*

föstudagur, 26. apríl 2019
Leiðari
16. mars 2018 10:04

Fjallið sem stækkar

Tómlæti stjórnvalda gagnvart úrskurðum kjararáðs og ákvörðun þingmanna að taka við gríðarlegum launahækkunum hafa kynt undir bálinu á vinnumarkaði.

Haraldur Guðjónsson

Þau gleðitíðindi bárust í vikunni að samninganefndir Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara hefðu undirritað nýjan kjarasamning. Allir þeir sem upplifað hafa kennaraverkföll hljóta að fagna þessu. Nú er einnig svo komið að fimmtán af þeim sautján aðildarfélögum BHM, sem höfðu verið með lausa samninga frá 1. september á síðasta ári, eru búin að semja við ríkið. Þau tvö sem eiga eftir að semja eru Félag íslenskra hljómlistarmanna og Ljósmæðrafélag Íslands.

Við þetta má bæta að fyrir rúmum tveimur vikum ákvað meirihluti formanna aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands (ASÍ) að greiða atkvæði gegn því að segja upp kjarasamningum. Sú ákvörðun stóð þó mjög tæpt því hjá ASÍ er kerfið þannig að til að segja upp kjarasamningum þarf hvort tveggja samþykki meirihluta formanna og meirihluta félagsmanna. Að baki því 21 aðildarfélagi sem vildi segja samningnum upp stóðu tæp 67% félagsmanna ASÍ. Ólgan í verkalýðshreyfingunni er því augljós.

Vissulega má fagna því að verkalýðsforystan hafi ákveðið að segja ekki um samningum og að búið sé að semja við grunnskólakennara og BHM-félögin fimmtán en það er þó eitt sem þeir samningar eiga allir sammerkt. Þeir gilda einungis í eitt ár. Það er engin tilviljun að svo er. Í desember losna nefnilega 80 samningar á almenna vinnumarkaðnum og forsvarsmenn opinberu félaganna eru fullkomlega meðvitaðir um þá staðreynd. Þeir vilja sjá hverju Alþýðusambandið nær fram í sínum viðræðum um næstu áramót til þess að geta mótað nýja kröfugerð þegar þessir árssamningar renna út. Þetta er gamalkunnugt stef og þreytt. Kjaramálin á Íslandi eru föst í sömu hjólförunum ár eftir ár.

Til viðbótar þeim 80 samningum sem losna í desember þá losna um 150 samningar í mars á næsta ári. Með þeim árssamningum sem nú er verið að skrifa undir þá er í raun verið að fresta vandanum. Fjallið sem samninganefndir á opinbera og almenna vinnumarkaðnum standa frammi fyrir stækkar bara og stækkar.

Kjararáð hefur ítrekað komið með úrskurði um gríðarlegar launahækkanir til embættismanna og kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Launahækkanirnar hafa verið á bilinu 30 til 45% og auk þess hefur fólkið sem nýtur góðs af þessum úrskurðum fengið eingreiðslur upp á milljónir króna.

Á þessum vettvangi hefur áður verið bent á þá miklu ábyrgð sem stjórnvöld bera á þeirri ólgu sem ríkir á vinnumarkaði. Tómlæti stjórnvalda gagnvart úrskurðum kjararáðs og ákvörðun þingmanna að taka við gríðarlegum launahækkunum hafa kynt undir bálinu.

Það verður gríðarlega flókið fyrir ríkisstjórnina að vinda ofan af þessu og eins gott að í stjórnarráðinu sé verið að móta einhverja stefnu um það hvernig stjórnvöld geti liðkað fyrir og losað þann hnút sem málið er komið í. Hnút sem þrengist bara og þrengist. Þó að staða efnahagsmála sé góð í dag, hagvöxtur heilbrigður og verðbólgan lág, getur hún breyst hratt. Það eru blikur á lofti. Árið 2019 gæti orðið gríðarlega erfitt fyrir íslenskt atvinnulíf.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim