Joseph Pulitzer, sem blaðamannaverðlaunin víðfrægu eru kennd við, hefur oft verið nefndur „faðir nútímablaðamennsku", en hann átti hugmyndina að blaðamannaskólum undir lok á 19. aldar, þar sem blaðamenn fengu skipulega þjálfun í vinnubrögðum, en að baki henni bjó hugmynd hans um eðli blaðamennsku og skyldur blaðamanna.

Kenning Pulitzers um blaðamennsku gekk ekki síst út á skyldur blaðamanna við þjóðfélagið, að þeir væru fjórða stéttin (stundum nefnd fjórða valdið). Hann lagði ofurkapp á hlutlausa og faglega frásögn til þess að uppfylla þær skyldur og þær hugmyndir öðlust mikla útbreiðslu. Meðal annars vegna þess að þær hentuðu að miklu leyti þeim hugmyndum um stjórnun, verkskipan (jafnvel færibandavinnslu), sem þá höfðu rutt sér rúms í Bandaríkjunum og breiddust skjótt út um heimsbyggðina.

Ein afleiðing þess var hinn staðlaði fréttastíll, sem kenndur var í blaðamannaskólum og fréttastofur tóku upp, beinlínis til þess að fréttirnar væru einsleitar, bæru ekki höfundareinkenni og einu gilti hver kæmi að vinnslu þeirra.

Það fyrirkomulag hefur ýmsa kosti. Það auðveldar mjög alla frekari vinnslu fréttanna, tryggir að menn fylgi ritstjórnarreglum um heimildir, gleymi ekki að geta nafns og aldurs viðmælenda, gæti að því að nota ekki of flúrað mál, gangi ekki út frá of nákvæmri þekkingu lesandans á viðfangsefninu og auðveldaði ritstjórum að stytta fréttir, því rétt skrifaða frétt undir slíkum stíl má stytta blindandi aftan frá.

En gallinn er kannski sá að fréttir hafa fyrir vikið orðið æ þurrlegri, skýrslulegri og beinlínis leiðinlegri. Það er ekkert sem segir að fréttir geti ekki verið fjörlegar, vel stílaðar og fullar frásagnargleði án þess að verða í nokkru ónákvæmari eða óskýrari.

Þetta á raunar ekki aðeins við blaðafréttir, því ljósvakafréttir geta allt eins verið þessu sama merki brenndar. Jafnvel enn frekar, vegna þess að þær eru meira áberandi þegar þær koma í útvarpi eða sjónvarpi, því upplesturinn verður eintóna og frá- sögnin víkur fyrir upptalningu staðreynda.

Það er nokkuð sem íslenskir blaðamenn mættu vel hugleiða, því íslenskan er í eðli sínu sagnamál, hentar vel til frásagna og í því eru ýmis fín blæbrigði, sem sjálfsagt er að nýta sér til þess að segja nákvæmar fréttir í stuttu og knöppu máli. Það er því miður frekar fátítt.

Sérstaklega er hann hvimleiður skýrslustíllinn, sem verður enn meira óþolandi, þegar sagðar eru fréttir upp úr skýrslum, hvort sem það nú eru lögregluskýrslur, umhverfismöt, álitsgerðir, dómar eða fræðigreinar, sem menn freistast til þess að vitna í í löngu máli. Vel má vera að þar séu stórmerkilegar staðreyndir á ferð, en það er eftir sem áður eitt meginhlutverk fjölmiðla að taka slíkt efni til skoðunar, finna meginatriðin og endursegja svo, til þess að spara lesendum, áheyrendum eða áhorfendum tíma og draga fram kjarna málsins í fáum orðum.

Í þessum dálki hafa oft verið nefnd dæmi um slíkan skýrslustíl eða þegar sagt er frá einhverjum tiltölulega lítilfjörlegum málum af óskiljanlegri nákvæmni. Stundum svo mikilli að fréttaneytandinn er engu nær, því hvernig á hann að geta greint á milli aðalatriða og aukaatriða ef fréttamaðurinn getur það ekki?

En svo má líka gera lágmarkskröfur til fréttagildis. Þannig sagði Ríkissjónvarpið þá „frétt“ fyrir úrslitakeppni Eurovision að áhugamenn um söngvakeppnina væru ekki á einu máli um hver bæri sigur úr býtum. Einmitt það. Dagskrárkynningar eiga ekki heima í fréttum.

Hér var í liðinni viku drepið á afskipti Róberts Wessman af fjölmiðlum, sem mikið til fælust í því að þagga niður í þeim ef þeir mynduðust við að segja fréttir af honum og umsvifum hans.

Ekki er það þó á alveg eina bók lært. Þannig mátti lesa um það á Vísi hvernig Róbert hefði á „stórgóðum fundi MBA-námsins í Háskólanum“ sýnt stórmerkilega mynd af munnþurrku:

Fyrsta glæran sem hann birti vakti mikla athygli fundarmanna; það var mynd af servíettu. Á hana hafði hann hripað niður metnaðarfullar hugmyndir sínar á fundi með fjárfestum í hádegisverði á veitingahúsi í New York árið 2009. Eftir svolitla þrautagöngu á milli fjárfesta á erfiðum tímum fjármálakreppunnar var það loksins þarna í hádegisverðinum í New York sem hugmynd hans fékk hljómgrunn. Párið á sérvíettuna reyndist vinningsformúlan. Servíettan er núna á vissan hátt tákn um upphaf Alvogen.

Og svo framvegis. Sennilegast þarf að leita aftur til ársins 2007 til þess að finna aðra eins helgisögn af lifandi manni í íslenskum fjölmiðli og það fór nú eins og það fór.

Skýringarinnar var ekki mjög langt að leita, þó ekki væri hún það fyrsta sem lesendur sáu. Fyrir neðan greinina (sem var e.k. umgjörð utan um upptöku af fyrirlestri Róberts, Innsýn frumkvöðuls) stóð skýrum stöfum: „Þessi umfjöllun er unnin í samvinnu við Háskóla Íslands og Alvogen.“

Þetta var með öðrum orðum ekki frétt eða blaðagrein, heldur keypt kynningarefni. Nú er birting kynningarefnis svo sem ekki einsdæmi í íslenskum fjölmiðlum, alltof algengt raunar, en það er nokkur nýlunda að það sé notað til persónulegrar upphafingar af þessu tagi.

Fyrirsögn vikunnar var á síðu 2 í Fréttablaðinu í gær: „Enn fækkar í Árneshreppi"

Þetta má heita lókalhúmor blaðamanna, en mörg undanfarin ár hafa reglulega birst fréttir undir sömu eða svipaðri fyrirsögn af mannfækkun í þessu afskekktasta og fámennasta sveitarfélagi landsins. Að þessu sinni mátti þó rekja fréttina til málamyndaflutninga hjá Hagstofu, sem síðan gengu til baka. Við blasir að í Árnesi vinnur sá kosninguna á laugardag, sem lofar því að reisa stóran vegg við sveitarmörkin og láta fólkið af mölinni borga fyrir hann.