*

föstudagur, 19. apríl 2019
Andrés Magnússon
18. mars 2017 18:17

Fjáröflun fjölmiðla

Það er samt eitthvað fjarskalega skrýtið við að Vísir og fréttastofan sé metin á 0 kr.

Haraldur Guðjónsson

Það er fjallað annars staðar í blaðinu um kaup Vodafone á innvolsinu úr 365 miðlum að Fréttablaðinu og tímaritinu Glamour undanskildu. Eða samruna rekstrareininga eða hvað menn vilja kalla; eftir kaupin verður Ingibjörg Pálmadóttir stærsti einstaki hluthafinn í Vodafone.

En það er umhugsunarvert, að frá því að upphaflega var samið um kaupin hafa Vísir og fréttastofa 365 nú bæst við í kaupauka, en án þess að svo mikið sem króna bætist við verðið. Vodafone hefur með öðrum orðum ekki vilja stræka dílinn nema meira fylgdi með. Gott og vel, en það hlýtur að vekja spurningar um eiginlegt virði þessara hluta. 

Nú er það vel skiljanlegt að Vodafone vilji eiga efnisveitu og jafnvel að betra sé að hafa fréttastofu og vefmiðil með í því, en það er samt eitthvað fjarskalega skrýtið við að Vísir og fréttastofan sé metin á 0 kr.

Upphaflega var gert ráð fyrir að 365 héldi áfram rekstri fréttastofu fyrir ljósvakamiðla Vodafone, þó ekki væri það nú rakið hvernig það skyldi jafnað. Menn hafa samt haft einhverja hugmynd um virði þeirrar þjónustu, sem nú virðist hafa gufað upp.

***

Sumir lyftu augnabrún yfir því að símfélag væri að fara að reka eina af þremur helstu fréttastofum landsins. Fitjuðu jafnvel upp á trýnið. En það er erfitt að sjá að það skipti sérstöku máli gagnvart fréttastofunni hvers kyns móðurfélagið er. Það hafa áður verið teknir svipaðir snúningar þar á bænum og ekki í fyrsta sinn sem þessi fyrirtæki eru í samkrulli.

Öðru máli gegnir auðvitað ef ráðandi eigendur reyndu að hafa áhrif á fréttastofuna, félagið væri hluti af stærri viðskiptablokk, sem ástæða væri til þess að gefa gætur af samkeppnisástæðum, eða ámóta. En þannig er því ekki farið og þangað til er ástæðulaust að gera veður út af því.

***

Þetta er engan veginn séríslensk þróun, þó vissulega hafi hún hafist fyrir alllöngu, en ekki gengið eftir af ýmsum ástæðum, hruni og ýmsu veseni. Erlendis hefur svipaðrar þróunar gætt, þar sem netveitur, efnisveitur og efnisframleiðendur hafa farið í samstarf og sameiningar alls konar.

Hvort það á allt vel saman vita menn ekki vel, en það má reyna og verður eiginlega að reyna á þessu mikla breytingaskeiði fjölmiðlunar.

Það er erfitt fyrir Stöð 2 að keppa við nýja miðla Netflix, Amazon og Apple eftir því sem þeir berast til landsins. Því kann það að henta efnis- og netveitum að leggja saman kraftana, veita áskrifendum stærri (og ábatasamari) pakkadíla o.s.frv. Það er það sem vakir fyrir mönnum með þessum samruna og þau hjá 365 og Vodafone hafa þó þennan kost, hvernig svo sem úr honum rætist. En hvernig á Ríkisútvarpið að bregðast við breyttu umhverfi? Það selur lóðina og fjölskyldusilfrið ekki oftar en einu sinni.

***

Fjáröflun fjölmiðla er víðar vandamál. Fréttatíminn hefur þannig verið að boða stórfenglegar nýjungar á því sviði, þar sem reksturinn er klofinn. Öðru megin hefðbundið eignarhald á rekstri blaðsins, auglýsingasölu, prentun og dreifingu, þar sem menn fá útborgað og eftir atvikum arð. Hinu megin við vegginn reki sömu menn ritstjórn fyrir styrktarfé almennings. Af því ritstjórnin á að vera í almannaþágu, en tekjupóstarnir í einkaþágu

Af þessu tilefni var boðað til fjölmenns stofnfundar styrktarmannafélagsins Frjálsrar fjölmiðlunar í Háskólabíói… nema hvað fjölmennið lét á sér standa.

Ríkisútvarpið sagði frá fundinum og ræddi við Gunnar Smára Egilsson, ritstjóra, útgefanda og eiganda. Þar var raunar ekkert farið út í þessa hálf-marx­ísku sálma um að hver og einn almennings skyldi leggja af mörkum eftir getu og eigendurnir bera úr býtum eftir þörfum. Þar var ekki heldur spurt út í þátttöku eða hvort þetta átak hafi dugað til þess að tryggja fjárhag Fréttatímans, einstakra deilda hans, eigenda eða starfsmanna. Það var mikil óforvitni.

Raunar hefur enginn fjölmiðill fjallað frekar um það. Ekki heldur Fréttatíminn. Sem óneitanlega er einkennilegt. Hvort útbreiddur fjölmiðill lifir eða deyr er ljóslega fréttaefni og þar hefðu ofureinfaldar og fullkomlega augljósar spurningar – örlítil gamaldags, hlutlæg blaðamennska – leitt hið sanna og fréttnæma í ljós.

***

Ströng skilyrði eru sett í lögum og reglugerðum um almenningshlutafélög og skuldabréfaútgáfu. Sem og happdrætti og opinberar fjársafnanir, einmitt til þess að koma í veg fyrir að óprúttnir menn geri sér hrekkleysi og velvilja fólks að féþúfu. Ætti eitthvert slíkt regluverk að ná yfir svona lagað?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim