfundinn sem hefur jafn mikla reynslu af slíkum loftförum og segir einn útrásarvíkingur við alla þá sem heyra vilja að enginn Íslendingur hafi ferðast oftar með einkaþotu en Gunnar Smári.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .