Álag á skuldabréfaútgáfur sveitarfélaga hefur farið lækkandi frá árinu 2010. Útlit er fyrir að áformuð aukning í fjárfestingum sveitarfélaga um ríflega 23 milljarðar króna á þessu og næsta ári verði ekki fjármögnuð að fullu með rekstrartekjum.

Lesandi þekkir að fjármunaeign hins opinbera hefur lækkað um 13 prósentustig sem hlutfall af vergri landsframleiðslu frá árinu 2010 samkvæmt þjóðhagsreikningum. Í ljósi þess að rekstrarafkoma sveitarfélaga hefur farið batnandi hafa þau leitast eftir að auka fjárfestingar sínar. Samkvæmt Hagstofu Íslands reyndist halli þeirra 109 milljónir króna árið 2016 samanborið við 14 milljarða króna halla árið áður.

Samantekt Sambands sveitarfélaga á fjárhagsáætlunum sveitarfélaga bendir til að fjárfesting þeirra verði um 23 milljörðum króna umfram sölu rekstrarfjármuna á líðandi og næsta ári. Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar frá síðastliðnum 21. mars er talið að fjárfestingar sveitarfélaga fari um 29 milljörðum króna fram yfir tekjur af gatnagerðargjöldum. Talið er að slík útgjaldaaukning valdi neikvæðri heildarafkomu sveitarfélaga um nærri 8 milljarða króna á þessu og næsta ári.

Sömuleiðis metur fjármálaráð í nýlegri álitsgerð sinni um fjármálastefnu árin 2017-2022 að halli verði á rekstri sveitarfélaga árin 2017 og 2018 sem að mestu má rekja til aukinnar fjárfestingar.

Í ljósi þess að sveitarstjórnarkosningar eru fyrirhugaðar á næsta ári og því sé nokkuð mikil festa í áætluðum fjárfestingum má gera ráð fyrir að horft verði til skuldabréfamarkaðarins sem fjármögnunarleið. Lækkandi vaxtakostnaður undanfarin ár ýtir enn frekar á þá leið. Myndin sýnir hvernig þróun álags ávöxtunarkröfu skuldabréfa sveitarfélaga ofan á ríkistryggða vexti hefur verið í útboðum frá árinu 2010.

Frá árinu 2013 hefur álagið farið lækkandi og þá sérstaklega þegar horft er til þróun álagsins fyrir Reykjavík. Samkvæmt KODIAK Excel var álagið að meðaltali rúmlega 86 prósentupunktar (pkt.) í fimmtán útboðum árin 2012 til 2013 en um 35 pkt. í sjö útboðum árin 2015 til 2016. Á sama tíma lækkaði skuldahlutfall borgarinnar um rúm 40 prósentustig í 194% – miðað við níu mánaða uppgjör. Að auki hefur eiginfjárhlutfall hennar hækkað um tíu prósentustig á þessum þremur árum í 45%.

Flest þeirra sveitarfélaga sem tiltekin eru á myndinni – fyrir utan Garðabæ og Akureyri – eiga það sammerkt að hafa skuldahlutfall nálægt eða umfram það 150% viðmið sem fram kemur í sveitarstjórnarlögum. Það gerir til dæmis burðarásnum í fyrirhuguðum fjárfestingum – Reykjavík – erfitt um vik að selja mikið magn inn á markaðinn þar sem litlar líkur eru á að tekjur af fjárfestingunum verði það háar að skuldahlutfallið haldist óbreytt.

Álag sveitarfélaga
Álag sveitarfélaga

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.